1891

Ísafold, 21. jan. 1891, 18. árg., 6. tbl., forsíða:

Vegagjörð á sumri komanda.
Nú hefir í nokkur ár undanfarin verið unnið af landssjóðs hálfu langmest eða því nær eingöngu að þjóðvegum í nánd við höfuðstaðinn, einkum Hellisheiðarvegi, og þar næst Mosfellsheiði.
Gjöra má ráð fyrir, að ýmsum muni þykja sú ráðmennska landsstjórnarinnar kenna hlutdrægni til hagsmuna fyrir höfuðstaðinn. Sumir hafa meira að segja látið sér um munn fara, að höfðingjarnir í Reykjavík hugsi ekki um annað en að útvega góða vegi handa sjálfum sér að skemmta sér á í útreiðum og smáskjökti til næstu héraða. Til þess eyði þeir fé landsins, og láti önnur héruð sitja alveg á hakanum. Hinir eru þó eflaust fleiri, og það þeir, sem best kunna að skynja, er vita, að góðir vegir nærri höfuðstað landsins eru eigi síður gerðir fyrir þá, sem þar sækja að sí og æ árið um kring, heldur en hina, er þaðan bregða sér eitthvað stöku sinnum - með öðrum orðum, að móts við hvern höfðingja eða heldri mann úr Reykjavík, er notar hina nýju vegi þar í grennd lítils háttar, koma tuttugu sveitamenn, er nota þá eigi miður hver um sig, og það til nauðsynja sinna, í kaupstaðinn eða í erindagjörðum við höfðingja í Reykjavík í sínar þarfir. Með því að Reykjavík er langmestur bær á landinu, 5-6 sinnum stærri (fólksmeiri) en stærstu kaupstaðir aðrir, liggur í augum uppi, að þangað muni meiri aðsókn en til nokkurs staðar annars á landinu. En þar sem mest er umferðin, verða góðir vegir að mestum notum. Er því síður en svo, að nein hlutdrægni þurfi því að valda, að unnið hefir verið að vegagjörð í nánd við Reykjavík fremur en annarsstaðar. Stendur auk þess svo á um þá tvo vegi, er mest hefir verið unnið að hér, og áður eru nefndir, að þeir eru báðir kaupstaðarvegir fyrir allmikla byggð landsins, þá er eigi getur haft strandferðanna not sakir hafnleysis, en annar þar á ofan hinn fjölfarnasti vegur á landinu af útlendum ferðamönnum, en af þeim hafa landsmenn talsverða hagsmuni, og hefðu stórum meiri, ef vegaleysi og léleg aðhlynning á ferðum hér fældi þá ekki einmitt frá að leggja hingað leiðir sínar. Enn má og nefna það, að frá höfuðstaðnum er langhelst svo um, að hið nýja vinnulag og verkkunnátta, er hingað hefir færst með hinni útlendu vegagjörð, dreifst út um landið.
Enn eru samt hinir nýju vegir í grennd við höfuðstaðinn ekki nema vegarstúfar. Hvorugur þeirra nær nema hálfa leið milli byggða eða fyrirhugaðra endastöðva þeirra í næstu byggðalögum; og er öllum sýnilegt að ekki verða þeirra hálf not, meðan svo stendur. Hefði því mesta nauðsyn verið, að reyna að halda vegum þessum áfram og fullgjöra þá, áður en tekið væri til verulegrar vegagjörðar annarsstaðar. Útlendingar mundu kalla það bersýnilega ráðleysu, að hætta við þá á miðri leið. Mundu og naumast innlendir valdamenn eða löggjafar hafa látið sér það til hugar koma, þrátt fyrir nokkurn héraðaríg og dálitla amasemi við höfuðstaðinn á stundum, ef vegaféð úr landssjóði væri eigi hvort sem er mikils til of lítið til að ljúka við þessar eða aðrar vegagjörðir, sem nokkuð kveður að, öðruvísi en á ævalöngum tíma. Það er með öðrum orðum, að hefði átt að halda áfram og hætta eigi fyr en Mosfellsheiðarvegur og Hellisheiðarvegur voru fullgerðir alla leið, þá hefði aðrir landsfjórðungar orðið að bíða tíu ár enn eftir því, að nokkur skapaður hlutur væri gerður til að bæta þjóðvegi öðruvísi en með bráðabyrgðakáki, ruðningum o. s. frv.
Það er þá fyrst, er landssjóður er orðinn því vaxinn og þingmenn svo stórhuga, að verja má 50 til 100.000 kr. á ári til vegagjörða - það er þá fyrst, að verulegt skrið getur komist á vegalagning um landið. Þá fyrst er hægt að fullgera aðra eins vegi og þá, er hér hafa nefndir verið, á eigi mjög löngum tíma, og sinna þó öðrum landsfjórðungum að nokkrum mun.
Nema ef sérstaklegar ástæður hefðu svo mikil áhrif á þingið, að það vildi leggja fram fé aukreitis handa einhverjum ákveðnum vegi, svo sem t.d. Mosfellsheiðarveginum, til þess að reyna að auka með því aðstreymi útlendra ferðamanna til landsins, eða vegna brúarinnar yfir Ölfusá: að gera almennilega fært að henni undir eins og hún kemst á, að sumri.
Á sumri komanda fer því aðalvegavinnan af landssjóðs hálfu að sögn fram ekki hér syðra, heldur fyrir norðan, á aðalpóstleiðinni um Húnavatnssýslu, þar sem hún þarfnast þess mest.
Verði nokkuð gert hér, þá er það að ljúka við ofaníburð í Svínahraunsveginn, það sem eftir var í fyrra, á kafla í sjálfu hrauninu, og ef til vill að brúa eina litla á skammt frá Reykjavík, á leið póstanna norður og vestur. Það er Leirvogsá, sem getur orðið mikið slæm torfæra, þótt lítil sé fremur. Erlendur Zakaríasson hefir verið látinn mæla brúarstæðið nýlega og gera áætlun um kostnaðinn, líklega í því skyni, að tekið verði til starfa í vor. Er gjört ráð fyrir trébrú, 21½ al. á lengd, og 5-6½ álna háir steinstöplar undir endunum, en 5 álnir á breidd og 7-8 álnir á lengd. Lauslega áætlaður kostnaður 1.700 kr.
Minnst var á í sumar er leið í þessu blaði, að brýna nauðsyn bæri til að gera veg frá brúarstæðinu hérna megin Ölfusár beina leið upp undir Ingólfsfjall, á þjóðveginn þar, jafnskjótt sem brúin væri á komin, með því að hún gæti eigi komið að fullum notum að öðrum kosti, og meira að segja allar líkur til, að margir kysu heldur að fara á ferju yfir ána eins eftir sem áður, heldur en að tefja sig og þreyta á því að brjótast yfir vegleysu og kviksyndi að brúnni. Nú hefir landshöfðingi látið fyrir skemmstu mæla vegalengdina frá brúarsporðinum væntanlegum upp undir Ingólfsfjall, líklega í því skyni, að fá bætt úr áminnstum annmarka við notkun brúarinnar hið bráðasta að auðið er. Skýrir maður sá, er það gerði, Erlendur Zakaríasson svo frá, að vegalengdin sé alls 1300 faðmar, og er fjórðung vegar (350 faðmar) yfir móa að fara og holt, en hitt mýri, 950 faðmar; en mýrar þykja nú orðið allgott vegarstæði, þótt áður þættu hið versta, meðan vankunnáttan sat í öndvegi. Halli er góður á kafla þessum, og því hægt um frárennsli. En langt þarf nokkuð að sækja góðan ofaníburð, allt að 600 föðm. lengst, og fyrir þá skuld mest er búist við að 4 kr. muni kosta hver faðmur í vegi þessum. En fyrir því er fengin full reynsla, að óhyggilegt er að vera mjög spar á ofaníburð, hvort heldur er að vöxtum eða gæðum.
Með fram Ingólfsfjalli er allgóður vegur mikið af leiðinni undir heiðina, Hellisheiði, er herfilegur úr því lengst af alla leið að Kolviðarhól og Svínahrauni.
Þess hefir verið áður getið, að mjög mikið er eftir ógjört af Mosfellsheiðarveginum beggja vegna, þótt lokið sé við há-heiðina, sjálfan fjallveginn, sem svo er kallaður, og landssjóður á að kosta samkvæmt vegalögunum nýju. Eru það sýslusjóðirnir í Árnessýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem eiga að bera kostnað af því sem ógert er af vegi þessum, en það er sama sem að hafa þar vegleysu eða því sem næst um aldur og æfi; sjóðir þessir hafa í svo mörg horn að líta önnur og nær sér, og eru þeim auk þess stórkostlegar vegabætur langt um megn, jafnvel á ævalöngum tíma.
Það er ósagt látið, hvort landsstjórnin hefir annað í huga með þennan veg, fyr eða síðar. En geta má þess, að landshöfðingi hefir í haust látið Erlend Zakaríasson rannsaka nokkuð vegarstæði til framhalds Mosfellsheiðarvegi að sunnanverðu, frá heiðabrúninni fyrir ofan Seljadal efri á þjóveginn austan yfir Hellisheiði. Er þar um tvennt að velja: að halda hina gömlu leið niður Seljadali allt þar til er vegir koma saman skammt fyrir ofan Árbæ, eða að stytta sér leið með því að nota hinn nýja þjóðveg austur yfir fjall (Hellisheiðarveg) spölkorn upp fyrir Hólm og leggja þaðan nýjan veg eftir holta- og melbörðunum sunnan með Seljadölum upp á Borgarhólamel, þ.e. þar sem fjallvegurinn gamli tekur við. Er síðari kosturinn vitanlega langt um ákjósanlegri, sé þar engin veruleg fyrirstaða. Hann er nokkuð í þá áttina, er haldið hefir verið fram margsinnis í þessu blaði: að nota sem lengst sameiginlegan veg fyrir báðar heiðarnar, Mosfellsheiði og Hellisheiði, upp fyrir Lyklafell; en það ráð var því miður eigi í tíma tekið, svo sem kunnugt er.
Munurinn á því, að halda gamla veginum ofan Seljadalina, og að leggja nýjan veg niður með þeim að austan og sunnan, er nú sá, eftir skýrslu Erlendar, að gamli vegurinn, milli Borgarhólamels og Seláss, fyrir ofan Árbæ, er 10.200 faðmar á lengd, en hinn nýi, frá Borgarhólmamel ofan í Gjótulág, þar sem vegirnir eiga að koma saman fyrir ofan Hólm, ekki nema 7.200 faðmar. Þar við bætist, að á hinni nýju leið er landslag heldur sléttlent og þurrt; þar er hálent, svo vegur ver sig vel, og vatnsrennsli mjög lítið. En á gamla veginum er svo mikið um vatnsrennsli, stærri og smærri, og sumsstaðar kaldavermsl, að þar þarf 4 brýr og 16 rennur; þar er og all-hæðótt og lautótt, og fannasamt mjög á vetrum. Ætlar Erlendur, að sá munur muni valdið geta allt að helmings-mun á kostnaði, þannig, að vegurinn niður Seljadal o.s.frv. kosti 4-5 kr. faðmurinn, en eftir syðri leiðinni ekki nema 2 kr. 60 a. Ætti eftir því allur vegarkaflinn syðri leiðina að kosta 18.720 kr., en hina nyrðri 40.800 kr. með 4 króna verði á faðminum, en 51.000 kr. með 5 kr. verði. Það er því mikið meira en helmings-sparnaður, að hætta við gamla veginn (Seljadalsveginn) og taka upp syðri leiðina.
Þann einn ókost telja menn á syðri leiðinni, að þar er illt um áfangastaði. En við því segja menn auðgert með því að ryðja ómerkilega braut niður í Neðri-Seljadalinn, 800 faðma langa, og getur eigi mikið kostað, en vel fært ofan í Efri-Seljadal sunnan af hinum fyrirhugaða vegi, og auk þess smádalir uppi á heiðinni, sem gætu verið áfangastaðir (Rótardalir og Hrossadalir).
Talsvert hefir verið kostað til vegabóta eftir Seljadalnum eða -dölunum fyrir eigi mörgum árum, og stóðu fyrir því vorir eldri, innlendu vegameistarar, einn eða fleiri. Þarf þá ekki frekara því verki að lýsa, og engar áhyggjur að bera út af því, að þar sé merkilegt mannvirki lagt fyrir óðal, ef sá vegur legðist niður.


Ísafold, 21. jan. 1891, 18. árg., 6. tbl., forsíða:

Vegagjörð á sumri komanda.
Nú hefir í nokkur ár undanfarin verið unnið af landssjóðs hálfu langmest eða því nær eingöngu að þjóðvegum í nánd við höfuðstaðinn, einkum Hellisheiðarvegi, og þar næst Mosfellsheiði.
Gjöra má ráð fyrir, að ýmsum muni þykja sú ráðmennska landsstjórnarinnar kenna hlutdrægni til hagsmuna fyrir höfuðstaðinn. Sumir hafa meira að segja látið sér um munn fara, að höfðingjarnir í Reykjavík hugsi ekki um annað en að útvega góða vegi handa sjálfum sér að skemmta sér á í útreiðum og smáskjökti til næstu héraða. Til þess eyði þeir fé landsins, og láti önnur héruð sitja alveg á hakanum. Hinir eru þó eflaust fleiri, og það þeir, sem best kunna að skynja, er vita, að góðir vegir nærri höfuðstað landsins eru eigi síður gerðir fyrir þá, sem þar sækja að sí og æ árið um kring, heldur en hina, er þaðan bregða sér eitthvað stöku sinnum - með öðrum orðum, að móts við hvern höfðingja eða heldri mann úr Reykjavík, er notar hina nýju vegi þar í grennd lítils háttar, koma tuttugu sveitamenn, er nota þá eigi miður hver um sig, og það til nauðsynja sinna, í kaupstaðinn eða í erindagjörðum við höfðingja í Reykjavík í sínar þarfir. Með því að Reykjavík er langmestur bær á landinu, 5-6 sinnum stærri (fólksmeiri) en stærstu kaupstaðir aðrir, liggur í augum uppi, að þangað muni meiri aðsókn en til nokkurs staðar annars á landinu. En þar sem mest er umferðin, verða góðir vegir að mestum notum. Er því síður en svo, að nein hlutdrægni þurfi því að valda, að unnið hefir verið að vegagjörð í nánd við Reykjavík fremur en annarsstaðar. Stendur auk þess svo á um þá tvo vegi, er mest hefir verið unnið að hér, og áður eru nefndir, að þeir eru báðir kaupstaðarvegir fyrir allmikla byggð landsins, þá er eigi getur haft strandferðanna not sakir hafnleysis, en annar þar á ofan hinn fjölfarnasti vegur á landinu af útlendum ferðamönnum, en af þeim hafa landsmenn talsverða hagsmuni, og hefðu stórum meiri, ef vegaleysi og léleg aðhlynning á ferðum hér fældi þá ekki einmitt frá að leggja hingað leiðir sínar. Enn má og nefna það, að frá höfuðstaðnum er langhelst svo um, að hið nýja vinnulag og verkkunnátta, er hingað hefir færst með hinni útlendu vegagjörð, dreifst út um landið.
Enn eru samt hinir nýju vegir í grennd við höfuðstaðinn ekki nema vegarstúfar. Hvorugur þeirra nær nema hálfa leið milli byggða eða fyrirhugaðra endastöðva þeirra í næstu byggðalögum; og er öllum sýnilegt að ekki verða þeirra hálf not, meðan svo stendur. Hefði því mesta nauðsyn verið, að reyna að halda vegum þessum áfram og fullgjöra þá, áður en tekið væri til verulegrar vegagjörðar annarsstaðar. Útlendingar mundu kalla það bersýnilega ráðleysu, að hætta við þá á miðri leið. Mundu og naumast innlendir valdamenn eða löggjafar hafa látið sér það til hugar koma, þrátt fyrir nokkurn héraðaríg og dálitla amasemi við höfuðstaðinn á stundum, ef vegaféð úr landssjóði væri eigi hvort sem er mikils til of lítið til að ljúka við þessar eða aðrar vegagjörðir, sem nokkuð kveður að, öðruvísi en á ævalöngum tíma. Það er með öðrum orðum, að hefði átt að halda áfram og hætta eigi fyr en Mosfellsheiðarvegur og Hellisheiðarvegur voru fullgerðir alla leið, þá hefði aðrir landsfjórðungar orðið að bíða tíu ár enn eftir því, að nokkur skapaður hlutur væri gerður til að bæta þjóðvegi öðruvísi en með bráðabyrgðakáki, ruðningum o. s. frv.
Það er þá fyrst, er landssjóður er orðinn því vaxinn og þingmenn svo stórhuga, að verja má 50 til 100.000 kr. á ári til vegagjörða - það er þá fyrst, að verulegt skrið getur komist á vegalagning um landið. Þá fyrst er hægt að fullgera aðra eins vegi og þá, er hér hafa nefndir verið, á eigi mjög löngum tíma, og sinna þó öðrum landsfjórðungum að nokkrum mun.
Nema ef sérstaklegar ástæður hefðu svo mikil áhrif á þingið, að það vildi leggja fram fé aukreitis handa einhverjum ákveðnum vegi, svo sem t.d. Mosfellsheiðarveginum, til þess að reyna að auka með því aðstreymi útlendra ferðamanna til landsins, eða vegna brúarinnar yfir Ölfusá: að gera almennilega fært að henni undir eins og hún kemst á, að sumri.
Á sumri komanda fer því aðalvegavinnan af landssjóðs hálfu að sögn fram ekki hér syðra, heldur fyrir norðan, á aðalpóstleiðinni um Húnavatnssýslu, þar sem hún þarfnast þess mest.
Verði nokkuð gert hér, þá er það að ljúka við ofaníburð í Svínahraunsveginn, það sem eftir var í fyrra, á kafla í sjálfu hrauninu, og ef til vill að brúa eina litla á skammt frá Reykjavík, á leið póstanna norður og vestur. Það er Leirvogsá, sem getur orðið mikið slæm torfæra, þótt lítil sé fremur. Erlendur Zakaríasson hefir verið látinn mæla brúarstæðið nýlega og gera áætlun um kostnaðinn, líklega í því skyni, að tekið verði til starfa í vor. Er gjört ráð fyrir trébrú, 21½ al. á lengd, og 5-6½ álna háir steinstöplar undir endunum, en 5 álnir á breidd og 7-8 álnir á lengd. Lauslega áætlaður kostnaður 1.700 kr.
Minnst var á í sumar er leið í þessu blaði, að brýna nauðsyn bæri til að gera veg frá brúarstæðinu hérna megin Ölfusár beina leið upp undir Ingólfsfjall, á þjóðveginn þar, jafnskjótt sem brúin væri á komin, með því að hún gæti eigi komið að fullum notum að öðrum kosti, og meira að segja allar líkur til, að margir kysu heldur að fara á ferju yfir ána eins eftir sem áður, heldur en að tefja sig og þreyta á því að brjótast yfir vegleysu og kviksyndi að brúnni. Nú hefir landshöfðingi látið fyrir skemmstu mæla vegalengdina frá brúarsporðinum væntanlegum upp undir Ingólfsfjall, líklega í því skyni, að fá bætt úr áminnstum annmarka við notkun brúarinnar hið bráðasta að auðið er. Skýrir maður sá, er það gerði, Erlendur Zakaríasson svo frá, að vegalengdin sé alls 1300 faðmar, og er fjórðung vegar (350 faðmar) yfir móa að fara og holt, en hitt mýri, 950 faðmar; en mýrar þykja nú orðið allgott vegarstæði, þótt áður þættu hið versta, meðan vankunnáttan sat í öndvegi. Halli er góður á kafla þessum, og því hægt um frárennsli. En langt þarf nokkuð að sækja góðan ofaníburð, allt að 600 föðm. lengst, og fyrir þá skuld mest er búist við að 4 kr. muni kosta hver faðmur í vegi þessum. En fyrir því er fengin full reynsla, að óhyggilegt er að vera mjög spar á ofaníburð, hvort heldur er að vöxtum eða gæðum.
Með fram Ingólfsfjalli er allgóður vegur mikið af leiðinni undir heiðina, Hellisheiði, er herfilegur úr því lengst af alla leið að Kolviðarhól og Svínahrauni.
Þess hefir verið áður getið, að mjög mikið er eftir ógjört af Mosfellsheiðarveginum beggja vegna, þótt lokið sé við há-heiðina, sjálfan fjallveginn, sem svo er kallaður, og landssjóður á að kosta samkvæmt vegalögunum nýju. Eru það sýslusjóðirnir í Árnessýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem eiga að bera kostnað af því sem ógert er af vegi þessum, en það er sama sem að hafa þar vegleysu eða því sem næst um aldur og æfi; sjóðir þessir hafa í svo mörg horn að líta önnur og nær sér, og eru þeim auk þess stórkostlegar vegabætur langt um megn, jafnvel á ævalöngum tíma.
Það er ósagt látið, hvort landsstjórnin hefir annað í huga með þennan veg, fyr eða síðar. En geta má þess, að landshöfðingi hefir í haust látið Erlend Zakaríasson rannsaka nokkuð vegarstæði til framhalds Mosfellsheiðarvegi að sunnanverðu, frá heiðabrúninni fyrir ofan Seljadal efri á þjóveginn austan yfir Hellisheiði. Er þar um tvennt að velja: að halda hina gömlu leið niður Seljadali allt þar til er vegir koma saman skammt fyrir ofan Árbæ, eða að stytta sér leið með því að nota hinn nýja þjóðveg austur yfir fjall (Hellisheiðarveg) spölkorn upp fyrir Hólm og leggja þaðan nýjan veg eftir holta- og melbörðunum sunnan með Seljadölum upp á Borgarhólamel, þ.e. þar sem fjallvegurinn gamli tekur við. Er síðari kosturinn vitanlega langt um ákjósanlegri, sé þar engin veruleg fyrirstaða. Hann er nokkuð í þá áttina, er haldið hefir verið fram margsinnis í þessu blaði: að nota sem lengst sameiginlegan veg fyrir báðar heiðarnar, Mosfellsheiði og Hellisheiði, upp fyrir Lyklafell; en það ráð var því miður eigi í tíma tekið, svo sem kunnugt er.
Munurinn á því, að halda gamla veginum ofan Seljadalina, og að leggja nýjan veg niður með þeim að austan og sunnan, er nú sá, eftir skýrslu Erlendar, að gamli vegurinn, milli Borgarhólamels og Seláss, fyrir ofan Árbæ, er 10.200 faðmar á lengd, en hinn nýi, frá Borgarhólmamel ofan í Gjótulág, þar sem vegirnir eiga að koma saman fyrir ofan Hólm, ekki nema 7.200 faðmar. Þar við bætist, að á hinni nýju leið er landslag heldur sléttlent og þurrt; þar er hálent, svo vegur ver sig vel, og vatnsrennsli mjög lítið. En á gamla veginum er svo mikið um vatnsrennsli, stærri og smærri, og sumsstaðar kaldavermsl, að þar þarf 4 brýr og 16 rennur; þar er og all-hæðótt og lautótt, og fannasamt mjög á vetrum. Ætlar Erlendur, að sá munur muni valdið geta allt að helmings-mun á kostnaði, þannig, að vegurinn niður Seljadal o.s.frv. kosti 4-5 kr. faðmurinn, en eftir syðri leiðinni ekki nema 2 kr. 60 a. Ætti eftir því allur vegarkaflinn syðri leiðina að kosta 18.720 kr., en hina nyrðri 40.800 kr. með 4 króna verði á faðminum, en 51.000 kr. með 5 kr. verði. Það er því mikið meira en helmings-sparnaður, að hætta við gamla veginn (Seljadalsveginn) og taka upp syðri leiðina.
Þann einn ókost telja menn á syðri leiðinni, að þar er illt um áfangastaði. En við því segja menn auðgert með því að ryðja ómerkilega braut niður í Neðri-Seljadalinn, 800 faðma langa, og getur eigi mikið kostað, en vel fært ofan í Efri-Seljadal sunnan af hinum fyrirhugaða vegi, og auk þess smádalir uppi á heiðinni, sem gætu verið áfangastaðir (Rótardalir og Hrossadalir).
Talsvert hefir verið kostað til vegabóta eftir Seljadalnum eða -dölunum fyrir eigi mörgum árum, og stóðu fyrir því vorir eldri, innlendu vegameistarar, einn eða fleiri. Þarf þá ekki frekara því verki að lýsa, og engar áhyggjur að bera út af því, að þar sé merkilegt mannvirki lagt fyrir óðal, ef sá vegur legðist niður.