26. janúar 2024
Tilhög­un vetrar­þjón­ustu

Vegagerðin sinnir vetrarþjónustu á um 5.000 km af þeim 12.000 km sem teljast til þjóðvega landsins.  Vetrarþjónustan er skipulögð í samræmi við gildandi reglur um vetrarþjónustu á þjóðvegum frá árinu 2018, sem samþykktar eru af innviðaráðherra.

Vegagerðin sér um og greiðir fyrir allan snjómokstur og hálkuvarnir á þeim leiðum sem hún hefur umsjón með. Í flestum tilvikum eru það verktakar sem sinna þjónustunni. Þá daga sem þjónustu er sinnt með reglubundnum hætti er stefnt að því að snjómokstri og hálkuvörnum sé lokið á hverju svæði fyrir sig áður en morgunumferðin hefst. Vinnureglur, sem m.a. eru byggðar á umferðarþunga og mati á aðstæðum, segja til um hver þjónustan er á hverjum vegi og hálkuvörnum er t.d. ekki sinnt á vegakerfinu öllu.

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar skiptist fyrst og fremst í snjómokstur, hálkuvarnir og eftirlit. Snjómokstur er áþreifanlegt verkefni sem allir þekkja en hálkumyndun og varnir við hálku er mun flóknara fyrirbæri. Hálka getur verið ófyrirsjáanleg og brostið á með mjög stuttum fyrirvara.

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar skiptist fyrst og fremst í snjómokstur, hálkuvarnir og eftirlit.

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar skiptist fyrst og fremst í snjómokstur, hálkuvarnir og eftirlit.

Hvað veldur hálku?

Augljós veðurskilyrði sem valda hálku eru snjókoma, frostrigning, frostúði eða rigning á ísaðan eða frostkaldan veg, jafnvel þótt lofthiti sé yfir frostmarki. Lúmskari skilyrði sem valda hálku eru þegar bleyta frýs á vegi, þokuský eru lágt á lofti eða þoka í frosti. Héla getur myndast í heiðríkju en verður að ískristöllum á veginum, loft sem hlýnar upp fyrir frostmark og sólbráð. Allt eru þetta aðstæður sem geta myndast á örskotsstundu og verið ófyrirsjáanlegar. Á sumum stöðum á vegakerfinu eru aðstæður þannig að auknar líkur eru á hálku. Hér er til dæmis átt við brýr, láglend svæði og skóglendi sem skyggir á vegi svo þeir verða kaldir og blautir og hálka myndast.

Helmingur af öllu því fé sem varið er til vetrarþjónustu Vegagerðarinnar fer í hálkuvarnir (akstur vörubíla með tönn og dreifara). Engu að síður er ljóst að ekki er mögulegt að koma í veg fyrir að hálka verði á vegum. Raunin er því miður líka sú að þó óendanlegt fé væri til ráðstöfunar væri ekki raunhæft að halda því 5000 km neti sem nýtur vetrarþjónustu á þjóðvegum hálkulausu í því margbreytilega veðurfari er einkennir Ísland.

Fyrirbyggjandi hálkuvarnir

Hálkuvarnir geta falist í fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir hálku en einnig er gripið til aðgerða eftir að hálka hefur myndast. Aðferðir við að draga úr hálku felast m.a. í að fjarlægja snjó þannig að fyrr sjáist í auðan veg, rífa upp klaka eða ís og sandbera eða salta vegi.

Að fjölmörgu er að huga þegar ákvörðun er tekin um fyrirbyggjandi aðgerðir. Á meðal þess sem taka þarf mið af er langtímaspá, ástand vegar og veðurfar, veðurútlit næstu klukkustundir og umferðarflæði. Hjá Vegagerðinni er notuð ýmis tækni til þess, svo sem veðurspár, myndavélar og viðnámsmælingar og einnig fara eftirlitsmenn á viðkomandi staði til að meta aðstæður þegar við á. Vaktstöðvar Vegagerðarinnar, ásamt þjónustustöðvum á hverju svæði halda utan um skipulag vetrarþjónustunnar, og eru þær á vaktinni allan sólarhringinn, allt árið um kring.

Á upplýsingavef Vegagerðarinnar, www.umferdin.is , eru ávallt nýjustu upplýsingar um veður og færð.

Einnig er hægt að hringja í 1777, þjónustusíma Vegagerðarinnar, til að fá upplýsingar. 1777 er opinn á milli kl. 6:30 – 22:00 alla daga vikunnar.

Nánari upplýsingar: