21. júní 2022
Norrænt samst­arf er lykil­atriði

Leiðsögukerfi fyrir siglingar og vitamál voru til umræðu á fundi Norrænu vitatæknisamtakanna, NFO, sem haldinn var á Íslandi í byrjun júní. Samtökin voru stofnuð á Íslandi fyrir nærri hálfri öld og skiptir starf þeirra sköpum við að reka alþjóðlega samræmt leiðsögukerfi fyrir sjófarendur á norðlægum breiddargráðum.

„Norrænu vitatæknisamtökin halda málþing  á tveggja ára fresti til skiptist á Norðurlöndunum og nú var Ísland með forsæti og málþingið því haldið hér á landi dagana 1. til 3. júní,“ segir Greipur Gísli Sigurðsson rafmagnsverkfræðingur á Þjónustusviði Vegagerðarinnar en hann hefur síðustu 3 ár verið forseti NFO, sem stendur fyrir Nordisk Fyrtekniske Organisation, en málþingið frestaðist um 1 ár vegna farsóttarinnar.

Ekki er á allra vitorði að vita- og siglingamál heyra undir Vegagerðina en Greipur Gísli sinnir siglingaþjónustum, leiðsöguvirkjum fyrir siglingar og vitamálum.

Norrænu vitasamtökin voru stofnuð á Íslandi árið 1974. „Hugmyndin var að Norðurlöndin settu upp samráðsvettvang til að samræma aðferðir á norðurslóðum, kynna nýja tækni og endurbætur í vitarekstri og leiðsögumerkjum fyrir sjófarendur. Einnig yrði þetta leið fyrir sérfræðinga í hverju landi að kynnast öðrum sem væru í sömu störfum og mynda persónuleg kynni við þá sem eru að fást við svipuð verkefni,“ lýsir Greipur en þau lönd sem tilheyra NFO eru Noregur, Svíþjóð, Finnland, Ísland og Danmörk, en Danmörk fer með vitamál fyrir Grænland og Færeyjar og Finnland fyrir Álandseyjar.

Fundur NFO á Íslandi var haldinn í nýjum höfuðstöðvum Vegagerðar í Suðurhrauni og á Hellu og var einstaklega vel heppnaður. „Hingað mættu yfir 35 erlendir sérfræðingar, bæði sérfræðingar á sviði leiðsöguvirkja siglinga og vitamála og aðilar frá fyrirtækjum sem framleiða tæki og áhöld til vitareksturs og þjónusta markaðinn með ýmsum lausnum. Við áttum afar góða fundi og haldin voru fjölmörg erindi, en auk þess gátum við sýnt hópnum fallega óbeislaða náttúru Íslands. Við skoðuðum  meðal annars Knarrarósvita austan við Stokkseyri og fórum fína ferð til Heimaeyjar í Vestmannaeyjum og heimsóttum Stórhöfðavita sem var mikil upplifun fyrir alla.“

Fyrirlestrarnir á fundinum voru allir mjög fræðandi. Greipur segir þó ekki síst mikilvægt fyrir hópinn að kynnast utan fundarsalarins því þannig verði til góð tengslamyndun sem hjálpi fólki að eiga samskipti eftir fundinn. „Þar sem maður þekkir fólk persónulega er lítið mál að senda pósta eða taka upp tólið þegar mann vantar upplýsingar eða vill bera saman bækur. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir okkur hér á litla Íslandi.“

Greipur er glaður hvernig til tókst með fundinn á Íslandi. Hann hefur nú afhent Finnum forsætið í samtökunum sem munu halda næsta fund í Finnlandi eftir tvö ár.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar tók á móti hópnum fyrsta daginn í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar tók á móti hópnum fyrsta daginn í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar.

Fundurinn var meðal annars haldinn í nýjum höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Suðurhrauni í Garðabæ.

Fundurinn var meðal annars haldinn í nýjum höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Suðurhrauni í Garðabæ.