9. apríl 2024
Vegir víða lokað­ir vegna veðurs

Vonskuveður hefur gengið yfir landið með snjókomu og hvassviðri nú um helgina. Veðrið hefur haft mikil áhrif á færðina og vegir eru víða lokaðir eða þungfærir. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast vel með veðurspám og kynna sér vel færðina á umferdin.is , upplýsingavef Vegagerðarinnar, ef ferðalög standa fyrir dyrum.

 

Umferðin.is

Umferðin.is


  • Öxnadalsheiði er lokuð vegna veðurs og verður ekki opnuð í dag en vonast er til að hægt verði að hefja mokstur strax í fyrramálið.
  • Holtavörðuheiði og Fróðárheiði eru lokaðar og ólíklegt að hægt verði að opna fyrr en á morgun, mánudag. Vegurinn um Mývatn og Möðrudalsöræfi er lokaður vegna veðurs og verður á óvissustigi fram á mánudagsmorgun.
  • Fólk er beðið um að aka með sérstakri gát um Siglufjarðarveg, en þar er þæfingsfærð eða hálka og mjög slæmt skyggni og einungis fært fjórhjóladrifsbílum. Óvissustig er á veginum og gæti hann lokast með stuttum fyrirvara.
  • Á Steingrímsfjarðarheiði er snjóþekja og skafrenningur og vegurinn á óvissustigi fram á mánudagsmorgun og gæti því lokast með stuttum fyrirvara. Dynjandisheiðin er ófær. Vegurinn um Þröskulda er ófær og verður ekki opnaður í dag. Hjáleið er um Innstrandarveg.
  • Búið er að opna veginn um Fagradal. Fjarðarheiðin er lokuð vegna veðurs og verður á óvissustigi fram á mánudagsmorgun.
  • Vegurinn um Búlandshöfða á norðanverðu Snæfellsnesi er á óvissustigi vegna snjóflóðahættu og gæti lokast með stuttum fyrirvara. Á sunnanverðu Snæfellsnesi er lokað á Útnesvegi vegna veðurs.
  •  Í Öræfasveit er búið er að opna veginn. Enn er frekar hvasst á Skeiðarársandi.
  •  Kirkjubæjarklaustur yfir á Freysnes er opið, en vegna hvassviðris er varhugavert að fara um veginn á bílum sem taka á sig mikinn vind. Einnig er talsvert sandfok við Lómagnúp.

Veðrið mun ekki ganga yfir fyrr en annað kvöld og biður Vegagerðin vegfarendur um að afla sér upplýsinga um færð og veður áður en lagt er af stað út á vegina. Allar nánari upplýsingar um færð og lokanir eru á umferdin.is .