Fréttir
  • Heflun á Ströndum

Minna viðhald, minni þjónusta árið 2010

óhjákvæmilegt verður að draga úr þjónustu

27.5.2010

Þar sem fjármagn til viðhalds og þjónustu vegakerfisins verður töluvert minna en á síðustu árum er óhjákvæmilegt annað en að draga úr viðhaldi og sumarþjónustu í ár. Miðað við þær upphæðir sem er að finna í samgönguáætlun, sem er enn í meðförum Alþingis, verða framlög til viðhalds og þjónustu í ár um 10% lægri í krónum talið en í fyrra. Fjárveitingar höfðu þá lækkað bæði árin 2008 og 2009.

Áætlað hefur verið að raunlækkun á framlagi til viðhalds og þjónustu frá árinu 2007 sé um 28%, að teknu tilliti til verðlags. Vegagerðin áætlar að fjárveitingar árin 2011 og 2012, í þeirri samgönguáætlun sem lögð hefur verið fram, nægi aðeins fyrir um 65% af áætlaðri þörf.

Á malarvegum verður því minna heflað í sumar, rykbinding og mölburður verður minni. Í viðhaldi bundinna slitlaga verður í meira mæli gert við hluta vegar, (hjólfarafyllingar, blettaviðgerðir og kantlagfæringar), í stað heilla yfirlagninga svo dæmi séu tekin.

Vegagerðin mun leita allra leiða til að skerða þjónustuna sem minnst. Leiðir til þess eru m.a. að forgangsraða verkefnum enn frekar og efla alla áætlanagerð og kostnaðareftirlit í tengslum við hana, því fyrir liggur að ekki verður unnt að halda óbreyttu þjónustustigi á vegakerfinu. Vegfarendur munu því miður í auknum mæli verða varir við versnandi ástand vega.

Fjárveitingar til viðhalds og reksturs malarvega eru nú um 60-65% af áætlaðri þörf en malarvegir eru ríflega 7700 km eða 60% af öllu vegakerfinu. Því þarf að takamarka  heflun og rykbindingu  nokkuð, en reynt verður eftir megni að halda umferðarmeiri vegum í þokkalegu ástandi og rykbinding við sveitabæi, þéttbýli og sumarhúsabyggð hefur ákveðinn forgang. Á fjallvegum landsins má búast við að eftir að þeir hafa verið opnaðir að vori verði lítið um heflun eftir það. Viðgerðir á bundnum slitlögum þarf að takmarka í meira mæli við hjólfarafyllingar, blettun og kantlagfæringu en minna verður um heilar yfirlagnir. Til lengri tíma litið mun ástand bundinna slitlaga versna og yfirborðið mun smám saman verða ósléttara.

Það segir sig sjálft að á næstu árum mun minna viðhald koma fram í verra ástandi vegyfirborðs (slitlaga), yfirborð vega verður ósléttara og bundin slitlög munu verða sprungnari, sem þýðir að  vatn mun eiga greiðari leið niður í berandi hluta vegarins sem leiðir af sér minna burðarþol. Á malarvegum mun ganga enn frekar á unnið efni malarslitalagsins en heflun er of víða komin niður í sjálft burðarlagið, sem þýðir skert burðarþol og grófara vegyfirborð.

Rétt er einnig að geta þess að í upphafi ársins var kynntur niðurskurður á öðrum liðum sem einnig kölluðu á samdrátt í þjónustu, svo sem í snjómokstri og almenningssamgöngum, í kjölfar lækkandi fjárveitinga.