Vegagerðin opnar nýjan vef vegagerdin.is í dag
Vegagerðin hefur sett í loftið nýja vefsíðu vegagerdin.is. Þetta er þriðja og síðasta púslið í þríþættri veflausn Vegagerðarinnar, sem samanstendur af vegagerdin.is, umferdin.is og sjolag.is.
Sjolag.is, nýr og gagnvirkur kortasjávefur fyrir sjófarendur, var hleypt af stokkunum vorið 2021. Markmiðið með vefnum var að veita notendum aðgengilegar, uppfærðar og áreiðanlegar upplýsingar um aðstæður á sjó, bæði til öryggis og til hagræðingar í siglingum. Í kjölfarið fór umferdin.is í loftið í október 2022. Vefurinn hefur hlotið afar góðar viðtökur frá bæði almenningi og fagaðilum og var til að mynda valinn samfélagsvefur ársins tvö ár í röð, 2022 og 2023, sem er viðurkenning á gæðum, notagildi og skýrri framsetningu efnis.
Í dag, miðvikudaginn 4. júní, tekur nýr og endurbættur vefur við hlutverki vegagerdin.is. Nýja útgáfan er hönnuð til að veita betri yfirsýn yfir starfsemi stofnunarinnar og inniheldur margvísleg gögn, skýrslur og aðrar upplýsingar sem eru mikið skoðaðar af almenningi, fjölmiðlum og fagaðilum. Helsta nýjungin er svokallaður verkefnavefur, sem veitir notendum skýra og uppfærða mynd af öllum helstu framkvæmdum Vegagerðarinnar hverju sinni. Þar er hægt að fylgjast með stöðu verkefna, skoða tengd útboð, nálgast skýrslur og gögn, og lesa fréttir sem hafa birst um viðkomandi framkvæmd. Þróun á verkefnavefnum heldur áfram á næstu mánuðum og fleiri verkefni munu bætast við eftir því sem þau hefjast eða færast á nýtt stig.
Nýi vefurinn leggur áherslu á:
Stórbætta farsímaútgáfu, svo notendur geti nálgast allar upplýsingar hratt og örugglega, óháð því hvar þeir eru.
Aðgengismál höfð að leiðarljósi, þannig að vefurinn nýtist sem flestum, þar á meðal fólki með mismunandi þarfir og tæknilegar forsendur.
Betri endurspeglun á starfsemi og áherslum stofnunarinnar, þar sem framsetning efnis er bæði sjónræn og efnisleg uppfærsla frá eldri vef.
Innleiðingu á nýrri tækni sem gerir vefinn hraðvirkari, stöðugri og auðveldari í viðhaldi.
Nýtt hönnunarkerfi sem tryggir samræmda framsetningu og faglegt útlit í öllum hlutum vefsins.
Verkefnavef sem eykur gagnsæi og veitir innsýn í framvindu stórra og smærri framkvæmda.
Öfluga leitarvél sem hjálpar notendum að finna réttu upplýsingarnar á sem skemmstum tíma.
Með þessum breytingum er stefnt að því að gera vegagerdin.is að miðlægum upplýsingagátt fyrir alla sem vilja fylgjast með samgöngumálum á Íslandi, hvort sem þeir eru almennir vegfarendur, verktakar, sveitarfélög eða fjölmiðlar.
Vefurinn er verkefni sem er í sífelldri þróun og er öllum ábendingum fagnað. Hægt að senda ábendingar á vefur@vegagerdin.is
Vegagerðin þakkar samstarfsaðilum fyrir gott samstarf. Kolofon sá um hönnun og forritun vefsins og Sjá hafði umsjón með verkefnastjórn ásamt vefstjóra. Einnig var margt starfsfólk Vegagerðarinnar sem kom að þróun og uppbyggingu vegagerdin.is.