15. desember 2023
Vel heppn­uð æfing með óvænt­um endi

Björgunaræfing um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri sem fram fór í vikunni gekk vel þrátt fyrir slæmt veður. Að æfingu lokinni reyndi á áhöfnina þegar eldur kom upp í bíl um borð í ferjunni sem var þó ekki á siglingu. Snör viðbrögð urðu til þess að engin slys urðu á fólki og ekkert tjón á skipinu.

Fimmtudaginn 14. desember fór fram björgunaræfing á Baldri í Stykkishólmi. Nemendur á efsta stigi grunnskólans í Stykkishólmi og kennarar þeirra voru farþegar í æfingunni ásamt nokkrum úr starfshópi Sæferða. Viðstaddir voru einnig fulltrúar frá öryggisdeild Eimskips, Samgöngustofu, Landsbjörgu og Survitec, fyrirtækinu sem þjónustar björgunarbúnaðinn. Alls komu 78 aðilar að æfingunni, ýmist sem þátttakendur eða eftirlitsaðilar.

Æfingin gekk vel þó veðrið væri ekki gott. Það var vindasamt og sjókoma á köflum, en í raun góðar aðstæður fyrir æfingu sem þessa. Farþegar, þá sérstaklega nemendur grunnskólans, stóðu sig einstaklega vel í erfiðum aðstæðum og virtust ekki láta kuldann á sig fá.

Að æfingu lokinni reyndi aftur á áhöfn Sæferða þegar eldur kom upp í bíl um borð í Baldri. Baldur var bundinn við bryggju í Stykkishólmi og bíllinn var kyrrstæður á bílaþilfarinu, þar sem eldurinn kom upp. Snör viðbrögð áhafnarinnar urðu til þess að engin slys urðu á fólki eða tjón á ferjunni. Bíllinn, sem er í eigu starfsmanns Sæferða, er hins vegar ónýtur. Slökkvilið Stykkishólmsbæjar og lögreglan kom á vettvang stuttu síðar, þá var bæði búið að slökkva eldinn og koma bílnum frá borði. Skýrsla verður unnin um atvikið og tilkynnt til Samgöngustofu og rannsóknarnefndar sjóslysa. Vegagerðin og Sæferðir munu í samvinnu við fyrrnefnda aðila, fara yfir málsatvik. Ef horft er á jákvæðu hliðarnar á þessari óvæntu uppákomu er ánægjulegt að allar viðbragðsáætlanir og brunavarnir hafi virkað sem skyldi.

Frá björgunaræfingu um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri.

Frá björgunaræfingu um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri.

Frá björgunaræfingu um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri.

Frá björgunaræfingu um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri.