Fréttir
  • Einbreið brú

Þvottur vegna blæðinga

Hvatning til að fara sér hægt þar sem verið er að leggja klæðingu

4.7.2007

Helst vill Vegagerðin að vegfarendur komist leiðar sinnar án þess að ata út bíla sína og án þess að vegakerfið slitni. Það er hinsvegar ekki mögulegt. Vegfarendur geta ekki vænst þess að komast á leiðarenda án þess að bílarnir óhreinkist. Vegirnir slitna og ryk myndast, sérstaklega á malarvegunum. Sól og rigning ásamt þungri umferð skemma einnig bundna slitlagið þannig að lokum þarf að leggja nýtt slitlag.

Stundum koma samt upp sérstök tilvik eins og átti sér stað fyrir norðan Akureyri á dögunum. Vegna sérstakra aðstæðna, samspils mikils hita, glampandi sólar og umferðar þungra bíla urðu miklar blæðingar í nýlegri klæðingu, en svo er það kallað þegar tjaran bráðnar og leitar upp úr klæðingunni. Slíkt getur einnig gerst þegar þung umferð er og skyndilega hellirignir ofan í nýlagða klæðingu. Mjög er erfitt að ráða við þessar aðstæður þegar þær koma upp og miklar skemmdir geta orðið á slitlaginu -- á stuttum tíma. Eina ráðið er að keyra ofan í tjöruna malarefni til að binda hana eins fljótt og auðið er. Afar mikilvægt er að umferðin fylgi hraðamerkingum meðan á þessu stendur. Bæði geta bílar skemmst af steinkasti og þá er meiri hætta á að lagfæringar á slitlaginu mistakist þegar greitt er ekið.

Blæðingarnar fyrir norðan voru af þeirri stærðargráðu að ekki er hægt að ætlast til þess að vegfarendur geri ráð fyrir slíku á ferð sinni um vegi landsins. Vegagerðin sættir sig heldur ekki við svo miklar blæðingar. Þegar bílar atast út vegna óvenju mikilla blæðinga býður Vegagerðin þeim að koma á næstu svæðisskrifstofu, áhaldahús eða miðstöð Vegagerðarinnar í Reykjavík og láta skoða bifreiðina, þeir fá síðan útgefna beiðni á tjöruþvott á viðurkenndri þvottastöð ef nauðsyn krefur. Þetta gerir Vegargerðin án þess þó að viðurkenna að um bótaskyldu sé að ræða.

Vegagerðin mun í ljósi reynslunnar fara yfir verklagið í þessum tilvikum og leita leiða til að tryggja að vegfarendur verði fyrir sem minnstum óþægindum.

Verði annars konar tjón sem hugsanlega megi rekja til ástands vega hefur sú vinnuregla verið sett að óskað er eftir lögregluskýrslu um málið og ennfremur upplýsingum um fjárhæð tjóns samkvæmt reikningi eða með kvittun. Lögregluskýrslan er skoðuð með tilliti til þess hvort rekja megi tjónið til mistaka af hálfu Vegagerðarinnar eða hvort ökumaður hefði mátt afstýra óhappi með eðlilegri aðgæslu við aksturinn. Ef rekja má tjón til mistaka við viðhald vegar til dæmis sökum þess að merkingar vantar við vegskemmd sem vitað er um, þá kemur til álita að bæta tjónið. Hafi ökumaður sýnt eðlilega aðgæslu en samt ekki komist hjá tjóni er það bætt en að öðrum kosti ber viðkomandi tjón sitt sjálfur.