1890

Ísafold, 9. ágúst 1890, 17. árg., 64. tbl., forsíða:

Vegagjörðarátak - dýrt kennslukaup.
Í sumar gjörist einn kapítuli í hinni víðræmdu Svínahraunsvegarsögu, naumast hinn síðasti þó. Þar er nú verið að bæta efri hluta vegarins yfir sjálft hraunið, þennan sem lagður var af nýju fyrir nokkrum árum af hinum frægu, gömlu, innlendu vegameisturum, borið ofan í hann annað árið, ofaníburðurinn endurbættur þriðja árið o. s. frv.
Þetta sem kallað er "að bæta" veginn nú er raunar að gjöra hann af nýju, búa hann til enn af nýju, frá rótum.
Gamla vegameistaralagið íslenska var það, svo sem kunnugt er, að hrúga grjóti, ýmist að handahófi (urð) eða flórlögðu, sem kallað var, undir í vegi, ásamt hleðslu utan með, nema í mýrum vanalega höfð stunga í staðinn, og ofaníburður, möl og þess háttar borið þar ofan á.
Slík vegagjörð ber þann aðdáanlega ávöxt, að hafi t. d. verið áður hálfsléttur melur þar, sem vegurinn er lagður, engan veginn mjög ógreiðfær, þá er nú komin þar, fáum misserum síðar, regluleg urð, tilbúin af manna höndum. Stormar og rigningar, frost og leysingar losa og svipta burtu ofaníburðinum og skilja eftir bera urðina. Er óvíða sú torfæra utan við slíkan veg, að hver skepna kjósi hana ekki heldur en að hætta fótum sínum í mannvirkin á sjálfum veginum, grjóthrönnina, sem þar liggur.
Ljómandi mannvirki af því tagi er í Kömbum, sem kallaðir eru, heiðarbrekkunni ofan að Hellisheiði að austan. Vegurinn hefir verið lagður þar þverbeint ofan hér um bil, því í þá daga þótti sá vegmeistari snjallastur, sem gat lagt vegi beint af augum, hvað sem fyrir var, og þótt skepnur yrðu að standa nærri beint upp á endann, ef þær áttu að fara slíkan veg. Þar hefir líka leysingar- og rigningarvatn getað komið sér svo vel við, í slíkum bratta, að þar er fyrir margt löngu öllu skolað vandlega burtu nema sjálfri urðinni undir í veginum, og hún er varla fær nema fuglinum fljúgandi. Engin ferfætt skepna leggur í hana. Hefði Kambavegameistarinn verið nógu séður og borið nægilega umhyggju fyrir hugvitssmíði sínu, svo að ekki yrði tekið fram hjá því, þá hefði hann átt að fylla upp og slétta yfir allan gamla veginn niður Kambana, sneiðingarnar eldgömlu eftir hestafæturna, svo að hvergi markaði fyrir. En svo framsýnn hefir hann ekki verið, og því fór sem fór, að eftir fáein misseri fór hver skepna fram hjá mannvirkinu hans og þræddi gamla veginn óruddan, veginn sem þær höfðu búið sjálfar til, blessaðar skepnurnar, á mörg hundruð árum, og áttu því með öllum rétti. En það er ekki þar upp á, að hefði E. í Grj. eða hvað sem hann nú hét, Kambavegameistarinn, verið svo séður að moka ofan í gamla veginn, helst góðri, vel lagaðri urð, þá hefðu skepnurnar ekki hugsað sig stundu lengur um að yrkja upp á nýjan stofn og leggja nýja sneiðinga niður fjallið, sem lengst frá nýja veginum hans.
Það er ekki hætt við, að þessi nýi Kambavegur verði nokkurn tíma notaður til nokkurs hlutar, hverju nafni sem nefnist. Það er ekki hætt við, að efnið úr honum verði nokkurn tíma notað í annan veg nýjan og almennilega gerðan. Til þess er það allsendis óhæfilegt. Hann fær því að eiga sig, og verður því eitthvert hið varanlegast minningarmark hinnar alinnlendu vegagjörðarlistar frá fyrstu sjálfsforræðisárum landsins í nýjum stíl, - óþreifanlegt sýnishorn þess, hvernig vegir eiga ekki að vera gerðir.
Kambavegarins er minnst svona rækilega hér, vegna þess, að Svínahraunsvegurinn þjóðfrægi, sem er aðalumtalsefnið í þessari grein, sem tilbúinn eftir sömu veglegu hugsjón og sömu viturlegu meginreglum. Það er hallaleysið í Svínahrauninu, sem veldur því, að ávextirnir koma þar ekki eins bersýnilega í ljós. En lítt fær var hann orðinn, allur efri parturinn af Svínahraunsveginum nú í vor, er tekið var til að umbæta hann; það sýna troðningarnir utan götu í sjálfu hrauninu; þar vildu skepnurnar heldur ganga en fara veginn.
Umbótin, sem unnið hefir verið að í sumar, er í því fólgin, að fyrst er rifinn upp gamli grundvöllurinn undir veginn, grjótið, sem í hann var borið og haft fyrir undirstöðu fyrir nokkrum árum. Það er rifið upp með járnkörlum og öðrum grjótvinnutólum og því fleygt síðan út fyrir veginn. Þar liggur hrönnin af því á tvær hendur fram með veginum. Miklu meiri erfiðisauki heldur en ef aldrei hefði verið átt þar neitt við vegagjörð áður, - segja verkamennirnir.
Það er með öðrum orðum, að ekki er nóg með það, að þessum nokkrum þúsundum króna, sem varið hefir verið til áminnstrar vegagjörðar, í sjálfu Svínahrauninu, hefir verið sem á glæ kastað, heldur hefði verið hreinn ábati fyrir landssjóð, að láta vegameistarann og allt hans lið liggja iðjulaust heima í tjaldi og éta dilkasteik og drekka kampavín - á hans (landssjóðsins) kostnað -, heldur en að vinna þetta verk, sem nú þarf mikinn mannafla og langan tíma til að afmá aftur.
Það hefði verið ábati fyrir landssjóð í svip að minnsta kosti, en ekki ef til vill til frambúðar. Því þetta er raunar kennslukaup, dýrt kennslukaup að vísu, - eins og tíðkast í skóla reynslunnar, en líklegast tilvinnandi. Það er óvíst að minna hefði nokkurn tíma dugað til að útrýma þeirri heimalnings-flónsku, að vita það ekki eða vilja ekki við það kannast, að vegagjörð er íþrótt, sem nema þarf rækilega og eftir réttum reglum, meira að segja vísindagrein, allt eins merkileg og mikilsverð og miðaldavísindin, sem vér trúum á sem aðaluppsprettulind allrar speki: lögfræði og guðfræði og þess háttar.
Þegar búð er að pæla upp og flytja burtu urðina úr Svínahraunsveginum, er mokað upp hann mold í staðinn, eins og á að vera, og síðan ekið þar ofan yfir leirkenndum sandi, sem límist vel saman, og gjörir veginn á endanum harðan og sléttan, eins og fjalagólf. Þar upp frá hagar svo til, sem víða á sér stað, að sækja verður þann ofaníburð langar leiðir, 300 faðma frá efra jaðri hraunsins, yfir í Húsmúla, sem svo er nefndur, og hefir orðið að leggja akveg þangað til þess. En það er tilvinnandi, og fram yfir það. Án góðs ofaníburðar er vegagjörð eilífur tvíverknaður.
Ekki eru neinir útlendingar við þessa eða aðra vegagjörð hér á landi í sumar. Hér er kominn upp allgóður vegavinnumannastofn, er verkið hafa unnið og vanist vinnunni undir umsjón hinna norsku vegamanna, er hér hafa verið mörg sumur undanfarin, en kunnu ekkert til hennar áður, svo kunnátta gæti heitið. Eins og aðrir, sem einhverja iðn nema, þá gjöra þeir bæði verkið eins og á að vera, og eru miklu, miklu afkastameiri heldur en hinir, sem ekki kunna það. Verkstjórn hafa þeir líka numið, sem best eru til þess fallnir, og ferst hún vel úr hendi, og lítils háttar stöfun í hallamælingum. Er þetta nóg til að bæta gamla vegi, sem ekki þarf að breyta til muna, og leggja nýja, þar sem mjög vandalaust er, vegna hentugs landslags; en frekara eigi.
Næsta stigið til framfara í vegabótamálum landsins er sem sé, að fá hingað almennilegan vegameistara, er sé hér ekki með höppum og glöppum og sínu sinni hver, heldur að staðaldri, - fastur embættismaður, vegameistari, að sínu leyti eins og póstmeistari. Hann á að ráða, með eftirliti háyfirvalda, allri vegagjörð á landinu á almenningskostnað, líta eftir öllum vegavinnuframkvæmdum, gæta þess, að vegum sé haldið við, eftir að þeir eru lagðir, og brúm sömuleiðis, o. s. frv. Það er ein mjög hættuleg fákænsku- og frumbýlings-ávirðing vor, hvað vér erum hraparlega hugsunarlausir og tómlátir um að halda við alþjóðlegum mannvirkjum. Brýrnar, sem gerðar hafa verið hingað og þangað um land hin síðari árin, munu bera þess sorglegan vott sumar hverjar. Í því sambandi mætti og minnast á þá herfilegu afturför, að síðan farið var að lögleiða fullkomnar og reglulegar vegabætur, má heita að gjörsamlega sé lagt niður að ryðja vegi, - halda hinum gömlu vegum færum eða svo greiðfærum eins og hægt er, með nauðsynlegum ruðningum, meðan að þeir eru notaðir, en það verður langa lengi enn um meiri hluta lands, þótt hinni nýju vegagjörð verði haldið áfram svo rösklega, sem kostur er á.
Í vegameistara-embættið verðum vér auðvitað að fá útlendan mann til að byrja með, og hann valinn, vel reyndan og þroskaðan. Nýgræðingar eru vonargripir, og geta orðið hefndargjöf, hvort sem útlendir eru eða innlendir. En þá kemur til að varast þá freistingu, að láta launasparnaðinn liggja sér of ríkt í huga. Vegameistaralaunin eru ábyrgðargjald, vátrygging gegn vitlausri og ónýtri vegagjörð. En að vátryggja svo illa eða óhyggilega af tómri "sparsemi", að maður missi eins eign sína eftir sem áður bótalaust, - það er hálfu verra en að láta það alveg ógjört. Vér hefðum eigi glatað svo mörgum tugum þúsunda skiptir eða jafnvel hundruðum í alónýta eða hálfónýta vegagjörð, ef vér hefðum verið svo forsjálir að kosta upp á slíka vátryggingu frá upphafi.


Ísafold, 9. ágúst 1890, 17. árg., 64. tbl., forsíða:

Vegagjörðarátak - dýrt kennslukaup.
Í sumar gjörist einn kapítuli í hinni víðræmdu Svínahraunsvegarsögu, naumast hinn síðasti þó. Þar er nú verið að bæta efri hluta vegarins yfir sjálft hraunið, þennan sem lagður var af nýju fyrir nokkrum árum af hinum frægu, gömlu, innlendu vegameisturum, borið ofan í hann annað árið, ofaníburðurinn endurbættur þriðja árið o. s. frv.
Þetta sem kallað er "að bæta" veginn nú er raunar að gjöra hann af nýju, búa hann til enn af nýju, frá rótum.
Gamla vegameistaralagið íslenska var það, svo sem kunnugt er, að hrúga grjóti, ýmist að handahófi (urð) eða flórlögðu, sem kallað var, undir í vegi, ásamt hleðslu utan með, nema í mýrum vanalega höfð stunga í staðinn, og ofaníburður, möl og þess háttar borið þar ofan á.
Slík vegagjörð ber þann aðdáanlega ávöxt, að hafi t. d. verið áður hálfsléttur melur þar, sem vegurinn er lagður, engan veginn mjög ógreiðfær, þá er nú komin þar, fáum misserum síðar, regluleg urð, tilbúin af manna höndum. Stormar og rigningar, frost og leysingar losa og svipta burtu ofaníburðinum og skilja eftir bera urðina. Er óvíða sú torfæra utan við slíkan veg, að hver skepna kjósi hana ekki heldur en að hætta fótum sínum í mannvirkin á sjálfum veginum, grjóthrönnina, sem þar liggur.
Ljómandi mannvirki af því tagi er í Kömbum, sem kallaðir eru, heiðarbrekkunni ofan að Hellisheiði að austan. Vegurinn hefir verið lagður þar þverbeint ofan hér um bil, því í þá daga þótti sá vegmeistari snjallastur, sem gat lagt vegi beint af augum, hvað sem fyrir var, og þótt skepnur yrðu að standa nærri beint upp á endann, ef þær áttu að fara slíkan veg. Þar hefir líka leysingar- og rigningarvatn getað komið sér svo vel við, í slíkum bratta, að þar er fyrir margt löngu öllu skolað vandlega burtu nema sjálfri urðinni undir í veginum, og hún er varla fær nema fuglinum fljúgandi. Engin ferfætt skepna leggur í hana. Hefði Kambavegameistarinn verið nógu séður og borið nægilega umhyggju fyrir hugvitssmíði sínu, svo að ekki yrði tekið fram hjá því, þá hefði hann átt að fylla upp og slétta yfir allan gamla veginn niður Kambana, sneiðingarnar eldgömlu eftir hestafæturna, svo að hvergi markaði fyrir. En svo framsýnn hefir hann ekki verið, og því fór sem fór, að eftir fáein misseri fór hver skepna fram hjá mannvirkinu hans og þræddi gamla veginn óruddan, veginn sem þær höfðu búið sjálfar til, blessaðar skepnurnar, á mörg hundruð árum, og áttu því með öllum rétti. En það er ekki þar upp á, að hefði E. í Grj. eða hvað sem hann nú hét, Kambavegameistarinn, verið svo séður að moka ofan í gamla veginn, helst góðri, vel lagaðri urð, þá hefðu skepnurnar ekki hugsað sig stundu lengur um að yrkja upp á nýjan stofn og leggja nýja sneiðinga niður fjallið, sem lengst frá nýja veginum hans.
Það er ekki hætt við, að þessi nýi Kambavegur verði nokkurn tíma notaður til nokkurs hlutar, hverju nafni sem nefnist. Það er ekki hætt við, að efnið úr honum verði nokkurn tíma notað í annan veg nýjan og almennilega gerðan. Til þess er það allsendis óhæfilegt. Hann fær því að eiga sig, og verður því eitthvert hið varanlegast minningarmark hinnar alinnlendu vegagjörðarlistar frá fyrstu sjálfsforræðisárum landsins í nýjum stíl, - óþreifanlegt sýnishorn þess, hvernig vegir eiga ekki að vera gerðir.
Kambavegarins er minnst svona rækilega hér, vegna þess, að Svínahraunsvegurinn þjóðfrægi, sem er aðalumtalsefnið í þessari grein, sem tilbúinn eftir sömu veglegu hugsjón og sömu viturlegu meginreglum. Það er hallaleysið í Svínahrauninu, sem veldur því, að ávextirnir koma þar ekki eins bersýnilega í ljós. En lítt fær var hann orðinn, allur efri parturinn af Svínahraunsveginum nú í vor, er tekið var til að umbæta hann; það sýna troðningarnir utan götu í sjálfu hrauninu; þar vildu skepnurnar heldur ganga en fara veginn.
Umbótin, sem unnið hefir verið að í sumar, er í því fólgin, að fyrst er rifinn upp gamli grundvöllurinn undir veginn, grjótið, sem í hann var borið og haft fyrir undirstöðu fyrir nokkrum árum. Það er rifið upp með járnkörlum og öðrum grjótvinnutólum og því fleygt síðan út fyrir veginn. Þar liggur hrönnin af því á tvær hendur fram með veginum. Miklu meiri erfiðisauki heldur en ef aldrei hefði verið átt þar neitt við vegagjörð áður, - segja verkamennirnir.
Það er með öðrum orðum, að ekki er nóg með það, að þessum nokkrum þúsundum króna, sem varið hefir verið til áminnstrar vegagjörðar, í sjálfu Svínahrauninu, hefir verið sem á glæ kastað, heldur hefði verið hreinn ábati fyrir landssjóð, að láta vegameistarann og allt hans lið liggja iðjulaust heima í tjaldi og éta dilkasteik og drekka kampavín - á hans (landssjóðsins) kostnað -, heldur en að vinna þetta verk, sem nú þarf mikinn mannafla og langan tíma til að afmá aftur.
Það hefði verið ábati fyrir landssjóð í svip að minnsta kosti, en ekki ef til vill til frambúðar. Því þetta er raunar kennslukaup, dýrt kennslukaup að vísu, - eins og tíðkast í skóla reynslunnar, en líklegast tilvinnandi. Það er óvíst að minna hefði nokkurn tíma dugað til að útrýma þeirri heimalnings-flónsku, að vita það ekki eða vilja ekki við það kannast, að vegagjörð er íþrótt, sem nema þarf rækilega og eftir réttum reglum, meira að segja vísindagrein, allt eins merkileg og mikilsverð og miðaldavísindin, sem vér trúum á sem aðaluppsprettulind allrar speki: lögfræði og guðfræði og þess háttar.
Þegar búð er að pæla upp og flytja burtu urðina úr Svínahraunsveginum, er mokað upp hann mold í staðinn, eins og á að vera, og síðan ekið þar ofan yfir leirkenndum sandi, sem límist vel saman, og gjörir veginn á endanum harðan og sléttan, eins og fjalagólf. Þar upp frá hagar svo til, sem víða á sér stað, að sækja verður þann ofaníburð langar leiðir, 300 faðma frá efra jaðri hraunsins, yfir í Húsmúla, sem svo er nefndur, og hefir orðið að leggja akveg þangað til þess. En það er tilvinnandi, og fram yfir það. Án góðs ofaníburðar er vegagjörð eilífur tvíverknaður.
Ekki eru neinir útlendingar við þessa eða aðra vegagjörð hér á landi í sumar. Hér er kominn upp allgóður vegavinnumannastofn, er verkið hafa unnið og vanist vinnunni undir umsjón hinna norsku vegamanna, er hér hafa verið mörg sumur undanfarin, en kunnu ekkert til hennar áður, svo kunnátta gæti heitið. Eins og aðrir, sem einhverja iðn nema, þá gjöra þeir bæði verkið eins og á að vera, og eru miklu, miklu afkastameiri heldur en hinir, sem ekki kunna það. Verkstjórn hafa þeir líka numið, sem best eru til þess fallnir, og ferst hún vel úr hendi, og lítils háttar stöfun í hallamælingum. Er þetta nóg til að bæta gamla vegi, sem ekki þarf að breyta til muna, og leggja nýja, þar sem mjög vandalaust er, vegna hentugs landslags; en frekara eigi.
Næsta stigið til framfara í vegabótamálum landsins er sem sé, að fá hingað almennilegan vegameistara, er sé hér ekki með höppum og glöppum og sínu sinni hver, heldur að staðaldri, - fastur embættismaður, vegameistari, að sínu leyti eins og póstmeistari. Hann á að ráða, með eftirliti háyfirvalda, allri vegagjörð á landinu á almenningskostnað, líta eftir öllum vegavinnuframkvæmdum, gæta þess, að vegum sé haldið við, eftir að þeir eru lagðir, og brúm sömuleiðis, o. s. frv. Það er ein mjög hættuleg fákænsku- og frumbýlings-ávirðing vor, hvað vér erum hraparlega hugsunarlausir og tómlátir um að halda við alþjóðlegum mannvirkjum. Brýrnar, sem gerðar hafa verið hingað og þangað um land hin síðari árin, munu bera þess sorglegan vott sumar hverjar. Í því sambandi mætti og minnast á þá herfilegu afturför, að síðan farið var að lögleiða fullkomnar og reglulegar vegabætur, má heita að gjörsamlega sé lagt niður að ryðja vegi, - halda hinum gömlu vegum færum eða svo greiðfærum eins og hægt er, með nauðsynlegum ruðningum, meðan að þeir eru notaðir, en það verður langa lengi enn um meiri hluta lands, þótt hinni nýju vegagjörð verði haldið áfram svo rösklega, sem kostur er á.
Í vegameistara-embættið verðum vér auðvitað að fá útlendan mann til að byrja með, og hann valinn, vel reyndan og þroskaðan. Nýgræðingar eru vonargripir, og geta orðið hefndargjöf, hvort sem útlendir eru eða innlendir. En þá kemur til að varast þá freistingu, að láta launasparnaðinn liggja sér of ríkt í huga. Vegameistaralaunin eru ábyrgðargjald, vátrygging gegn vitlausri og ónýtri vegagjörð. En að vátryggja svo illa eða óhyggilega af tómri "sparsemi", að maður missi eins eign sína eftir sem áður bótalaust, - það er hálfu verra en að láta það alveg ógjört. Vér hefðum eigi glatað svo mörgum tugum þúsunda skiptir eða jafnvel hundruðum í alónýta eða hálfónýta vegagjörð, ef vér hefðum verið svo forsjálir að kosta upp á slíka vátryggingu frá upphafi.