Fréttir
  • Jarðgöng eru reglulega þrifin enda mikil óhreinindi sem setjast í sprautusteypuna.
  • Steinþór Björnsson.
  • Skipt um peru í jarðgöngum.
  • Vaktkerfi jarðganga gerir viðvart þegar frávik verða. Með kerfinu má einnig fjarstýra ýmsum aðgerðum. Til dæmis er hægt að loka göngum og kveikja á blásurum.
  • Almannaskarðsgöng. Hér er búið að steypa kantstein og axlir í göngunum.
  • Sex brunaæfingar hafa farið fram undanfarna mánuði. Hér er brunaæfing í Strákagöngum.
  • Vegagerðin á æfingabúnað í formi reykkerru sem hefur verið notaður við brunaæfingar slökkviliða.

Viðhald og rekstur jarðganga

Fyrirlestur af morgunfundi Vegagerðarinnar í janúar

4.4.2024

Mikil vinna liggur að baki því að viðhalda og reka jarðgöng. Kostnaður er talsverður en rekstrar- og viðhaldskostnaður síðustu ár hefur verið um 600 til 900 m.kr. Steinþór Björnsson verkefnastjóri jarðganga á þjónustusviði Vegagerðarinnar hélt erindi um viðhald og rekstur jarðganga á morgunfundi Vegagerðarinnar í janúar.

„Við erum sífellt að endurnýja búnað í jarðgöngum enda er líftími kerfanna mun styttri en ganganna sjálfra. Það fer eftir eðli búnaðarins hver endingartíminn er en oft er miðað við að rafbúnaður endist í tíu til tólf ár, en vélbúnaður í allt að 25 ár,“ segir Steinþór og útskýrir að viðhaldi jarðganga sé skipt í sex flokka: 

Vöktun og öryggi

  • Myndavélakerfi
  • Eftirlitsbúnaður
  • Stjórnbúnaður
  • Vaktkerfi

Fjarskipti

  • Tetra kerfi
  • GSM kerfi
  •  Útvarp (FM)

Lýsing

  • Veglýsing
  • Daglýsing
  • Neyðarlýsing
  • Upplýsingaskilti

Uppfærslur vegna aukinna alþjóðlegra krafna

  • Hvalfjarðargöng
  • Almannaskarðsgöng
  • Fáskrúðsfjarðargöng

Endurnýjun vélbúnaðar

  • Blásarar
  • Dælur
  • Annar tengdur búnaður

Styrking og viðhald á bundnu slitlagi 

  • Viðhald og lagfæring á steypuhulu, slitlagi og styrkingum

Kröfur um búnað í jarðgöngum eru sífellt að aukast. „Með hverjum nýjum jarðgöngum kemur eitthvað nýtt fram,“ segir Steinþór og nefnir dæmi um þær nýjungar sem hafa bæst við í síðustu göngum. „Þetta eru til dæmis atvikamyndavélakerfi, LED lýsing, steyptar axlir og kantar, kantlýsing og meðalhraðamyndavélar.“

Steinþór segir atvikamyndavélakerfið mikilvægasta skrefið í að bæta öryggi í göngunum og auðvelda viðhald þeirra og rekstur. Slíkt kerfi er nú í Hvalfjarðargöngum, Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum og unnið að uppsetningu slíks kerfis í Almannaskarðsgöngum.

„Við vinnum einnig að því að LED-væða öll okkar göng enda eru sumar perur í eldri göngum ófáanlegar í dag.“

Steinþór segir talsverða breytingu felast í steyptum öxlum og kantlýsingu. „Bæði er það öryggismál að hafa góða lýsingu í köntum en munar einnig miklu varðandi hreinlæti. Í eldri göngum eru malaraxlir sem safna í sig óhreinindum en við erum að vinna í að steypa axlir nokkrum í eldri göngum.“

Vegagerðin kemur að uppsetningu meðalhraðamyndavéla en sér að öðru leiti ekki um rekstur þeirra. Þær munu spila stórt hlutverk í því að stemma stigu við of hröðum akstri í göngunum. 

Framkvæmdir í Almannaskarðsgöngum

Steinþór greindi í erindi sínu frá nýjustu framkvæmdum við Almannaskarðsgöng. „Þetta er verkefni sem varð til eftir úttekt ESA, eftirlitsstofnun EFTA. Það snýst um að steypa kantstein og axlir og setja upp neyðarsíma með reglubundnu bili. Þetta er framkvæmd sem klárast í sumar,“ lýsir Steinþór en ákveðið var að fara í mun stærri framkvæmd í göngunum en athugasemdir ESA gáfu tilefni til, en göngin eru frá árinu 2005. „Við erum að endurnýja öll skilti og ljós sem dæmi. Okkur er mikilvægt að framkvæma sem mest í einu enda mikið ónæði af því að loka jarðgöngum oft.“

Rekstur jarðganga

„Að reka jarðgöng felst í raun um að halda mannvirkinu opnu og öruggu,“ segir Steinþór. Meðal þess sem fellur undir rekstur jarðganga er viðhald á öllum búnaði, merkingum, stikum og malbiki.

Jarðgöng eru hluti af vegakerfi Vegagerðarinnar. Þjónustustöðvar á hverjum stað sjá um rekstur jarðganga á sínu svæði í samvinnu við vaktstöðvar Vegagerðarinnar sem hafa yfirsýn yfir öll jarðgöng. Einnig eru samningar við þjónustuaðila sem sinna sérhæfðari verkum en Hvalfjarðargöngin eru einu göngin þar sem öll þjónustan er boðin út.

Tvisvar á ári eru jarðgöng þrifin með sérstökum þvottabíl. „Hann sprautar vatni á veggi og loft til að safna saman ryki sem sest í sprautusteypuna. Síðan eru vegirnir þrifnir en steyptu axlirnar gera það að verkum að þrifin verða mun auðveldari og árangursríkari.“

Vaktkerfi jarðganga

Rekið er vaktkerfi fyrir jarðgöng þar sem hægt er að fylgjast með öllum búnaði í jarðgöngum. Kerfið gefur til kynna þegar eitthvað er að, til dæmis ef upp koma frávik eða villur. Starfsfólk vaktstöðva Vegagerðarinnar fylgist stöðugt með vaktkerfinu og þjónustustöðvarnar fylgjast reglulega með. Með kerfinu má einnig fjarstýra ýmsum aðgerðum. Til dæmis er hægt að loka göngum eða kveikja á blásurum.

Daglegt eftirlit

Vegagerðin vinnur eftir vottuðu gæðakerfi en í því er sérstakt gæðakerfi fyrir jarðgöng. „Í því felst meðal annars daglegt eftirlit þar sem starfsmenn Vegagerðarinnar eða verktakar á hennar vegum aka í gegnum göngin og athuga með sjónskoðun hvort allt sé með felldu,“ lýsir Steinþór en einnig er farið í skipulagt eftirlit samkvæmt gæðakerfi á tveggja mánaða, sex mánaða og árs fresti. Þá er einnig sífellt  eftirlit í gegnum myndavélar og vaktkerfið.

„Á fimm ára fresti eru gerðar óháðar úttektir á göngunum. Þá fáum við skýrslu þar sem taldar eru upp aðgerðir sem þarf að fara í.“

Slökkviliðsæfingar í jarðgöngum

Steinþór nefnir að lokum brunaæfingar í jarðgöngum. „Árið 2022 keypti Vegagerðin nýjan æfingabúnað í formi reykkerru sem getur framkallað býsna mikinn reyk sem er þó meinlaus. Með þessu tæki fá slökkviliðin betri tilfinningu fyrir því hvernig er að vera í jarðgöngum í reyk,“ segir Steinþór en brunaæfingar eru gerðar að frumkvæði slökkviliða. Sex slíkar hafa verið haldnar síðustu mánuði og verið góð reynsla af þeim.

Þessi grein birtist fyrst í   Framkvæmdafréttum 1. tbl. 2024, nr. 729. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is