19. mars 2024
Þunga­takmark­anir víða um land

Þungatakmarkanir eru í gildi víða á vegakerfinu sér í lagi á Vesturlandi og Vestfjörðum en einnig á Hringvegi (1) á Suður- og Suðausturlandi. Vegir eru illa farnir á mörgum köflum eftir veturinn. Búast má við að settar verði sjö tonna þungatakmarkanir á nokkra kafla Vestfjarðavegar og á Reykhólavegi. Til skoðunar er að fjölga ferðum með Breiðafjarðarferjunni Baldri.

Skemmdirnar á vegunum stafa fyrst og fremst af gömlu burðarlagi sem er farið að gefa sig, miklum þungaflutningum og of litlu viðhaldi undanfarin ár. Slitlagið er víða sprungið sem verður til þess að vatn á auðveldara með að renna niður í burðarlagið og situr í efra lagi vegarins. Þegar frost fer úr veginum gengur vatnið upp og skemmir burðarlagið enn frekar. Á stórum köflum er slitlag farið af vegum, sér í lagi á Vestfjörðum.

Þar sem ástand Vestfjarðarvegar (60) og Reykhólavegar (607) er mjög slæmt og á köflum hættulegt má búast við því að settar verða 7 tonna þungatakmarkanir á vegina með stuttum fyrirvara um helgina. Horft er til Vestfjarðarvegar (60) frá Hringvegi í Borgarfirði að gatnamótum við Snæfellsnesveg (54), og Vestfjarðaveg (60) frá Þorskafirði að gatnamótum við Djúpveg (61) ásamt Reykhólavegi (607).

Jafnvel má búast við 7 tonna þungatakmörkunum víðar næstu daga. Upplýsingar um þungatakmarkanir má nálgast á www.umferdin.is. Til að koma til móts við flutningsaðila er til skoðunar að fjölga ferðum með Breiðafjarðarferjunni Baldri.

Starfsfólk Vegagerðarinnar vinnur að bráðabirgðaviðgerðum þar sem hægt er. Hins vegar þarf að bíða eftir því að frost og bleyta fari úr vegum áður en hægt er að klára bráðabirgðaviðgerðir. Útlit er fyrir áframhaldandi þíðu næstu vikur og því standa vonir til að hægt verði að ráðast í viðgerðir fljótlega.

Til stendur að fræsa upp verstu kaflana sem verða klæddir að nýju næsta sumar.

Vegfarendur eru hvattir til að aka varlega og hafa varann á. Flutningsaðilar eru hvattir til að velja aðrar leiðir, til dæmis um Innstrandaveg (68) og Djúpveg (61) til að hlífa vegakerfinu.