Vinnulýsing mikilvæg á framkvæmdasvæði við Reykjanesbraut
Góð vinnulýsing á myrkasta tíma ársins er afar mikilvæg á vinnusvæðum líkt og á Reykjanesbrautinni þar sem unnið er að tvöföldun brautarinnar í nálægð við þunga umferð. Bæði þurfa starfsmenn að sjá til við sín störf og vegfarendur þurfa að sjá vel vinnusvæðið þegar þeir aka í gegnum það. Vegagerðinni hafa ekki borist ábendingar um að lýsing á vinnusvæðinu hafi haft truflandi áhrif á vegfarendur líkt og fram kemur í frétt Morgunblaðsins 13. mars 2025.
Lýsing á nýjum kafla Reykjanesbrautar verður í miðdeili og lýsir upp veginn í báðar akstursáttir.
Til að mæta óhefðbundnum aðstæðum sem vinnusvæði hafa í för með sér þarf að grípa til ýmissa ráðstafana til að auka öryggi bæði starfsfólks og vegfarenda. Aukin lýsing er eitt, en einnig er hraði lækkaður verulega. Þrátt fyrir hraðatakmarkanir hefur illa gengið að hægja á umferð fram hjá framkvæmdasvæðinu á Reykjanesbraut. Einnig eru settar upp vinnusvæðamerkingar sem reglulega eru teknar út auk þess sem skilti eru þrifin eins og þörf er á.
Eftir alvarlegt bílslys sem varð á vinnusvæðinu í vetur þar sem ökutæki úr gagnstæðri átt skullu saman, voru akreinar aðskildar með þungum vörnum og settar steinblokkir milli akreina. Reglur miða við að slíkt sé ekki gert á vinnusvæðum þar sem hraði er tekinn niður í 30 km/klst. og því var þetta ekki gert í upphafi framkvæmda.
Þegar lýsing var upphaflega sett upp við Reykjanesbraut á sínum tíma var miðað við þau viðmið sem giltu þá og þær fjárveitingar sem úr var að spila á þeim tíma. Í dag gilda hins vegar önnur, mun strangari viðmið og reglugerðir, og því er nú stuðst við nýjustu staðla í lýsingu við þessa nýframkvæmd og uppfærslur til að tryggja sem besta lýsingu og öryggi.
Bent hefur verið á að stikur vanti meðfram Reykjanesbraut og að yfirborðsmerkingar séu að mestu leyti máðar eða útvísandi. Yfir vetrartímann verður alltaf töluvert um að stikur verði fyrir hnjaski og skemmdum, meðal annars vegna snjóruðnings og annarrar vegavinnu. Reynt er að bregðast við þessu vandlega og jafnóðum, en á vorin og sumrin er síðan unnið markvisst að því að laga vegbúnað á vegakerfinu til að bæta ástandið. Yfirborðsmerkingar eru reglulega endurnýjaðar en víða, þar sem álag er mikið vegna bæði umferðar og snjómoksturs, þarf að endurnýja yfirborðsmerkingar árlega á hverju vori. Ekki er hægt að merkja yfirborð yfir vetrartímann vegna veðurs og aðstæðna, og því fer þessi vinna fram að mestu leyti yfir sumartímann. Það er hins vegar ekki alltaf til nægilegt fé til að merkja allt það sem er illa farið og þarfnast endurmerkinga, og því eru merkingar stundum ófullnægjandi lengur en æskilegt væri fyrir öryggi vegfarenda.
Á umferðarþungum vegum eins og Reykjanesbrautinni verður óhjákvæmilega slit á malbiki og holur myndast með tímanum. Vegagerðin fer í varanlegar viðgerðir að vori þegar veður og aðstæður leyfa, og þá helst holuviðgerðir og aðrar nauðsynlegar úrbætur. Yfir vetrartímann er sinnt bráðavanda eins og holufyllingum við nýjar skemmdir sem koma upp vegna veðurs og umferðarálags.
Vegagerðin reynir stöðugt að halda í horfinu hvað varðar viðhald vega, en eins og víða annars staðar á landinu er viðhaldsþörfin orðin mjög mikil og skortur á viðhaldsfé orðið tilfinnanlegur. Ljóst er að auka þarf verulega fjármuni til viðhalds og endurbóta á vegum eins og berlega hefur komið í ljós undanfarin ár og vakin hefur verið mikil athygli á því í samfélaginu og hjá stjórnvöldum.
Framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar.
Framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar nærri Álverinu í Straumsvík.
Framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar.