16. febrúar 2024
Vega­gerð­in vinnur að gerð nýs vegar innan varn­argarða við Svartsengi

Vegagerðin vinnur nú að gerð nýs vegar innan varnargarða við Svartsengi. Eftir hinum nýja vegi verður hægt að fara frá Grindavíkurvegi að því sem eftir er af Bláalónsvegi, en hann fór að hluta til undir hraun í síðustu viku. Sá hluti sem eftir stendur er óskemmdur og tengist vestur fyrir Þorbjörn inn á Nesveg og þannig opnast aftur leiðin inn til Grindavíkur og einnig að þeirri starfsemi sem er í Svartsengi, þar með talið Bláa lóninu. Allt kapp er lagt á að þessi nýja tenging komist sem fyrst í virkni, en það verður vonandi fljótlega eftir helgina.

Vegagerðin hefur þegar látið leggja nýjan veg yfir hraunið sem rann yfir Grindavíkurveg í síðustu viku og er vonast til þess að sá vegkafli verði kominn í fulla virkni á næstu dögum.

Hitaskynjari í nýjum vegi

Unnið er við merkingar á nýja veginum sem lagður var yfir hraunið. Settar verða stikur, gátskildir og blikkljós á veginn en þar er hámarkshraði 50 km/klst. Ljóst er að ekki verður æskilegt að stoppa mikið á nýja veginum og viðhafa þarf mikla varúð þegar farið er um  veginn. Settur var hitaskynjari við veginn í gær til að fylgjast með hitanum þar, sem er á bilinu 50-80°C. Hitinn er þó heldur lægri á yfirborði vegarins.

Þá er verið að skoða með hvaða hætti hægt verður að koma Grindavíkurvegi í virkni alla leið inn til Grindavíkur. Vinna við hönnun á nýjum vegkafla stendur yfir, en breyta þarf veglínunni og aðlaga hana að breyttu landslagi vegna hrauns sem rann í janúar og varnargarða sem búið er að reisa.

Gámafleti nýtt sem brú

Vegagerðin hefur látið brúa Austurveg í Grindavík til bráðabirgða. Sprunga liggur í gegnum veginn og var gripið til þess ráðs að brúa hann með tveimur samsíða gámafletum

Vel er fylgst með Nesvegi og Suðurstrandavegi en eftir að Grindavíkurvegur fór að hluta til undir hraun í janúar hefur umferð um þá vegi aukist. Nesvegur skemmdist töluvert í jarðskjálftunum í nóvember og hefur kapp verið lagt á að halda veginum í lagi, t.d. með því að styrkja vegaxlir.

Vetrarþjónusta var strax í nóvember sett í forgang til að tryggja að leiðir til og frá Grindavík séu færar.

Áfram er unnið að því að kortleggja sprungur og hugsanleg holrými við Grindavík. Sérstakur jarðsjárdróni á vegum Vegagerðarinnar er notaður til verksins.

Vegagerðin fylgist nú sem fyrr grannt með jarðhræringunum og endurmetur reglulega allar áætlanir um viðgerðir á vegum til og innan Grindavíkur.

Gámaflot var sett yfir sprungu til að brúa Austurveg.

Gámaflot var sett yfir sprungu til að brúa Austurveg.