10. desember 2025
Umferðaró­happ við nýja brú yfir Breið­holts­braut

Umferðaróhapp við nýja brú yfir Breiðholtsbraut

Breiðholtsbraut, frá Jaðarseli að Elliðavatnsvegi, er lokuð vegna umferðaróhapps sem varð við brúna sem þar er í smíðum. Ekki er ljóst hvenær hægt verður að opna fyrir umferð á ný. Vörubíll með pallinn uppi ók á undirslátt brúarinnar með þeim afleiðingum að pallurinn fór af bílnum og endaði öfugur undir brúnni. Engin slys urðu á fólki en tíu manns voru á staðnum að vinna við brúna þegar óhappið varð. Fólki var að vonum brugðið en mesta mildi þykir að ekki fór verr.

Pallurinn fór af bílnum og endaði undir brúnni.

Pallurinn fór af bílnum og endaði undir brúnni.

Í undirslættinum eru m.a. stálbitar sem hver um sig vegur allt að tvö tonn. Brúarmannvirkið sjálft er óskemmt.

Lögreglan er á staðnum og stýrir umferð. Umferð verður ekki hleypt á þennan kafla fyrr en búið er að hreinsa svæðið og tryggja að þar sé öruggt að fara um. Fyrirséð er að lokunin muni standa fram eftir degi og jafnvel lengur ef í ljós kemur að svæði er ekki öruggt. Hjáleiðir eru merktar.

Ljóst er að undirslátturinn hefur aflagast við höggið en það verður lagað og tekið út síðar í dag. Brúin sjálf var steypt þann 10. nóvember sl. og síðan þá hafa verið tímabundnar hæða- og hraðatakmarkanir, eða 4 metra hæð og 30 km hraði.

Skemmdir kannaðar á undirslættinum.

Skemmdir kannaðar á undirslættinum.

Fólki varð brugðið við óhappið.

Fólki varð brugðið við óhappið.