Almenn verkefni 2019

Heiti verkefnis : 

Þróun á endafrágangi brúarmannvirkja til að lágmarka viðhald vega við brúarenda

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Bygging brúa án þensluraufa er byggingartækni sem er oft valin vegna
minni stofnkostnaðar og lægri viðhaldskostnaðar á hönnunarlíftíma. Brýr á Íslandi án þensluraufa eru margar mun lengri en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við, til dæmis Noreg. Þessi mismunur milli landanna var kveikjan að fyrstu íslensku rannsókninni á brúm sem eru byggðar án þensluraufa, framkvæmdri af Gylfa
Sigurðssyni og Helga S. Ólafssyni (2016). Í þeirra rannsókn kom fram að fylling við brúarveggi sígur og veldur þetta í mörgum tilvikum skemmdum á yfirborði vega við brýr og hefur þannig áhrif á viðhaldskostnað og öryggi vegfarenda.
Síðustu misseri hefur EFLA verkfræðistofa unnið með lausnir á endafrágangi brúa sem miða að því að:

  • Lágmarka sig vegfyllingar með því að a) lækka spennur í henni með notkun frauðplasts (e. expanded polystyrene) milli endaveggja og fyllingar, og b) auka styrk og samloðun fyllingar með jarðvegsdúk.
  • Stjórna skemmdum (e. crack controlling) á yfirborði vegar með styrkingaraðferðum sem dreifa sprungum í slitlagi. Í stað einnar stórar og staðbundinnar sprungu er stuðlað að mörgum smærri sprungum yfir lengri lengd. Þetta er þekkt aðferð í hönnun steinsteyptra mannvirkja.


Í þessum hluta verkefnis eru helstu aðferðir, bæði hérlendis og erlendis, við að lágmarka sig fyllingar teknar saman og kynntar. Safnað verður gögnum um jarðþrýsting við brúarveggi og leitast við að svara hvort hönnuðir séu að gera rétta grein fyrir kraftaupptöku fyllinga við
brúarenda. Gert er ráð fyrir að brú verði valin í samráði við Vegagerðina til vöktunar og nýr frágangur staðfærður.

Tilgangur og markmið:

 

Þessi rannsókn er hluti af þróun á endafrágangi brúa án þensluraufa, en sú þróun miðar að því að lágmarka sig vegfyllingar við brúarenda. Brýr án þensluraufa eru mannvirki þar sem yfirbygging með bakvegg/endaþverbita nær að bakfyllingu brúarinnar. Þessi byggingartækni er vinsæl þar sem með því að sleppa þensluraufum og legum næst fram sparnaður í stofnkostnaði brúarinnar og í mörgum tilvikum lækkaður viðhaldskostnaður á líftíma.