Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Breytileg umferðarmerki

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Umferðarmerki eru mikilvægur hluti af umhverfi stíga, gatna og vega þar sem þau upplýsa vegfarendur um hvað framundan er, hvort sem það eru boð eða bönn, viðvaranir, vegvísanir, þjónustumerki eða annað viðeigandi.

Í gegnum tíðina hafa umferðarmerki verið „föst“ að því leyti að ekki er hægt að breyta því sem þau sýna vegfarandanum. Breytileg umferðarmerki geta, eins og nafnið gefur til kynna, sýnt breytilegar upplýsingar. Slík breytileg upplýsingaskilti eru þó ekki ný af nálinni á Íslandi, samanber veðurskilti sem gefa til kynna vindhraða, vindhviður o.þ.h. breytilegar upplýsingar.

Á síðustu árum hefur tækni fleygt fram varðandi breytileg umferðarmerki með ljósdíóður (LED) í fararbroddi. Möguleikum á breytilegum upplýsingum á umferðarskiltum hefur farið hratt fjölgandi. Hugsanleg hagnýting á Íslandi gæti verið breytilegur umferðarhraði á þekktum og afmörkuðum óveðrastöðum, breytilegur umferðarhraði á stofnbrautum, viðvaranir vegna veðurs (gular/appelsínugular/rauðar viðvaranir) eða óvenjulegra aðstæðna. Möguleikarnir eru margir í þessum efnum.

Innan banda Evrópusambandsins er unnið að bættu flæði umferðar þvert á landamæri og hluti af þeirri vinnu er að samræma og auka notkun breytilegra umferðarmerkja. Niðurstöður gefa til kynna bætt umferðarflæði og fækkun umferðaróhappa og -slysa með notkun slíkra merkja.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að kanna grundvöll fyrir því að opna á frekari notkun breytilegra umferðarskilta á Íslandi og að hvaða leyti það geti orðið. Með rýni á gögnum og þekkingu erlendis frá má leggja grunn að því hvað hægt er að tileinka sér hér á landi.

Út frá því er hægt að framkvæma greiningu á því hvers konar merki er hægt að taka upp hér á landi og leggja mat á hvaða áskoranir eða hindranir standa fyrir dyrum. Að lokum verða niðurstöðurnar dregnar saman og ábendingar lagðar fram að nauðsynlegum breytingum í þá átt að opna á frekari notkun breytilegra umferðarmerkja.

Markmiðið er að við lok verkefnisins liggi fyrir mat á því hvort og þá við hvaða aðstæður er ákjósanlegt að setja upp breytileg umferðarmerki og hvernig megi standa að því.