7. september 2023
Skemmti­legt að vera matráður í brúar­vinnu­flokki

Hrefna Magnúsdóttir, matráður í brúarvinnuflokki Vegagerðarinnar frá Vík, er í viðtali í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta sem er á leið til lesenda. Hrefna segir frá starfi sínu sem er æði fjölbreytt enda er vinnuflokkurinn á sífelldu flakki um landið að sinna ýmsum áhugaverðum verkefnum.

Elskar að keyra með harmóníkutónlist í botni

Í fagurgrænum eldhúsgám stendur Hrefna Magnúsdóttir, matráður brúarvinnuflokks Vegagerðarinnar, yfir ilmandi súpupotti. Hún er að undirbúa hádegismatinn fyrir samstarfsfélaga sína sem eru að byggja bráðabirgðabrú yfir Ferjukotssíki í Borgarfirði. Hún tekur brosandi á móti blaðamanni Framkvæmdafrétta, býður honum sæti í matsalnum og dregur fram heimabakað vínarbrauð og marmaraköku.

„Ég baka allt nema samlokubrauðið. Reyndar finnst mér strákarnir ekki borða nógu mikið af því, ég myndi vilja baka miklu meira,“ segir Hrefna glettin og hellir kaffi í bolla. Hún segist vera hálfgerður síðasti móhíkani hjá Vegagerðinni. „Ég er 67 ára og vonast til að fá að starfa til sjötugs, en ég efast um að nokkur verði ráðinn í minn stað þegar ég hætti,“ segir Hrefna en sú var tíðin að Vegagerðin gerði út mikinn fjölda vinnuflokka um allt land, bæði vegavinnuflokka og brúarvinnuflokka og voru ráðskonur með hverjum þeirra. Hrefna er hins vegar eini matráðurinn sem enn er starfandi hjá vinnuvinnuflokki á vegum Vegagerðarinnar.

Fékk nasaþef af gamla tímanum

Hrefna er fædd og uppalin á Svínafelli í Öræfum. Hún hefur búið bróðurpart ævinnar á Höfn í Hornafirði þar sem hún býr í dag. Hún hefur gegnt ýmsum störfum í gegnum árin, var til að mynda að vinna við afgreiðslu í Jökulsárlóni og síðar Skaftafelli. „Ég byrjaði eiginlega að elda mat 17 ára gömul árið 1973 þegar verið var að byggja þjónustumiðstöðina í Skaftafelli,“ rifjar Hrefna upp og eins og gengur þurfti hún að þróa sig í því verkefni. „Ég hitti einn samstarfsfélaga frá þessum tímum mörgum árum seinna og hann sagði að það hefðu nú verið óþarflega oft bjúgu í matinn,“ segir hún og hlær.

Hrefna byrjaði í starfi sínu hjá Vegagerðinni árið 2006 en það var þó ekki í fyrsta sinn sem hún vann fyrir stofnunina. „Á áttunda áratugnum var vegavinnuflokkur að vinna að vegagerð í Öræfunum. Flokkurinn var skipaður körlum úr sveitinni og vegaverkstjórinn, sem var frá Svínafelli, hafði samband við mig og bað mig að elda ofan í þá,“ segir Hrefna en aðstæður vinnuflokkanna þá voru dálítið frábrugðnir því sem er í dag. „Það er mjög gaman að hafa kynnst þessum tíma. Þá var maður ekki með margar græjur, bara Solo eldavél. Stundum fraus vatnið og maður lenti í allskonar veseni. Þetta var samt bráðskemmtilegt, maður þurfti að hafa dálítið fyrir hlutunum,“ segir Hrefna, sem var í þessu starfi nokkur sumur. Hún rifjar upp að hún hafi ekki alltaf verið vinsæl. „Einu sinni bakaði ég pönnukökur í nesti fyrir þá og setti í það gallsúrt skyr. Þá fóru þeir nú ekki með Faðirvorið til mín,“ segir hún og hlær dátt. „En þeir hlógu mikið að þessu eftir á.“

Allt til alls í vinnubúðunum

Hrefna vann sem skólaliði í Grunnskólanum á Höfn árið 2006 þegar starfsmaður Vegagerðarinnar, sem ættaður var úr Öræfunum, hringdi í hana til að spyrja hvort hún hefði áhuga á að gerast ráðskona hjá brúarvinnuflokknum í Vík. „Þar sem ég var ekki að vinna á sumrin kom sér þetta ágætlega fyrir mig og ég sló til. Þeir hafa ekki losnað við mig síðan.“

Hrefnu leist strax vel á starfið. „Flokkurinn var að mála brúna yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi þegar ég byrjaði. Aðstaðan sem ég kom í þá var allt önnur og betri en sú sem ég hafði upplifað áður. Þarna voru öll tæki og tól til staðar.“

Vinnubúðir brúarvinnuflokksins eru misstórar eftir verkefnum og staðsetningu. „Þegar engin önnur aðstaða er í boði eru allar vinnubúðirnar fluttar á staðinn. Það eru fimm gámar með herbergjum, en tvö herbergi eru í hverjum gámi. Forstofa, skrifstofa, setustofa, borðsalur og eldhús. Svo er einn klósettgámur með sturtu og tveimur salernum,“ lýsir Hrefna. Þegar blaðamaður Framkvæmdafrétta hitti á hana er flokkurinn staðsettur í Borgarnesi og því ekki þörf á að flytja herbergjagámana með í það skiptið. „Það er heilmikið og dýrt fyrirtæki að flytja þessa gáma á milli staða. Við erum mikið að flakka á milli staða og því er reynt eins og hægt er að fá inni í annars konar húsnæði,“ segir Hrefna en stundum er flokkurinn í félagsheimilum, skólum eða annarsstaðar.

Leiðist aldrei í vinnunni

„Mér finnst alltaf svo gaman í vinnunni. Ég er búin að vera í sautján ár með þessum vinnuflokki og hefur ekki leiðst einn einasta dag. Það er frábært að keyra um og vera sjaldan lengi á sama stað, maður kynnist nýju fólki og nýjum stöðum. Og þótt aðstaðan sé mjög misjöfn eftir staðsetningu þá gerir það ekkert til,“ segir Hrefna og bætir við að vissulega sé mismikið að gera hjá sér eftir hverju verkefni. „Ég er meira ein þegar strákarnir eru að vinna lengra frá búðunum, þá útbý ég handa þeim nesti. En ef við erum með allar vinnubúðirnar með okkur þá er aldeilis nóg að gera, því ég sé líka um öll þrifin, skipti um á rúmum og þvæ þvott.“

Hún segir að oft sé þörf á því að taka herbergjagámana með, sérstaklega í verkefni á Suður- og Suðausturlandi. „Þar er í raun vonlaust að fá gistingu á sumrin vegna fjölda ferðamanna.“

Harmóníkutónar stytta stundir við aksturinn

Þar sem verkefni brúarvinnuflokksins eru víða um land þarf Hrefna oft að keyra langar leiðir til vinnu. „Mér leiðist aldrei að keyra. Ég bara set harmóníkumúsíkina á og ek af stað. Reyndar held ég að bíllinn fari ekki af stað fyrr en tónlistin fer að hljóma,“ segir hún brosandi en Hrefna hefur verið unnandi harmóníkutónlistar frá unga aldri og sækir allar þá harmóníkuviðburði sem hún getur. „Það gefur mér svo mikla gleði,“ segir hún kát í bragði.

Hrefna segist annars vera á besta bílnum, Toyota Rav. „Ég hef átt slíka bíla lengi og endurnýja þá á nokkurra ára fresti, mér finnst ég öruggari í umferðinni þannig,“ segir hún og bætir kímin við að hún fari síðan með Toyota-bænina kvölds og morgna, og sýnir bænina sem hún hefur útprentaða á ísskápnum í vinnubúðunum.

Aldrei upplifað aðra eins törn

Starfsfólk brúarvinnuflokksins vinnur vanalega frá mánudegi til fimmtudags, frá sjö til sjö. Síðan er frí föstudag, laugardag og sunnudag. Brúarvinnuflokkurinn gegnir almannavarnarhlutverki sem þýðir að hann þarf að vera tilbúinn að stökkva til ef til dæmis brýr skemmast í náttúruhamförum. Þá skiptir engu hefðbundinn vinnutími heldur er allt sett til hliðar til að koma á samgöngum að nýju.

Hrefna hefur upplifað slíkt, en það var þegar brúin yfir Múlakvísl skemmdist í flóðum árið 2011. „Á þeim tíma vorum við að vinna nálægt Flúðum og þurftum að flytja vinnubúðirnar og allan mannskapinn, einn, tveir og tíu að Múlakvísl,“ segir Hrefna en þar sem flóðið varð um helgi var Hrefna stödd heima hjá sér á Höfn. „Þá þurfti ég að keyra Fjallabak til að komast í vinnubúðirnar. Það hafði ég aldrei farið áður og var skíthrædd við að keyra yfir þessar ár þó lítið væri í þeim. Í hvert skipti sem ég kom að á, hringdi ég í sveitunga minn sem hafði oftsinnis ekið Fjallabaksleið og fékk ráðleggingar um hvernig best væri að fara yfir.“

Við tók löng og ströng törn hjá starfsmönnum brúarvinnuflokksins og matráði þeirra. „Þetta var mjög gaman en mikil vinna. Ég fór úr því að elda fyrir sjö manns og upp í 107 daginn sem bráðabirgðabrúin yfir Múlakvísl var opnuð. Sem betur fer gat ég fengið vinkonu mína með mér sem var nýkomin í sumarfrí, það bjargaði mér alveg,“ segir Hrefna sem svaf um þrjá tíma á nóttu þessa daga sem smíðin stóð yfir. Báðir brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar voru þarna að störfum ásamt fleira fólki. „Ég hef aldrei upplifað aðra eins törn og aldrei á ævinni orðið eins þreytt og þegar þetta var búið.“

Frumstæðar aðstæður í Emstrum

Reynsla Hrefnu úr fyrra starfi fyrir Vegagerðarflokkinn á áttunda áratugnum kom að góðum notum í fyrra þegar brúarvinnuflokkurinn gisti í skála Ferðafélags Íslands í Emstrum meðan hann vann að því að lagfæra göngubrýr við Eskifell og Kollumúla yfir Jökulsá í Lóni sem höfðu skemmst í óveðri veturinn áður.

„Við vorum þar í hálfan mánuð. Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara og keypti því bara inn eins og venjulega. Aðstæður voru heldur fornfálegar, enginn ísskápur og enginn ofn, svo ekki gat ég bakað. Bara gashellur og grill,“ lýsir Hrefna. Þetta með ísskápsleysið bjargaðist þó giftusamlega enda kalt í veðri þó kominn væri júlí. „Þetta var öðruvísi en rosalega gaman að vera svona öll saman í skálanum.“

Heimilismatur og heimabakað bakkelsi

En hvað fá nú vinnufélagarnir að borða? „Þeir segja nú, þessir yngri strákar, að ég eldi bara gamaldags mat,“ svarar Hrefna og brosir. „Og það er svo sem alveg rétt. Ég er með þennan heimilismat, kjötbollur, fisk, fiskrétti, saltkjöt og lambalæri. Ég er alltaf með steik á fimmtudögum. Þessum yngri mönnum þykir voða gott að fá hamborgara, pitsur, pítur og kjúkling, og ég er með það líka enda reyni ég eins og ég get að gera öllum til hæfis.“

Dagurinn hjá Hrefnu byrjar klukkan sex á morgnana. „Morgunkaffi er tuttugu mínútur í sjö. Um hálftíu er kaffi og svo hádegismatur klukkan tólf. Síðdegiskaffi er klukkan 15.30 og kvöldmatur klukkan sjö,“ segir Hrefna sem hefur mjög gaman af því að baka. „Ég baka ýmislegt, til dæmis vínarbrauð eins og mamma bakaði, marmaraköku, snúða, skinkuhorn, pitsusnúða og kleinur en þær finnst mér ég alltaf þurfa að eiga.“

Þegar flokkurinn er að vinna langt frá vinnubúðunum nestar Hrefna þá upp fyrir kaffið en alltaf er komið heim í hádegismat og kvöldmat. „Áður smurði ég alltaf nestið en það var dálítil matarsóun. í dag tek ég til álegg í dalla og sendi þá með brauð og álegg og smjör og stundum heimatilbúið salat. Það verður miklu drýgra og þeir fá sér það sem þá langar í. Þeir borða allir vel, sérstaklega þessir eldri. En þessir ungu menn kvarta aldrei. Nú er ég orðin elst, og sú eina sem var í flokknum árið 2006 þegar ég byrjaði, en ég næ mjög góðri tengingu við alla, enda einstakur andi í hópnum.“


Ekki var hægt að kveðja Hrefnu nema fá hjá henni uppskrift og þar var ekki komið að tómum kofanum.

Hér gefur hún uppskrift að kótilettum og dýrindis peruköku.

Kótilettur að hætti Hrefnu

10 stk. kótilettur
3 tsk. salt
1 tsk. pipar
6 tsk. mynta frá Pottagöldrum
4 tsk. smjör

Sósa

Soð af kótilettum
2 teningar kjötkraftur
2-3 tsk. mynta
500 ml rjómi
smjörklípa
sósulitur
sósujafnari

Hitið ofninn í 150 gráður. Setjið allt krydd saman í skál og blandið vel saman. Kótilettunum raðað í ofnskúffu og kryddinu stráð yfir, smjörklípur settar með. Kótiletturnar eldaðar í 1,5 klst. í ofni, snúið við einu sinni. Hellið soðinu sem myndast hefur í ofnskúffunni í pott og setjið annað innihald sósunnar saman við. Öllu hrært saman og sósujafnara bætt við að lokum eftir þörfum.

Peruterta

170 g sykur
4 stk. egg
60 g hveiti
60 g kartöflumjöl
1 tsk. lyftiduft

Egg og sykur þeytt vel saman. Hveiti, kartöflumjöli og lyftidufti hrært varlega saman við. Sett í tvö botnamót. Ofnhiti 180 C í ca. 20 mín.

Perurjómi                         

1/2 l rjómi
1 dós perur
2 msk. flórsykur
4-5 msk. Nesquik
1 egg

Rjóma, flórsykri og Nesquik þeytt saman og að lokum er eggið sett út í rjómablönduna og aðeins hrært. Það má líka setja súkkulaði í staðinn fyrir Nesquik en mér finnst þægilegra og alls ekki verra að nota Nesquik. Perurnar set ég bæði á milli og ofan á rjómakremið. Nauðsynlegt að bleyta botnana með perusafanum.

Þessi grein birtist fyrst í  Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2023, nr. 726 . Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is

Dýrindis jólahlaðborð sem Hrefna kokkaði upp síðustu jól.

Dýrindis jólahlaðborð sem Hrefna kokkaði upp síðustu jól.

Hrefna eldar ilmandi súpu í eldhúsgámnum.

Hrefna eldar ilmandi súpu í eldhúsgámnum.