Fréttir
  • Grímseyjarferjan

Ekki er öll vitleysan eins

enn um Grímseyjarferju

6.9.2007

Ekki er öll vitleysan eins

Sem betur fer fyrir umræðuna í landinu þá er ekki öll vitleysan eins. Umræðan um Grímseyjarferju er líka orðin ákaflega margbrotin og ekki alltaf allt jafn skynsamleg. Steininn tók nú eiginlega úr þegar stungið var upp á því að selja nýju Grímseyjarferjuna í núverandi ástandi og láta smíða nýja ferju á mettíma.

Þrátt fyrir að ýmislegt hafi farið úrskeiðis varðandi kaup og endurbætur á ferjunni þá er enn svo að þessi kostur er töluvert hagkvæmari en nýsmíði. Reikna má með að nýtt skip myndi kosta a.m.k. 7-800 milljónir króna, og enn meira ef menn þyrftu nú að flýta sér við smíðina. Því er núverandi kostur 2-300 milljónun króna ódýrari fyrir skattgreiðendur en nýsmíði.

Endurbætur á gamla Sæfara voru aldrei raunhæfar, viðhald hefði orðið dýrt og þótt koma hefði mátt skipinu í stand fyrir 2009 hefði það einungis dugað til 2018, auk þess sem dýrt og erfitt hefði verið að brúa bilið meðan gert væri við gamla Sæfara.  

Nýja Grímseyjarferjan sem nú liggur í Hafnarfjarðarhöfn verður auk þess mun betra skip, hraðskreiðara, hagkvæmara og aðstaða fyrir farþega mun betri. Miklu munar fyrir Grímseyinga að stytta siglingatímann um eina klukkustund.

Nýja ferjan mun gera meira en að standa undir væntingum og þjóna landsmönnum vel. Nýtt skip væri að sjálfsögðu líka góður kostur, bara dýrari. En að fara þá leið núna að kaupa nýtt væri nú ekki til að bæta ástandið. Miðað við þá neikvæðu umræðu sem Grímseyjarferjan hefur fengið er óvíst að mikið fengist fyrir skipið á markaði. Að þessu samanlögðu myndi nú kostnaðarliðurinn í heild fara fljótlega yfir milljarðinn.  

Oilean Arann var ekki fallegt þegar það var keypt og því hafði verið illa viðhaldið. Þeir sem sigldu skipinu hingað til lands láta hinsvegar vel af því og eftir þær miklu endurbætur sem verða gerðar er tæplega um sama skip að ræða. Staðreyndin er sú að þótt ýmislegt hefði mátt gera öðruvísi má reikna með því að fá gott skip fyrir allt þetta fé sem búið er að leggja í verkefnið. Það er óþarfi að fara að taka upp á því núna að henda peningum út um kýraugað.