Fréttir
  • Varðan 2011-2013
  • Varðan 2011-2013
  • Varðan 2011-2013
  • Varðan 2011-2013
  • Varðan 2011-2013
  • Varðan 2011-2013
  • Varðan 2011-2013
  • Varðan 2011-2013 göngu og hjólabrýr yfir Elliðaárósa
  • Varðan 2011-2013 Dettifossvegur

Varðan viðurkenning Vegagerðarinnar veitt í fimmta sinn

Göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa fengu viðurkenningu

13.3.2015

Viðurkenning Vegagerðarinnar, Varðan, vegna hönnunar og frágangs samgöngumannvirkja 2011-2013 var veitt 12. mars vegna göngu- og hjólabrúa yfir Elliðaárósa. Það var í flokki brúa en viðurkenning hlaut einnig Dettifossvegur, þær viðurkenningar verða afhentar síðar.

Vegagerðin veitir viðurkenningu vegna hönnunar og frágangs samgöngumannvirkja á þriggja ára fresti. Tilgangurinn með viðurkenningunum er að efla vitund um útlit og frágang mannvirkja meðal starfsmanna og verktaka Vegagerðarinnar, stuðla að umræðu þar um og að vitna um ákveðinn vilja yfirstjórnarinnar á þessu sviði. Svæði Vegagerðarinnar tilnefna þau mannvirki sem þau telja skara framúr hverju sinni. Dómnefnd fer á vettvang og skoðar allar tilnefningar og metur þær. 

Vel var líka við hæfi að afhenda þessar viðurkenningar í upphafi Hönnunarmars.

Rétt er að taka fram að viðurkenningin felst í innrömmuðu viðurkenningarskjali, engin peningaverðlaun eru í boði.

Göngu- og hjólabrýr við Elliðaárvog, umsögn dómnefndar

Göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa eru tákn um breytta tíma með áherslu á sjálfbæran samgöngumáta. Áhugaverð og skemmtileg upplifun á hjólaleið um Geirsnef gerir hjólreiðar að valkosti þeirra sem eiga erindi milli bæjarhluta vestan og norðaustan Elliðaáa.Þríhyrndur grunnflötur er teygður upp í hyrnu. Formið er dregið upp úr miðju flatarins af fjórða horninu. Bitarnir þrír tengjast saman í toppi hyrnunnar og tylla sér á einfaldar undirstöður við árbakkann. Þetta er burðarvirki brúarinnar sem ber lárétt þunnbyggt brúargólfið með stögum. Leitast var við að lágmarka efnisnotkun með því að gefa brúnum stöðugt grunnform, sem jafnframt er sérkenni þeirra.Brýrnar mynda eina samfellda heild á milli árbakka. Brúargólfin eru samtengd með stíg sem sveigist eftir manngerðu landslagi Geirsnefsins og breikkar við áningarstaði. Verkkaupar voru Reykjavíkurborg og Vegagerðin.

Þessir fengu viðurkenningu: 
  • Ístak
  • Teiknistofan Tröð
  • Teiknistofan Nýbýli
  • Snøhetta
  • Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar
  • Mannvit
Fulltrúi Snøhettu er erlendis og gat ekki tekið á móti viðurkenningunni.

Dettifossvegur (862), Hringvegur-Dettifoss, umsögn dómnefndar

Vegurinn liggur um ógróið sandsvæði vestan Jökulsár á Fjöllum. Hann leysti af hólmi niðurgrafinn og hlykkjóttan vegslóða með mörgum blindhæðum og litlu burðarþoli. Vegurinn er uppbyggður og það hefur tekist að fella hann að landslaginu, þannig að náðst hefur fram tæknilega góð veglína sem eykur öryggi vegfarenda, án þess að draga úr upplifun þeirra af sérstöku landslaginu. Frágangur er góður og einfaldur, unninn í samráði við þjóðgarðsyfirvöld í Jökulsárgljúfrum og Landgræðsluna. Áningarstaður og bílastæði eru vel heppnuð hvað varðar staðsetningu, gerð og frágang.