Fréttir
  • Verðlaunatillagan Alda

Fossvogsbrú: Kæru vísað frá og hafnað

Engin haldbær rök um að brotið hefði verið gegn lögum 

8.11.2022

Kærunefnd útboðsmála hefur vísað frá kæru Úti og inni sf. sem beint var að Vegagerðinni, Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Ríkiskaupum og Eflu hf. vegna samkeppni um hönnun á brú yfir Fossvog og skaðabótakröfu er hafnað. Úrskurðarnefndin taldi kæranda ekki hafa lagt fram nein haldbær rök fyrir því að brotið hefði verið gegn lögum um opinber innkaup. Úrskurðurinn var birtur á vef Stjórnarráðs Íslands í gær, 7. nóvember 2022.  

Úti og inni  var einn þátttakenda í hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú en úrslit úr keppninni voru kunngjörð í desember á síðasta ári. Tillaga Úti og inni  var ekki valin á seinna þrep keppninnar. Efla  fór með sigur af hólmi í samkeppninni.  

Væntanleg brú yfir Fossvog er hluti af fyrstu framkvæmdarlotu Borgarlínu, og hefur úrskurður kærunefndar ekki áhrif á framgang verkefnisins.  

Í kæru Úti og inni  voru gerðar ýmsar athugasemdir um framkvæmd og ákvarðanir varnaraðila í tengslum við þessa samkeppni. Kærandi gerði m.a. athugasemd við skipan dómnefndar og hæfisnefndar í tengslum við samkeppnina og taldi nefndarmenn vera vanhæfa vegna meintra tengsla við sigurvegara samkeppninnar. Einnig gerði kærandi athugasemdir við meintan hugverka- og hugmyndastuld varnaraðila í samkeppninni, sem og að ekki hafi verið samræmi í mati  á tillögum kæranda og sigurvegara samkeppninnar, auk þess sem Efla  hafi staðið öðrum bjóðendum framar í samkeppninni.  

Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Ríkiskaup og Efla  höfnuðu öllum ásökum. Vegagerðin skilaði greinargerð fyrir hönd varnaraðila 10. febrúar 2022 og krafðist þess aðallega að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá en til vara að þeim yrði öllum hafnað. Að auki var þess krafist að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.  

Í úrskurði kærunefndar útboðsmála var lagt til grundvallar að kæra hefði borist 17. desember 2021. Kærufrestur vegna þeirra athugasemda kæranda sem sneru að mati á tillögu kæranda og að meintum hugverka- og hugmyndastuldi varnaraðila var liðinn þegar kæra var lögð fram í málinu.  

Að því er varðar aðrar athugasemdir kæranda var talið að kæra hefði borist innan kærufrests. Í ljósi þess að bindandi samningur hafði komist á 3. janúar 2022 kom aðeins til skoðunar álit á skaðabótaskyldu, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016. Kærunefnd taldi að ekki hefði verið sýnt fram á með neinum haldbærum hætti að brotið hefði verið gegn lögum nr. 120/2016 og hafnaði þar af leiðandi að veita álit á skaðabótaskyldu varnaraðila. 

Í úrskurðinum vísar kærunefndin m.a. til dóms Hæstaréttar þar sem kom fram að hagsmunatengsl þátttakenda og dómnefndarmanns þyrftu að vera umtalsverð og sérstök til að slíkt gæti valdið vanhæfi. Var því ekki talið að arkitektastofan hefði fært nægjanleg rök fyrir því að vanhæfisástæður gætu átt við nokkurn dómnefndarmann. 

Þá taldi kærunefndin að arkitektastofan hefði ekki sýnt fram á það með neinum haldbærum hætti að brotið hefði verið gegn lögum um opinber innkaup. Kæru arkitektastofunnar var því vísað frá og skaðabótakröfu hennar hafnað.  

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar var ánægð með niðurstöðu kærunefndarinnar og sagði kæruna hafa verið mjög ómálefnalega, eins og niðurstaðan bæri með sér. „Vegagerðin lítur það mjög alvarlegum augum þegar starfsmenn hennar eru sakaðir um óheiðarleg vinnubrögð líkt og gert var í umræddri kæru. Það var alla tíð augljóst að ekki væri hægt að komast að annarri niðurstöðu en nefndin komst að.“ 

Tengil á úrskurðinn: