Ný tækni til vöktunar jarðhitasvæða
ReSource International ehf. hefur í samstarfi við Vegagerðina lokið tilraunaverkefni þar sem háþróuð hitamyndavélatækni á dróna var nýtt til að vakta jarðhitasvæði. Verkefnið fór fram við Hveradali á Hellisheiði þar sem aukin jarðhitavirkni hefur komið fram á síðustu misserum. Markmiðið var að þróa öruggar og hagkvæmar aðferðir til að fylgjast með hitabreytingum í jarðvegi og undirlagi, sem getur haft afgerandi þýðingu fyrir framkvæmdir og viðhald vegakerfisins.

Verkefnið fór fram við Hveradali á Hellisheiði þar sem aukin jarðhitavirkni hefur komið fram á síðustu misserum.
Í verkefninu var dróna með hitamyndavél flogið yfir afmarkaðan vegarkafla þrisvar sinnum á fjögurra mánaða tímabili. Niðurstöðurnar sýna greinilega jarðhita í nágrenni vegarins, einkum nálægt skátahúsinu í Hveradölum. Þar mældist stöðugur hiti í vegöxlum, þó ekki væri um að ræða hitaflæði upp á yfirborð vegarins sjálfs. Þetta bendir til að jarðhitinn nái aðeins upp að ákveðinni hæð og hafi hingað til ekki haft áhrif á malbiksyfirborðið.
Samanburður á hitamælingum úr drónanum og hefðbundnum hitamæli sýndi að þrátt fyrir ákveðnar skekkjur, eru mælingarnar áreiðanlegar og gefa góða mynd af hitadreifingu á svæðinu. Verkefnið sýndi jafnframt fram á að með endurteknu flugi er hægt að bera saman gögn yfir tíma og greina þróun jarðhitans. Þó er ljóst að margir þættir, eins og lofthiti, vindur og sólarljós, geta haft áhrif á niðurstöður og því þarf að þróa aðferðir sem draga úr slíkum ytri áhrifum.
Jarðhitasvæði geta skapað áskoranir í vegagerð og viðhaldi. Hitabreytingar geta haft áhrif á burðarþol og varanleika vega, auk þess sem jarðhitagufa getur valdið ófyrirséðum skemmdum. Með reglubundinni vöktun má greina þróun fyrr og þannig fyrirbyggja óvæntar tafir og aukinn kostnað í framkvæmdum.
„Við sjáum mikla möguleika í þessari tækni, bæði fyrir verktaka og opinbera aðila. Með nákvæmri hitagreiningu getum við stuðlað að öruggari framkvæmdum og betri nýtingu fjármuna,“ segir Nicolas Proietti, framkvæmdarstjóri ReSource International ehf.
Þó verkefnið hafi verið afmarkað í tíma, gefur það sterkar vísbendingar um að drónar með hitamyndavél geti orðið mikilvæg viðbót í verkfærakistu þeirra sem vinna að vegagerð og jarðvinnu á jarðhitasvæðum. Næstu skref felast í því að:
Að sögn ReSource International ehf. mun þessi tækni ekki aðeins nýtast í rannsóknum heldur einnig í hagnýtri verkfræði, t.d. við hönnun nýrra vega, mat á áhættu og langtímavöktun innviða á jarðhitasvæðum.
Verkefnið við Hveradali sýnir að með tiltölulega einfaldri drónatækni er hægt að fá heildstæða yfirsýn yfir jarðhita á stórum svæðum á stuttum tíma. Með því að halda áfram þróun á þessari aðferðafræði getur Vegagerðin og aðrir framkvæmdaaðilar tryggt betri undirbúning, aukið öryggi vegfarenda og sparað verulegan kostnað í framtíðinni.
Með þessu verkefni undirstrikar ReSource International ehf. og Vegagerðin sameiginlega áherslu á nýsköpun og tæknilausnir sem styðja við öruggari, hagkvæmari og umhverfisvænni framkvæmdir á Íslandi.

Á Hringvegi við Hveradali mældist stöðugur hiti í vegöxlum, þó ekki væri um að ræða hitaflæði upp á yfirborð vegarins sjálfs. Þetta bendir til að jarðhitinn nái aðeins upp að ákveðinni hæð og hafi hingað til ekki haft áhrif á malbiksyfirborðið.