Í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda, sem fram kemur í meirihlutaáliti fjárlaganefndar og yfirlýsingu frá innviðaráðuneytinu, undirbýr Vegagerðin nú útboð vegna 3. áfanga nýbyggingar Vestfjarðarvegar (60) um Dynjandisheiði á um 7,3 km kafla og einnig á um 1 km kafla á Dynjandisvegi. Áætlað er að útboðið fari í loftið á allra næstu dögum. Einnig eru í undirbúningi útboð vegna þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar og vonir standa til að það verði tilbúið til útboðs snemma á nýju ári.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir mjög ánægjulegt að geta haldið áfram með þessi mikilvægu verkefni, enda sé um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga.
„Þær vegabætur sem þegar hefur verið ráðist í og þær sem fram undan eru á Vestfjörðum, skipta sköpum fyrir þróun lífsskilyrða í þessum landsfjórðungi,“ segir Bergþóra.
Fyrirhugað er að byggja þennan hluta Vestfjarðarvegar að mestu í nýju vegstæði en að hluta í núverandi vegstæði, auk þess sem gert er ráð fyrir keðjuplani og áningarstað. Verkinu á að ljúka í lok september 2026. Um er að ræða 3. og jafnframt síðasta hluta af endurbyggingu á nýjum Vestfjarðarvegi yfir Dynjandisheiði.
Í 1. áfanga verksins var byggður upp 7,7 km kafli við Þverdalsá og einnig um 4,3 km kafli fyrir Meðalnes. Þær framkvæmdir stóðu yfir frá 2020-2022. Þá bættist einnig við um 650 m kafli á Bíldudalsvegi. Auk þess var um 1 km kafli frá Pennu niður að Flókalundi lagfærður.
Í 2. áfanga verksins fólst nýbygging Vestfjarðarvegar á um 12,6 km löngum kafla. Sú framkvæmd nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæsta hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inni í því verki var einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð áningarstaðar. Verklok 2. áfanga voru fyrr á þessu ári.
Sjá einnig frétt innviðaráðuneytis; Samgönguframkvæmdum fyrir árið 2025 forgangsraðað.