Fréttir
  • Staðsetning.
  • Arnarnesvegur. Svæðið.
  • Ásýnd: Göngu- og hjólabrú yfir Arnarnesveg og stígakerfi séð frá vestri.

Deiliskipulag Arnarnesvegar

Tillaga að nýju deiliskipulagi 3. áfanga
kynnt 3. mars 2022 á streymisfundi

28.2.2022

Tillaga að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga verður kynnt 3. mars 2022 klukkan 17.00 á streymisfundi en frestur til að senda athugasemdir hefur verið framlengdur til 11. mars.

Að fundinum standa Reykjavíkurborg, Kópavogsbær og Vegagerðin en auk fulltrúa þeirra verða á fundinum fulltrúar verkfræðistofunnar EFLU sem er ráðgjafi deiliskipulagsins. 

Deiliskipulagið

Reykjavíkurborg og Kópavogsbær standa í sameiningu að gerð deiliskipulags í samræmi við 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir 3.áfanga Arnarnesvegar, frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. Megin tilgangur lagningar Arnarnesvegar er að tengja jaðarsvæði í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ við megin umferðaræðar og að þjónustustig samgangna verði í samræmi við kröfur og staðla. 

Helstu framkvæmdir samkvæmt deiliskipulagi af þriðja og lokaáfanga Arnarnesvegar er að mynda samfelldan stofnveg, tvær akreinar í báðar áttir, á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Auk stofnvegar er um að ræða tvö ný hringtorg, tvö ný undirgöng, nýja hjóla- og göngubrú fyrir stofnstíg yfir Arnarnesveginn, afmörkun svæða yfir tvö vistlok og fjögurra akreina brú yfir Breiðholtsbraut með sérrými fyrir stofnstíg (göngu- og hjólastíg), hljóðmanir og hljóðveggi. Vegurinn hefur veghelgunarsvæði að jafnaði 30 metra út frá miðlínu vegar og auk stofn- og tengistíga sem lagðir verða samhliða.

Hluti veghelgunarsvæðis Arnarnesvegar er innan sveitarfélagamarka Reykjavíkur, en stærsti hluti vegarins liggur innan sveitarfélagamarka Kópavogs. Samhliða er gert ráð fyrir stofnstíg, aðskildum hjóla- og göngustíg, frá Rjúpnavegi í Kópavogi og að Elliðaárdal ásamt tengistígum sem og meðfram Breiðholtsbrautinni og undir fyrirhugaða brú yfir Breiðholtsbraut. Jafnframt er gert ráð fyrir göngubrú/vistloki yfir veginn. 

Arnarnesvegur sem liggur innan marka skipulagssvæðisins er um 1,9 km að lengd og liggur frá suðaustur hluta Leirdals að grænu opnu svæði norðan Breiðholtsbrautar, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdrætti verkfræðistofunnar Eflu. 

Markmið deiliskipulagsins er að klára lokahluta Arnarnesvegar, 3. áfanga, og tengja jaðarsvæði í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ við megin umferðaræðar og að þjónustustig samgangna verði í samræmi við kröfur og staðla.

Samráð

Skipulagslýsing var auglýst, skv. 1. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þann 19.mars 2021, vegna nýs deiliskipulags fyrir 3. áfanga Arnarnesvegar, stofnbrautar frá Rjúpnavegi í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík. Skipulagslýsingin tók mið af fyrirhuguðum breytingum frá áður kynntum áformum um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar í Kópavogi og Reykjavík. Skipulagslýsingin var unnin í samræmi við gr. 5.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Óskað var eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum og lögbundnum umsagnaraðilum við skipulagslýsingunni. Það sama verður gert hvað varðar deiliskipulagstillöguna. 

Leitað var til eftirfarandi aðila:

  • Skipulagsstofnun
  • Umhverfisstofnun
  • Náttúrufræðistofnun Íslands
  • Náttúrufræðistofu Kópavogs
  • Minjastofnun Íslands
  • Borgarsögusafn Reykjavíkur
  • Íbúaráð Breiðholts
  • Vegagerðin
  • HHGK, Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnafjarðar og Kópavogs
  • Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur
  • Veðurstofa Íslands
  • Veitur ohf.

Deiliskipulagstillagan

Deiliskipulagstillagan  nær til hluta Arnarnesvegar, nýs vegar með tveimur akreinum í hvora átt, göngu- og hjólastíga, ásamt tveimur nýjum hringtorgum, frá gatnamótum Arnarnesvegar og Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og veghelgunarsvæða hans sem nær að jafnaði 30 metra út frá miðlínu vegarins.

Hægt er að kynna sér tillöguna hér að neðan og senda fyrirspurnir fyrirfram á netfangið: skipulag@reykjavik.is eða skipulag@kopavogur.is 

Leitast verður við að svara þeim á fundinum. Einnig verður hægt að senda fyrirspurnir á meðan streyminu stendur.

Sjá deiliskipulagstillöguna

Slóð á streymið: 

 

https://www.youtube.com/watch?v=uBgTBMCJ0U0