Almenn verkefni 2020

Heiti verkefnis : 

Kolefnissparnaður af endurvinnslu steypu í vegagerð

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Árlega fellur til mikið af steypuúrgangi, bæði frá steypubílum sem og vegna niðurrifs bygginga. Endurunnin steypa hefur verið og er notuð í styrktar- og burðarlög vega og stíga víðs vegar í heiminum með góðri raun. Margar þjóðir kappkosta við að endurvinna og endurnýta úrgang og aukaafurðir sem falla til við iðnaðarframleiðslu, m.a. í vegbyggingar, en hér á landi er þessi auðlind enn vannýtt og steypuúrgangur oftast urðaður. Efla hefur kannað ávinning og möguleika þess að nýta steypuúrgang, bæði frá steypubílum og frá niðurrifi bygginga, í vegbyggingu. Niðurstöður prófunar gáfu til kynna að efnið væri gott og full ástæða til að endurvinna það og nýta. Í þessum verkefnum var beitt aðferðafræði vistferilsgreiningar til þess að reikna ákveðinn kolefnissparnað, en ekki var um fulla vistferilsgreiningu að ræða, enda var ekki reiknað með framleiðslu steypu, sem fylgir stórt kolefnisspor, né heldur raunverulegt magn sem þyrfti til vegagerðarinnar og áætlaða endingu efnisins.

Markmið þessa verkefnisins er að framkvæma fulla vistferilsgreiningu á vegbyggingu, t.d. hjólastíg, þar sem tekið er mið af öllum stigum vistferilsins. Greiningin tæki mið af skilgreindum vegkafla, þar sem fyrir liggur annars vegar magn nýs steinefnis eða endurunninnar steypu sem þyrfti til vegbyggingarinnar og hins vegar ending þessa efnis. Ljóst þykir að endurnýting steypu í vegagerð hefur fjölþættan umhverfislegan ávinning í för með sér, m.a. minni efnisþörf úr námum, minni áhrif á ásýnd og jafnvægi lands, minni urðun, en ekki liggur fyrir tölulegur loftslagsávinningur. Tilgangur verkefnisins er að reikna nákvæman kolefnissparnað af nýtingu endurunninnar steypu í stað þess að framleiða og brjóta ferskt steinefni, og sýna þannig fram á loftslagsávinninginn með mælanlegum hætti.

Tilgangur og markmið:

 

1.      Að reikna kolefnisspor og staðfesta loftslagsávinning þess að nýta endurvinnanlega steypu sem fellur árlega til hér á landi og skapa forsendur fyrir nýtingu þess.

2.      Að færa framkvæmdaaðilum upplýsingar sem gagnast við ákvarðanatöku

3.      Að gera greiningu á raunverulegri efnisþörf og viðhaldsþörf fyrir vegbyggingu sem nýtri endurunna steypu áður en efnið verður prófað í fyrsta skipti hér á landi.

4.      Að koma í veg fyrir urðun á endurvinnanlegu hráefni og styðja við hringrásarhagkerfið.

5.      Að uppfylla síauknar kröfur um að vel sé haldið um auðlindir landsins og að endurunnið eða endurnýtt efni sé notað í ný mannvirki.