1894

Ísafold, 11. júlí 1894, 21. árg., 42. tbl., forsíða:

Samgöngur
Enda þótt samgöngumál vor hafi tekið afarmiklum endurbótum á síðari árum, bæði hvað snertir samgöngur við útlönd og þó ekki síst samgöngur innanlands, hlýtur hverjum skynberandi manni að vera það ljóst, að ennþá er svo mikið ógjört til endurbótar í því efni, að ekki mun veita af hálfri 20. öldinni tilvonandi til þess, að þau geti verið komin í viðunanlegt horf. Samgöngur vorar hljóta vegna strjálbyggis eðlilega að verða miklu dýrari að tiltölu, en í öðrum löndum í samanburði við fólksfjöldann, og þegar þar við bætist, að land vort er nú orðið afar langt á eftir öðrum löndum í því efni, sérstaklega hvað samgöngur á landi snertir, má ekki búast við öðru, en að margar aldir líði áður en samgöngur hér eru komnar á sama stig og erlendis, og það þótt vér færumst allir í aukana. Samgöngur á sjó hafa tekið svo miklum endurbótum á síðasta áratug, að um líkt hefði naumast verið dreymt enda í draumórum þjóðhátíðarfagnaðarvímunnar. Má einkum telja til þess strandferðirnar, enda þótt þær hafi ekki þótt fullnægjandi í ýmsum greinum. Hafa tvö hin síðustu þing reynt að bæta úr brestum þeim, er á þeim þykja vera, með því að veita fé til aukinna strandferða, en tilraunir þessar hafa ekki ennþá komið að neinu haldi. Eru sumir þeirrar skoðunar, að landið sjálft ætti að eiga gufuskip, er haldið væri úti til strandferðanna. Væri ekkert á móti því, ef formælendur þess geta gefið tryggingu fyrir, að oss væri nokkru borgnara heldur en að hafa samið við áreiðanlegan skipaeiganda um ferðir þessar. Að minnsta kosti er mjög ísjárvert að binda sig skipkaupum, meðan engin vissa er fyrir, hversu stór skip samsvara flutningsþörfunum. Þarf ekki lengra að fara en minnast á gufubátinn "Elín", sem hefir gengið hér um Faxaflóa frá því í fyrra. Þótti mjög vafasamt í fyrstu að hún hefði nægilegt að starfa, en reynslan mun nú farin að sýna, að hún hefði gjarna mátt vera drjúgum stærri. Mun því hyggilegra að láta skipkaupin bíða þangað til næg reynsla er fengin fyrir, hvers konar skip eru hentugust til strandferðanna. Hingað til hefir mest verið hugsað um að hafa stærri gufuskip, er færi í kringum allt landið og kæmi við á sem flestum höfnum að mögulegt væri. Hætt er við, að þess konar skip reynist nokkuð dýr í samanburði við það gagn, er þau gjöra. Er mjög vafasamt, að heppilegt sé, að strandferðaskip kringum land allt komi miklu víðar en þær Laura og Thyra gjöra nú, því það mundi ærið dýrt fyrir ferðafólk, er færi með því langar leiðir, að koma inn á hverja vík, og skipið yrði að vara afar hraðskreytt, ætti töfin á höfninni að vinnast upp. Að minnsta kosti er augljóst, að reynslan mundi fljótt sýna, að skip, er færi aðeins 7-8 mílur á vökunni, mundi þykja allsendis ófullnægjandi. Hvað gufubátana snertir, hygg ég, að þeim hafi ennþá verið miklu minni gaumur gefinn en skyldi. Mundi ekki mögulegt, að koma þeim þannig í samband hverjum við anna, að þeir mættust á vissum stöðum og tækju svo við fólki og flutningi hver af öðrum? Ætla ég að til þess þurfi að minnsta kosti 8 gufubáta kringum land allt, þannig, að einn gangi austanfjalls, frá Vík til Reykjaness, 2. á Faxaflóa, 3. á Breiðafirði, 4. á Ísafjarðardjúpi, 5. á Húnaflóa og Skagafirði, 6. á Eyjafirði og austur undir Langanes, 7. frá Langanesi til Seyðisfjarðar og hinn 8. þaðan til Papóss. Í sambandi við gufubátana mundi þurfa að fjölga strandferðunum á stærra skipi um 2, að minnsta kosti, fram yfir það, sem nú er, nfl. í ágúst og október og ættu ferðir hinna stærri gufuskipa og gufubátanna að standa í sambandi hver við aðra svo vel sem hægt væri að sumrinu. Hvað samband vort við útlönd snertir er öldungis óviðunandi hvað fára gufuskipaferðir eru hingað um hásumarið. Útlendir ferðamenn, sem gætu verið auðsuppspretta fyrir landið, geta ekki komist hingað nema höppum og glöppum þann stutta tíma, sem ferðafært er fyrir þá hér. Veitir alls ekkert af, að frá því í miðjum júní og fram í miðjan septbr., kæmi gufuskip hingað á hverjum hálfsmánaðar fresti, annaðhvort beint frá Skotlandi eða fastalandi Evrópu um Granton. Í annan stað er óhentugt, að verða fyrir því, að póstferðir farist fyrir um háveturinn vegna þess, að póstskipið sé frosið inni í Eystrasalti, og ber því brýna nauðsyn til, að trygging fáist fyrir því, að gufuskip fari frá Esbjærg á Jótlandi hingað í hvert sinn er póstskipið getur ekki komist frá Kaupmannahöfn í tækan tíma.
Með byggingu Ölfusárbrúarinnar má svo að orði kveða, að nýtt tímabil hefjist í samgöngum vorum innanlands. Þegar hún er loks byggð, er enginn sem neitar því, að mögulegt sé að brúa smámsaman allar þær stórár landsins, er brúandi eru. Jafnvel þótt þröngsýni allmargra hallist enn að því, að héruð þau, er einkum njóta brúnna eigi að bera kostnaðinn að nokkru leyti, en það má telja víst, að eftir því sem fleiri stórár veðri brúaðar á ýmsum stöðum á landinu, fari þinginu að skiljast, að landssjóði ber að sjá um brýr á allar hinar stærri ár, en smáárnar á hlutaðeigandi héruðum ekki að vera ofætlun að ráða við. Hafa Skagfirðingar gefið öðrum héruðum landsins gott eftirdæmi í því efni og má ætlast til að önnur sýslufélög láti ekki sitt eftir liggja, að láta eitthvað verk sjást eftir sig. Er vonandi að Rangæingar hefjist nú handa, er þeir sjá brúna koma á Þjórsá, væntanlega að ári komandi, og kljúfi til þess þrítungan hamarinn, að brúa Rangárnar, einkum Ytri-Rangá, og hið sama má vænta af Árnesingum hvað snertir Laxá og Tungufljót, svo framarlega sem hentug brúarstæði finnast á þeim. Hvað brúargjörð á Soginu snertir, var því máli hreift á sýslufundi Árnesinga fyrir nokkrum árum, en að líkindum þyrfti til þess meira fé, en héraðsbúum væri kleyft að leggja einum fram. Brúin á Brúará er þvílík ómynd, að vér getum naumast án kinnroða látið útlenda ferðamenn, sem koma til landsins, fara hana lengur, án þess hún sé gjörð að nýju. Þannig, að hún nái upp yfir vatnið, hvaða vöxtur sem kemur í ána. Af stórám í öðrum landsfjórðungum er Jökulsá í Axarfirði efst á blaði, þegar er Þjórsá sleppur, og svo framarlega sem á henni finnst hentugt brúarstæði væri æskilegt að vér gætum klykkt öldina út með því að brúa hana. Það væru afarmiklar framfarir að geta brúað 3 stærstu ár landsins á einum áratug.
Hvað hin nýju vegalög snertir, má búast við, að allmörg ár líði áður þeim sé viðunandi fullnægt, sérstaklega er þess er gætt, að viðhaldskostnaður veganna hlýtur að aukast stórum er lagðir vegir lengjast, því til lítils er að leggja vegi án þess að þeim sé haldið sæmilega við. Má búast við ýmsum umkvörtunum yfir því, úr hinum og þessum héruðum, er látin verða sitja á hakanum, að þau þykist afskipt, en til lítils væri að hlaupa þannig eftir ósk allra með því að leggja nokkur hundruð faðma árlega í hverju héraði. Það yrði auðvitað til þess, að aldrei yrði lokið við neitt, og vegagjörðarkostnaðurinn yrði jafnfram miklu meiri að tiltölu heldur en þegar langur kafli er lagður í einu lagi. En svo framarlega sem vér viljum fá endingargóða vegi, verður oss að vera það ljóst, að vagnarnir eru ekki aðeins til sparnaðar hvað hestaþörfina snertir, heldur blátt áfram nauðsynlegir til að bæla niður vegina, festa þá og gjöra endingargóða.
Hjálmar Sigurðarson.


Ísafold, 11. júlí 1894, 21. árg., 42. tbl., forsíða:

Samgöngur
Enda þótt samgöngumál vor hafi tekið afarmiklum endurbótum á síðari árum, bæði hvað snertir samgöngur við útlönd og þó ekki síst samgöngur innanlands, hlýtur hverjum skynberandi manni að vera það ljóst, að ennþá er svo mikið ógjört til endurbótar í því efni, að ekki mun veita af hálfri 20. öldinni tilvonandi til þess, að þau geti verið komin í viðunanlegt horf. Samgöngur vorar hljóta vegna strjálbyggis eðlilega að verða miklu dýrari að tiltölu, en í öðrum löndum í samanburði við fólksfjöldann, og þegar þar við bætist, að land vort er nú orðið afar langt á eftir öðrum löndum í því efni, sérstaklega hvað samgöngur á landi snertir, má ekki búast við öðru, en að margar aldir líði áður en samgöngur hér eru komnar á sama stig og erlendis, og það þótt vér færumst allir í aukana. Samgöngur á sjó hafa tekið svo miklum endurbótum á síðasta áratug, að um líkt hefði naumast verið dreymt enda í draumórum þjóðhátíðarfagnaðarvímunnar. Má einkum telja til þess strandferðirnar, enda þótt þær hafi ekki þótt fullnægjandi í ýmsum greinum. Hafa tvö hin síðustu þing reynt að bæta úr brestum þeim, er á þeim þykja vera, með því að veita fé til aukinna strandferða, en tilraunir þessar hafa ekki ennþá komið að neinu haldi. Eru sumir þeirrar skoðunar, að landið sjálft ætti að eiga gufuskip, er haldið væri úti til strandferðanna. Væri ekkert á móti því, ef formælendur þess geta gefið tryggingu fyrir, að oss væri nokkru borgnara heldur en að hafa samið við áreiðanlegan skipaeiganda um ferðir þessar. Að minnsta kosti er mjög ísjárvert að binda sig skipkaupum, meðan engin vissa er fyrir, hversu stór skip samsvara flutningsþörfunum. Þarf ekki lengra að fara en minnast á gufubátinn "Elín", sem hefir gengið hér um Faxaflóa frá því í fyrra. Þótti mjög vafasamt í fyrstu að hún hefði nægilegt að starfa, en reynslan mun nú farin að sýna, að hún hefði gjarna mátt vera drjúgum stærri. Mun því hyggilegra að láta skipkaupin bíða þangað til næg reynsla er fengin fyrir, hvers konar skip eru hentugust til strandferðanna. Hingað til hefir mest verið hugsað um að hafa stærri gufuskip, er færi í kringum allt landið og kæmi við á sem flestum höfnum að mögulegt væri. Hætt er við, að þess konar skip reynist nokkuð dýr í samanburði við það gagn, er þau gjöra. Er mjög vafasamt, að heppilegt sé, að strandferðaskip kringum land allt komi miklu víðar en þær Laura og Thyra gjöra nú, því það mundi ærið dýrt fyrir ferðafólk, er færi með því langar leiðir, að koma inn á hverja vík, og skipið yrði að vara afar hraðskreytt, ætti töfin á höfninni að vinnast upp. Að minnsta kosti er augljóst, að reynslan mundi fljótt sýna, að skip, er færi aðeins 7-8 mílur á vökunni, mundi þykja allsendis ófullnægjandi. Hvað gufubátana snertir, hygg ég, að þeim hafi ennþá verið miklu minni gaumur gefinn en skyldi. Mundi ekki mögulegt, að koma þeim þannig í samband hverjum við anna, að þeir mættust á vissum stöðum og tækju svo við fólki og flutningi hver af öðrum? Ætla ég að til þess þurfi að minnsta kosti 8 gufubáta kringum land allt, þannig, að einn gangi austanfjalls, frá Vík til Reykjaness, 2. á Faxaflóa, 3. á Breiðafirði, 4. á Ísafjarðardjúpi, 5. á Húnaflóa og Skagafirði, 6. á Eyjafirði og austur undir Langanes, 7. frá Langanesi til Seyðisfjarðar og hinn 8. þaðan til Papóss. Í sambandi við gufubátana mundi þurfa að fjölga strandferðunum á stærra skipi um 2, að minnsta kosti, fram yfir það, sem nú er, nfl. í ágúst og október og ættu ferðir hinna stærri gufuskipa og gufubátanna að standa í sambandi hver við aðra svo vel sem hægt væri að sumrinu. Hvað samband vort við útlönd snertir er öldungis óviðunandi hvað fára gufuskipaferðir eru hingað um hásumarið. Útlendir ferðamenn, sem gætu verið auðsuppspretta fyrir landið, geta ekki komist hingað nema höppum og glöppum þann stutta tíma, sem ferðafært er fyrir þá hér. Veitir alls ekkert af, að frá því í miðjum júní og fram í miðjan septbr., kæmi gufuskip hingað á hverjum hálfsmánaðar fresti, annaðhvort beint frá Skotlandi eða fastalandi Evrópu um Granton. Í annan stað er óhentugt, að verða fyrir því, að póstferðir farist fyrir um háveturinn vegna þess, að póstskipið sé frosið inni í Eystrasalti, og ber því brýna nauðsyn til, að trygging fáist fyrir því, að gufuskip fari frá Esbjærg á Jótlandi hingað í hvert sinn er póstskipið getur ekki komist frá Kaupmannahöfn í tækan tíma.
Með byggingu Ölfusárbrúarinnar má svo að orði kveða, að nýtt tímabil hefjist í samgöngum vorum innanlands. Þegar hún er loks byggð, er enginn sem neitar því, að mögulegt sé að brúa smámsaman allar þær stórár landsins, er brúandi eru. Jafnvel þótt þröngsýni allmargra hallist enn að því, að héruð þau, er einkum njóta brúnna eigi að bera kostnaðinn að nokkru leyti, en það má telja víst, að eftir því sem fleiri stórár veðri brúaðar á ýmsum stöðum á landinu, fari þinginu að skiljast, að landssjóði ber að sjá um brýr á allar hinar stærri ár, en smáárnar á hlutaðeigandi héruðum ekki að vera ofætlun að ráða við. Hafa Skagfirðingar gefið öðrum héruðum landsins gott eftirdæmi í því efni og má ætlast til að önnur sýslufélög láti ekki sitt eftir liggja, að láta eitthvað verk sjást eftir sig. Er vonandi að Rangæingar hefjist nú handa, er þeir sjá brúna koma á Þjórsá, væntanlega að ári komandi, og kljúfi til þess þrítungan hamarinn, að brúa Rangárnar, einkum Ytri-Rangá, og hið sama má vænta af Árnesingum hvað snertir Laxá og Tungufljót, svo framarlega sem hentug brúarstæði finnast á þeim. Hvað brúargjörð á Soginu snertir, var því máli hreift á sýslufundi Árnesinga fyrir nokkrum árum, en að líkindum þyrfti til þess meira fé, en héraðsbúum væri kleyft að leggja einum fram. Brúin á Brúará er þvílík ómynd, að vér getum naumast án kinnroða látið útlenda ferðamenn, sem koma til landsins, fara hana lengur, án þess hún sé gjörð að nýju. Þannig, að hún nái upp yfir vatnið, hvaða vöxtur sem kemur í ána. Af stórám í öðrum landsfjórðungum er Jökulsá í Axarfirði efst á blaði, þegar er Þjórsá sleppur, og svo framarlega sem á henni finnst hentugt brúarstæði væri æskilegt að vér gætum klykkt öldina út með því að brúa hana. Það væru afarmiklar framfarir að geta brúað 3 stærstu ár landsins á einum áratug.
Hvað hin nýju vegalög snertir, má búast við, að allmörg ár líði áður þeim sé viðunandi fullnægt, sérstaklega er þess er gætt, að viðhaldskostnaður veganna hlýtur að aukast stórum er lagðir vegir lengjast, því til lítils er að leggja vegi án þess að þeim sé haldið sæmilega við. Má búast við ýmsum umkvörtunum yfir því, úr hinum og þessum héruðum, er látin verða sitja á hakanum, að þau þykist afskipt, en til lítils væri að hlaupa þannig eftir ósk allra með því að leggja nokkur hundruð faðma árlega í hverju héraði. Það yrði auðvitað til þess, að aldrei yrði lokið við neitt, og vegagjörðarkostnaðurinn yrði jafnfram miklu meiri að tiltölu heldur en þegar langur kafli er lagður í einu lagi. En svo framarlega sem vér viljum fá endingargóða vegi, verður oss að vera það ljóst, að vagnarnir eru ekki aðeins til sparnaðar hvað hestaþörfina snertir, heldur blátt áfram nauðsynlegir til að bæla niður vegina, festa þá og gjöra endingargóða.
Hjálmar Sigurðarson.