Fréttir
  • Hólmaháls

Meira um blæðingar

blæðingar eiga sér mjög mismunandi orsakir

25.1.2013

Blæðingar í klæðingu eins og landsmenn hafa fengið að kynnast að undanförnu er vandamál sem ekki er alltaf af sama toga. Vetrarblæðingar eins og nú komu upp eru ekki af sama toga og sumarblæðingar þar sem sól og hiti hefur mest að segja. Einnig er hætta á blæðingum ef rignir mikið í kjölfar þess að klæðing er lögð.

Vegna fréttar í hádeginu í Útvarpinu í dag, 25. janúar, um blæðingar og viðtal í Sjónvarpsfréttum við vegamálastjóra í gær er nauðsynlegt að taka fram að ástæða blæðinga á veginum um Hólmaháls árið 2009 er sú að það rigndi gríðarlega dagana og vikurnar eftir að lögð var klæðing á veginn.  

Þannig að sú blæðing er ekki af sama meiði og vetrarblæðingarnar núna. Ekki hefði skipt máli hvaða mýkingarefni hefði verið notað en þarna var notuð repjuolía, ekki etýlesterar úr fiskolíu (sem ýmsir kalla lífolíu sem má líta á sem samheiti yfir repjuolíu og etýlesterana). Strax í kjölfar útlagningarinnar á klæðingunni á veginum um Hólmaháls fór að rigna og rigndi nánast daglega vikum saman. Enda fór svo að klæðingin fór mjög illa en í vetrarblæðingunum núna sér ekki á klæðingunni.

Sumarblæðingar sem einnig var minnst á í fréttinni orsakast af sól og hita og þær blæðingar voru langverstar þegar notaður var hvítspíri eða White spirit. Borið hefur minna á sumarblæðingum með repjuolíunni og etýlesterenum úr lýsinu. Reynst hefur vel að dreifa sandi á sumarblæðingar til að stöðva þær og koma í veg fyrir að tjara berist í miklu magni á bíla.

Fram hefur komið í þessari umræðu að hjá Vegagerðinni hafa menn þekkt vetrarblæðingar í einhverjum mæli síðan að minnsta kosti árið 1995. Í svörum vegamálastjóra í Sjónvarpsfréttum í gær um að búið sé að nota þessi efni í nokkur ár um allt land og að það sé í fyrsta sinn sem þetta kemur í ljós núna var verið að vísa til vetrarblæðinga og þess mikla umfangs blæðinga sem varð þessa daga og engin fordæmi eru fyrir.

Vandamálin á Hólmahálsi snerust á engan hátt um mýkingarefnið sem var notað heldur til þess að það rigndi eftir að klæðingin var lögð út sem gert var heldur seinna á árinu en mælt er með, af óviðráðanlegum orsökum. Viðtal við vegamálastjóra í gær snerist ekki um það vandamál.