29. júlí 2025
Ný umferðar­merki sýna lágmarks­bil við framúrakstur

Ný umferðarmerki sýna lágmarksbil við framúrakstur

Vegagerðin hefur sett upp ný upplýsingamerki við þrjá fjölfarna vegi landsins, á Reykjanesbraut við Fitjar, á veginum gegnum Mosfellsdal og á Þingvallavegi. Þeim er ætlað að minna ökumenn á að hafa að lágmarki 1,5 metra hliðarbil þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli, samkvæmt 23. grein umferðarlaga. Staðsetningin var valin með hliðsjón af mikilli umferð bæði bíla og hjóla en sambærileg merki er að finna í nær öllum Evrópulöndum.

Þegar ekið er framúr reiðhjóli eða bifhjóli á að hafa a.m.k. 1,5 metra hliðarbil.

Þegar ekið er framúr reiðhjóli eða bifhjóli á að hafa a.m.k. 1,5 metra hliðarbil.

Við síðustu endurskoðun umferðarlaga var bætt við í umferðarlög nr. 77/2019 ákvæði um lágmarksvegalengd, 1,5 m, þegar bíl er ekið fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli. Í kjölfar nýrra umferðarlaga var umferðarmerkjareglugerðin endurskoðuð.

Hjólasamfélagið óskaði eftir sérstökum umferðarmerkjum varðandi þetta ákvæði umferðarlaga en nefndin um endurskoðun umferðarmerkjareglugerðar taldi að kynning væri betri en uppsetning merkja þar sem ákvæðið væri almennt og örðugt að framfylgja. Eftir fundi Vegagerðarinnar og hjólasamfélagsins var ákveðið að setja upp umrædd upplýsingaskilti að evrópskri fyrirmynd til að minna á fjarlægðarákvæði laganna.

Sjá nánari upplýsingar um umferðarlögin:

Hliðarbil ökutækja frá hjólreiðafólki að lágmarki 1,5 metrar

Kveðið er á um að þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skuli hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar.

Samanber 23. grein laganna

Sá sem ekur fram úr öðru ökutæki skal hafa nægilegt hliðarbil milli ökutækis síns og þess sem ekið er fram úr. Sé ekið fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil að lágmarki vera 1,5 metrar.

Sérreglumerki. Nýtt. 600 x 600 mm.

Sérreglumerki. Nýtt. 600 x 600 mm.

Upplýsingatafla. Lágmark 1500 x 1000 mm.

Upplýsingatafla. Lágmark 1500 x 1000 mm.