25. janúar 2024
Vega­gerð­in býður ungmenn­um frá Grinda­vík frítt í lands­byggðar­strætó

Vegagerðin hefur ákveðið að styðja við Grindvíkinga á þessum fordæmalausu tímum og bjóða 12-17 ára ungmennum frá Grindavík að fá frítt strætókort sem gildir í landsbyggðarvagna. Kortin eru hugsuð fyrir ungmenni sem þurfa að sækja þjónustu eða afþreyingu á höfuðborgarsvæðið eða á Suðurnes og munu gilda fyrir Suðurnes, Suðurland eða Vesturland.

Hægt er að sækja um strætókortið frá og með deginum í dag inni á straeto.is/verslun/landsbyggdin. Landsbyggðarkortin eru ekki hluti af Klappinu og ekki rafræn. Nauðsynlegt er því að láta ljósmynd af viðkomandi fylgja með þegar sótt er um kort.

Kortin er hægt að fá send í bréfpósti eða sækja þau á skrifstofu Strætó bs. á Hesthálsi 14 eða í þjónustumiðstöð Grindvíkinga í Tollhúsinu.