Fréttir
  • Vegstikur vísa vegfarendum leiðina. Mynd/VAI
  • Björn Ólafsson verkfræðingur starfaði hjá Vegagerðinni í 45 ár. Hann kom að þróun og hönnun vegstikanna.
  • Vegstikur voru áður úr tré.
  • Stór hluti trévegstika brotnaði yfir veturinn og því var talið mikilvægt að finna aðra og endingarbetri lausn.
  • Stikuframleiðsla hjá verkstmiðju SET.
  • Fyrirtækið SET á Selfossi sér um framleiðslu vegstikanna í dag. Í framleiðsluna eru notaðar sérstakar vélar.
  • Vegstikuframleiðsla hjá SET á Selfossi.
  • Vegstikur tilbúnar til merkingar.
  • Snjóstikurnar eru kringlóttar.
  • Stikurnar eru mótaðar úr polypropelyne plastefni.
  • Mikil vinna liggur að baki þróun fótstykkjanna.
  • Fótstykki rekin í jörð á Hellisheiði.
  • Stikur verða skítugar og eru þrifnar með sérstökum búnaði.
  • Snjóstikurnar eru kringlóttar og hærri en vegstikurnar.

Nærri ein stika á mann

Vegstikur og snjóstikur eru um 320 þúsund talsins

3.1.2020

Íslenskt hugvit kom sterklega við sögu við hönnun gulu vegstikanna sem vísa vegfarendum leiðina á þjóðvegum landsins. Stikurnar eru framleiddar á Íslandi, eru endurnýttar eins oft og hægt er og síðan sendar í endurvinnslu.

Rúmlega 320 þúsund stikur, bæði vegstikur og snjóstikur, standa við þjóðvegi landsins. Það er nálægt því að vera ein stika á hvern Íslending. Á hverju ári eru framleiddar í kringum 25 þúsund vegstikur og nokkur þúsund snjóstikur enda verða alltaf einhver afföll yfir vetrartímann. Þetta er mikil breyting til batnaðar því áður fyrr, þegar notaðar voru tréstikur, þurfti að skipta út nærri öllum vegstikum í vegakerfinu á ári hverju. Í dag er talið að hver stika geti enst í allt að tíu ár.

Björn Ólafsson verkfræðingur, sem starfaði hjá Vegagerðinni í 45 ár, frá árinu 1971 til 2016 og síðustu 25 árin sem forstöðumaður þjónustudeildar, þekkir vel söguna á bak við gulu vegstikurnar, enda var hann einn þeirra sem kom að þróun og hönnun þeirra.

„Tréstikur voru lengi smíðaðar í áhaldahúsum Vegagerðarinnar á veturna. Þær voru sagaðar til, málaðar og sett á þær endurskin. Þetta var stór hluti af vetrarvinnunni enda var vetrarþjónusta á þessum tíma mjög takmörkuð. Þessar tréstikur entust takmarkað, brotnuðu mikið í snjómokstri svo og af völdum annarra álagsþátta eins og vegna ágangs búfjár.

Hugað að nýjum lausnum

Þessi afföll urðu til þess að menn fóru að huga að öðrum lausnum þ.e. að nota stikur úr endingarbetra efni sem þyldu betur þetta álag. Svíar notuðu m.a. hvítar sveigjanlegar plaststikur og voru keypt nokkur stykki sem sett voru upp til prófunar á nokkrum völdum stöðum. Þessar stikur entust ágætlega, en þær höfðu þann annmarka að vera í öðrum lit en þeim sem reglur hér kváðu á um, og svo voru þær án festinga í jörð, sem þýddi að grafa þurfti niður hverja stiku, sem jafnframt leiddi til að þær voru nokkuð óstöðugar í jarðveginum.

Til þessa verkefnis fékk Björn tilraunafé úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar, bæði til þróunar á innlendri framleiðslu á gulum plaststikum og til að leita betri lausna á stöðugleika þeirra.

Tekið var í framhaldinu upp samstarf við þá Gunnar Þórðarson verksmiðjustjóra og Jón Þórðarson fyrrverandi verksmiðjustjóra, sem stýrðu röraframleiðslu við plastverksmiðjuna á Reykjalundi. Byrjað var á að finna rétta plastefnið sem til þurfti og var notað Polypropelyne plastefni sem blandað var með gulu litarefni og svokallaður UV stabilaiser sem lengir lífaldur plastefnisins og gula litarins sem þolir illa sólarljósið og vill upplitast.

Búin voru til nokkur „handgerð“ eintök, mismunandi að lögun og gerð, og eftir skoðun og mat á þeim var ákveðið að framleiða nokkra tugi metra langt rör með víðu þvermáli úr þessu efni. Rörið var síðan sagað eftir endilöngu í 10-12 cm breiðar lengjur og þær síðan bútaðar í hæfilegar stikulengdir. Þessum tilraunastikum var síðan dreift á rektrarstjórasvæðin, um 20 stk. á hvern stað, og þær settar niður.

Reynsla á fyrsta árinu var það góð að ákveðið var að halda þróuninni áfram. Með stuðningi rannsóknarsjóðsins hannaði Jón Þórðarson og lét smíða sérstakan blásturshaus og mótunarbúnað framan á röraframleiðslubúnaðinn þar sem stikulengjan var dregin út í gegnum með sérstakri vél með gúmmíbeltum. Mótunarbúnaðurinn stýrði lögun stikunnar, þaðan fór sjóðheit plastlengjan undir mikla pressu, síðan var slakað á pressunni þegar efnið byrjaði að stirðna og þaðan fór hún í gegnum um 2,5 m kælitank þar sem vatni var úðað á báðar hliðar stikulengjunnar. Nokkurn tíma tók að ná utan um þessa tækni, þykkt og breidd lengjunnar flökti talsvert en á endanum tókst að koma þessu í nægjanlega gott jafnvægi.

Þróun fótstykkja

Ingimar Sigurðsson verkstjóri í járnsmiðju Vegagerðarinnar í Grafarvogi útbjó fyrstu stikufestingarnar, þ.e. fótstykki til að reka niður í jarðveginn og festa stikurnar í. Soðnir voru saman tveir járnteinar sem tengdir voru við bogalagaða járnplötu sem stikan var síðan fest við með skrúfbolta.

Rekstrarstjórar Vegagerðarinnar voru mjög áhugasamir um þetta verkefni, gamalreyndir og hugmyndaríkir og komu með ótal ábendingar og hugmyndir um hvað og hvernig bæta mætti þessar festingar. Fór þar fremstur í flokki Gylfi Júlíusson rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Vík, sem var lærður járnsmiður, en hann vann ötult starf við frekari þróun, m.a. gekk hann betur frá tengifestingum með splitti sem festi stikuna betur við fótstykkið.

Síðar komst hann í samband við mikinn hagleiksmann og hugmyndasmið, Jónas Guðlaugsson í Reykjavík, sem fékkst við ýmis konar blikk- og járnsmíðar, þar sem hann jafnframt bjó til þau verkfæri og þann tækjabúnað sem til þurfti við sína framleiðslu. Jónas mótaði til fyrstu frumgerðina úr áli, sem auðvelt var að beygja til, og var endanleg þróun og lögun fótstykkisins síðan samstarfsverkefni þeirra Jónasar og Björns Ólafssonar.

Fótstykkið þurfti að hafa nægjanlega þykkt og burðarþolslegan styrk þannig að það bognaði ekki við niðurrekstur, það þurfti að hafa ákveðna lögun til að vera stöðugt gagnvart hliðarátaki, vera með sérstakri útkrögun til að það losnaði ekki upp í frostlyftingum. Stikan þurfti að sitja vel föst í stykkinu, það þurfti að vera auðvelt að losa hana úr fótstykkinu og ekki mátti það eyðileggja dekk á ökutækjum ef ekið væri yfir það.

Þegar lögunin var komin á hreint voru handsmíðuð um 10 stykki úr stáli til lokaprófunar. Stikufæturnir voru reknir niður í misgróft og mishart efni, þeir settir undir alls konar álag, m.a. ekið yfir þá og reyndust þeir uppfylla þær væntingar sem til var stofnað.

Að þessum prófunum  loknum tók Jónas til við að smíða vél- og mótunarbúnað fyrir framleiðsluna og tók sú vinna um hálft ár. Rekstrardeildin, í samráði við þá Gylfa og Jónas, sá um að panta rúllur af sérstaklega tilsniðnu efni í réttri breidd til að nota í fyrstu tilraunaframleiðsluna. Í kjölfar þeirra reynslu sem þar fékkst mótuðust enn frekar kröfur  um gæði og efnismeðferð til að framleiðslan gæti gengið hnökralaust fyrir sig og á árinu 1993 hófst framleiðslan.

Þar sem nokkuð flökt gat verið í á breidd og þykkt stikanna í framleiðslu voru þær framleiddar í yfirbreidd og sá Jónas síðan um að gata þær fyrir læsingu í fótstykkið og klippa endana til þannig að stikan passaði nákvæmlega í stikufótinn og sæti þar föst.

Einnig framleiddi Jónas nokkuð magn af búnaði sem tengdur var við  loft- eða rafmagnshamra til að reka fótstykkin niður svo og tangir sem auðvelduðu að ná stikunum úr sætinu í fætinum þegar skipta þurfti þeim út.

Kringlóttar snjóstikur

Um 25 þúsund snjóstikur úr stífu plasti eru í vegakerfinu en þær eru kringlóttar og lengri en ofangreindar vegastikur.

„Snjóstikurnar þessar voru þróaðar af Jóni Einari Hjartarsyni á Læk í Ölfusi en Rögnvaldur Jónsson, sem var svæðisstjóri á Reykjanesi á þeim tíma, hafði forgöngu um þessa framleiðslu,“ upplýsir Björn.

Þróun snjóstikanna hófst aðeins fyrr en þróun vegstikanna. Þær hafa þann ókost að vera stífari og brothættari en þann kost að hægt er að hækka þær með sérstöku tengistykki sem getur komið sér vel á svæðum þar sem er snjóþungt.

Framleiðsla stikanna í dag

Vegstikurnar voru lengst af framleiddar af Reykjalundi en fyrir nokkrum árum keypti SET á Selfossi framleiðsluna. Snjóstikurnar voru framleiddar á Læk fram til síðustu áramóta þegar SET tók við framleiðslunni. Vegstikurnar eru áfram úr polypropelyne plastefni með viðbættu gulu ljósþolnu litarefni. Vinnslan fer fram í einni af plaströra-vinnslulínum fyrirtækisins með svokallaðri þrýstimótunaraðferð þar sem lögun móta og kælibúnaður skapar prófílinn sem síðan er skorinn í einingar í lok vinnslunnar. Að lokum er neðri endinn fyrir jarðfestingar stansaður. SET framleiðir að meðaltali um 25 þúsund stikur árlega.

Snjóstikurnar eru framleiddar eins og hefðbundin rör, gular að lit, en botn- og toppstykki eru sett á eftirá og eru framleiddar af Bergplasti.

Endurskinsmerki, viðgerðir og þrif

Eftir framleiðslu stikanna eru þær sendar á þrjá staði á landinu þar sem endurskinsmerki eru límdar á þær. Þessi vinna fer fram í Fjöliðjunni á Akranesi og á Litla Hrauni. Einnig er starfsmaður frá svæðisskrifstofu fatlaðra á Vesturlandi í fjörutíu prósenta starfi á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Búðardal við álímingu. Oft þarf að gera við stikur en það er yfirleitt gert á þjónustustöðvum Vegagerðarinnar. Þá eru stikurnar fluttar á stöðvarnar, þær endurlímdar og snyrtar til.

Einnig fer töluverður tími hjá starfsmönnum Vegagerðarinnar í að þrífa stikur en á þær festist ryk og óhreinindi frá umferðinni. Stikurnar eru aðallega þrifnar við vegi þar sem umferðin er mjög þung. Stikur verða misskítugar eftir því hvar þær eru og hvernig veðurfarið er á staðnum. Yfirleitt eru stikurnar þrifnar einu sinni á ári og jafnvel oftar. Í Hvalfjarðargöngum eru stikur og skilti þrifin mánaðarlega. Notuð er sérstök vél með kústum sem fest er framan á vörubíl, kústarnir eru tengdir við tank á pallinum sem fylltur er af vatni og smá sápu. Stikur eru helst þrifnar á haustin og vorin en ekki er hægt að gera það í frosti.

Áhersla á endurvinnslu

Stikur eru endurnýttar eins lengi og kostur er innan Vegagerðarinnar en þegar þær eru það illa farnar að ekki er hægt að gera við þær fara þær í endurvinnslu. Hluti þeirra fer í kurlun og endurvinnslu hjá Pure North Recycling á Íslandi en hluti fer í endurvinnslu eða endurnýtingu á meginlandinu.

Þeir sem vilja kynna sér nánar þær reglur sem gilda um uppsetningu stika er bent á þessa síðu á Vegagerdin.is.