Taktu þátt í að bæta opinbera þjónustu
Innviðaráðuneytið og stofnanir þess óska eftir tillögum um hvernig megi einfalda regluverk og bæta þjónustu. Allir geta tekið þátt í netkönnun sem opin er til og með 19. desember nk. í samráðsgátt stjórnvalda.
Markmiðið er að bæta þjónustu hins opinbera með því að greina hvort og hvar lagðar eru óþarfar, flóknar eða óljósar byrðar á einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög eða félagasamtök sem þurfa þjónustu eða leita erinda hjá ráðuneytinu eða stofnunum þess.
Könnunin nær til ráðuneytisins og fimm stofnana: Vegagerðin, Byggðastofnun, Fjarskiptastofa, Rannsóknarnefnd samgönguslysa og Samgöngustofa.
Ábendingar geta verið af ýmsum toga og t.d. varðað óþarflega íþyngjandi reglur, skort á leiðbeiningum eða upplýsingum, þjónustu sem mættu vera stafræn. Einnig má koma með tillögur að þjónustu sem vantar eða hvar bæta megi þjónustu í takt við þróun samfélagsins.
Verkefnið er í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um hagræðingu innan stjórnsýslunnar og einföldunar regluverks í þágu atvinnulífs og almennings.
Innviðaráðuneytið hefur tvisvar áður lagt fram könnun af þessu tagi með góðum árangri. Ríflega 70 ábendingar bárust í könnun sem gerð var árið 2022 og um 50 ábendingar árið 2020. Flestar ábendinganna hafa skilað árangri með einum eða öðrum hætti, t.d. með lagabreytingum eða breytingum á regluverki, nýjum stafrænum ferlum eða öðrum umbótaverkefnum þar sem ábendingarnar eru hafðar til hliðsjónar.
Hægt er að taka þátt í könnuninni hér að neðan eða í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.