Ný brú yfir Sæbraut tekin í gagnið
Ný göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut hefur verið opnuð. Brúin bætir umferðaröryggi verulega fyrir vegfarendur milli nýrrar Vogabyggðar og Vogahverfis, ekki síst fyrir nemendur í Vogaskóla. Kapp var lagt á að hún yrði tilbúin áður en skólastarf hæfist.
Um er að ræða tímabundna brú sem hægt verður að taka niður og nota síðar á öðrum stað. Hægt verður að nota brúna meðan á framkvæmdum við Sæbrautarstokk standa yfir.
Brúin er um 28 metra löng og vegur um 30 tonn. Með tilkomu hennar er komin gönguleið milli Tranavogs og Snekkjuvogs. Brúin er yfirbyggð með lyftu og tröppum til að tryggja gott aðgengi fyrir öll.
Reykjavíkurborg og Vegagerðin hófu undirbúning formlega haustið 2022. Skoðaðir voru möguleikar á því að gera brú annars vegar með römpum og hins vegar með lyftum. Mikill hæðarmunur er á þessum slóðum, svo lyftubrú þótti betri kostur. Góð reynsla hefur verið af sambærilegum brúm til dæmis í Noregi.
Framkvæmdin er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og Betri samgangna og heyrir undir verkefni Samgöngusáttmálans.
Verkís hannaði mannvirkið og Ístak sá um framkvæmdir. VBV verkfræðistofa hafði eftirlit og umsjón á sinni könnu. Vegagerðin hefur haft yfirumsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.
Brúin er yfirbyggð með lyftu og tröppum til að tryggja gott aðgengi fyrir öll. Mynd/Róbert Reynisson