Reikna má með mikilli umferð um verslunarmannahelgina
Búast má við að margir verði á faraldsfæti nú þegar ein mesta ferðahelgi ársins er fram undan. Viðbúið er að mikil umferð verði á Hringvegi (1), sérstaklega í kringum höfuðborgarsvæðið. Vegfarendur eru hvattir til að virða hámarkshraða, kynna sér vel færð og veður og aka miðað við aðstæður.
Um allt land er unnið að vegaframkvæmdum og viðgerðum.
Viðbúið er að umferðin verði með mesta móti.
Á umferdin.is, upplýsingavef Vegagerðarinnar, má finna rauntímaupplýsingar um færð og veður, tilkynningar um lokanir og opnanir á vegum og jarðgöngum. Þar eru upplýsingar um framkvæmdir á vegum og áhrif þeirra á hraða eða takmarkanir á umferð. Einnig er hægt að hringja í 1777, umferðarþjónustu Vegagerðarinnar, sem er opin frá kl. 06:30-22:00 alla daga, allt árið.
Vegaframkvæmdir og viðgerðir á vegum standa yfir um allt land. Hætta er á steinkasti og jafnvel töfum vegna þessa. Hámarkshraði er lækkaður á flestum vinnusvæðum og gott er að halda um 50 metrum á milli bíla til að minnka líkur á skemmdum af völdum steinkasts.
Vegfarendur sem aka um Hvalfjarðargöng eða önnur jarðgöng eru sérstaklega hvattir til að vera vel á verði og halda góðu bili á milli ökutækja, eða 50 metrum eins og kemur fram á umferðarskiltum við göng. Umferðaróhöpp í jarðgöngum geta valdið miklum umferðartöfum, en loka þarf göngum þegar óhöpp verða til að tryggja öryggi á vettvangi.
Hér fyrir neðan má sjá umferðartölur frá fimmtudegi til mánudags verslunarmannahelgina 2024 um Suðurlandsveg við Geitháls, Vesturlandsveg um Mosfellsbæ, Þingborg austan Selfoss, Hvalfjarðargöng og Hringveg um Öxnadal.
Stöplarit sem sýnir umferðartölur við vegkafla þar sem búast má við miklu álagi yfir verslunarmannahelgina.