30. október 2025
Slysa­hætta þegar keyrt er með of háan farm undir vegbrú

Slysahætta þegar keyrt er með of háan farm undir vegbrú

Mikil slysahætta getur skapast þegar ekið er með of háan farm undir vegbrúna, sem er í smíðum yfir Breiðholtsbraut. Þar eru m.a. stálbitar sem hver um sig vegur á annað tonn og ef ökutæki rekst í þá er voðinn vís. Síðast í gærkvöldi var ekið á hæðarvarnarbúnað við brúna. 

Ef keyrt er á brúna skapast mikil slysahætta.

Ef keyrt er á brúna skapast mikil slysahætta.

Að sögn Höskuldar Tryggvasonar, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni, kemur það of oft fyrir að ökumenn bíla með of háan farm virði hvorki merkingar né viðvörunarljós og aki undir vegbrúna með tilheyrandi slysahættu. 

Ef farmur er það hár að hann rekst í sjálfan undirslátt brúarinnar skapast hrunhætta vegna byggingarbúnaðarins. Þarna eru tugir stálbita sem hver vegur á annað tonn. Falli þeir niður, ásamt öðrum búnaði á ökutæki úr um 5 metra hæð getur orðið veruleg hætta á stórslysi, bæði fyrir vegfarendur og þá sem vinna við brúarsmíðina,“ segir Höskuldur.

Hæðaslár og ljós til að vekja athygli á hæðatakmörkunum

Til að vekja athygi vegfarenda á hæðatakmörkunum vegna framkvæmdanna eru hæðaslár sitthvoru megin við framkvæmdasvæðið til að varna því að ökutæki rekist í brúna. Einnig hafa verið sett upp ljós og upplýsingaskilti. Þá hefur Vegagerðin bætt enn frekar í öryggisbúnað á svæðinu. Settur hefur verið upp sjálfvirkur aðvörunarbúnaður, sambærilegur þeim sem notaður er víða við jarðgöng, þar sem rauð blikkandi ljós virkjast ef ekið er á hæðarslá. Ökumönnum ber þá að stöðva tafarlaust. 

„Það hefur þó ekki dugað til og því biðlum við til ökumanna og fyrirtækja að kynna sér farmhæð vel áður en ekið er á svæðið. Ef farmur er of hár þarf skilyrðislaust að sækja um undanþágu til Samgöngustofu,“ segir Höskuldur. 

Ef keyrt er á hæðaslárnar fer af stað hljóðmerki sem varar fólk sem er að störfum á brúnni við yfirvofandi hættu.

„Þetta er gert til að tryggja öryggi vegfarenda og þeirra sem starfa við brúarsmíðina. Við höfum því miður séð mörg dæmi um að ekið sé á hæðaslárnar og áfram undir brúna. Áréttað er að akstur með of háan farm er lögbrot og varðar sektum,” upplýsir Höskuldur. 

Hann bendir á að mikilvægt sé að ganga úr skugga um að pallar á vörubílum séu settir niður, bílkrönum pakkað saman og farmur ekki hærri en leyfilegt er.  

„Markmiðið er að koma í veg fyrir slys og tryggja öryggi vegfarenda og þeirra sem starfa við framkvæmdirnar,“ segir Höskuldur. 

Brúarsmíðinni á að ljúka snemma á næsta ári.  

Nánari upplýsingar um hámarkshæð ökutækja má finna hér:  

Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 155/2007  9. gr  Hæð ökutækis „Leyfileg hæð ökutækis er 4,2 m 

  

Í brúargólfinu eru stálbitar sem hver vegur um sig vegur á annað tonn.

Í brúargólfinu eru stálbitar sem hver vegur um sig vegur á annað tonn.

 Ef keyrt er á hæðaslárnar fer af stað hljóðmerki til að vara fólk, sem er að störfum á brúnni, við yfirvofandi hættu.

Ef keyrt er á hæðaslárnar fer af stað hljóðmerki til að vara fólk, sem er að störfum á brúnni, við yfirvofandi hættu.

Mörg dæmi eru um að bílar með háfarm keyri undir vegbrúna, þrátt fyrir viðvaranir.

Mörg dæmi eru um að bílar með háfarm keyri undir vegbrúna, þrátt fyrir viðvaranir.

Ökumönnum ber að stöðva um leið og rautt blikkandi ljós virkjast.

Ökumönnum ber að stöðva um leið og rautt blikkandi ljós virkjast.