13. ágúst 2025
Nátt­úran stýr­ir för — ástæður frátafa Herjólfs

Náttúran stýrir för — ástæður frátafa Herjólfs

Samspil nokkurra þátta hafa áhrif á það hvort Herjólfur geti siglt til Landeyjahafnar. Hæð kenniöldu, ölduhæð, vindhraði og dýpi í hafnarmynni geta valdið því að fella þarf niður ferð eða sigla þarf til Þorlákshafnar. Hafnadeild Vegagerðarinnar hefur tekið saman gögn til að greina hvaða þættir hafa áhrif á svokallaðar frátafir eða truflun á siglingum Herjólfs.

Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn.

Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn.

Herjólfur sigldi til Landeyjahafnar heilan dag, eða hluta úr degi, alls 310 daga eða um 85% á tímabilinu 1. apríl 2024 til 31. mars 2025. (Hluti úr degi er skilgreindur sem færri en fjórar ferðir til Landeyjahafnar). Af þessum 310 dögum voru 26 þar sem ferjan sigldi einnig til Þorlákshafnar og 12 dagar þar sem yfir helmingur ferða var felldur niður.

Til samanburðar sigldi Herjólfur til Landeyjahafnar heilan dag eða hluta úr degi 82.4% af tímanum á árunum 2019-2024. Á þeim árum eru 18 dagar þar sem allar ferðir voru felldar niður vegna veðurs, að meðaltali 3,6 dagar á vetri. Til samanburðar voru allar ferðir felldar niður í fjóra daga vegna veðurs yfir veturinn 2024 – 2025, þann 25. desember 2024, 5. og 6. febrúar 2025 og 2. mars 2025.

Töluverður munur getur verið á frátöfum Herjólfs milli ára. Veturinn 2023 til 2024 sigldi Herjólfur til dæmis aðeins um 80 prósent tímabilsins til Landeyjahafnar.


Siglingar Herjólfs skipti upp eftir höfnum

2024-2025 2019-2024
Fjöldi daga Hlutfall Fjöldi daga Hlutfall
Landeyjahöfn 272 74,5% 1206 70,5%
Landeyjahöfn (1/2 dagur) 12 3,3% 75 4,4%
Landeyja- og Þorláks- 26 7,1% 129 7,5%
Þorlákshöfn 40 11,0% 240 14,0%
Þorlákshöfn (1/2 dagur) 11 3,0% 41 2,4%
Engar ferðir (Veður) 4 1,1% 18 1,1%
Engar ferðir (Verkfall)     2 0,1%

Til að greina ástæður frátafa skoðaði hafnadeildin gögn um kenniöldu og ölduhæð frá ölduduflum. Einnig var skoðaður vindhraði og dýpi í hafnarmynni.

Ef skoðaðar eru mælingar frá dögunum sem allar ferðir Herjólfs voru felldar niður (tafla 2) má sjá að meðalölduhæð þá daga var yfir 4,5 m með hæstu öldu yfir 5 metrum. Meðal vindhraði var 14 m/s eða meiri. Í töflunni má sjá dýptarmælingar dagana fyrir eða eftir viðburðinn en ekki eru til dýptarmælingar frá þeim dögum sem ekki var siglt í höfnina.


Aðstæður þá daga sem ekki var siglt

Dags 25.12.2024 5.2.2025 6.2.2025 2.3.2025
Hæsta kennialda [m] 5,2 7,2 12,0 5,1
Meðaltal kenniöldu [m] 4,5 4,8 6,7 4,5
Mesti vindhraði [m/s] 21 26 24 19
 Meðaltal vindmæling[m/s] 16,4 17,1 16,2 13,9
Dýpi [m] 4,0 5,7 5,7 3,0

 

Á tímabilinu sem hér er fjallað um sigldi Herjólfur alls 77 daga til Þorlákshafnar heilan dag eða hluta úr degi. Þar af voru 11 dagar þar sem ferjan sigldi aðeins eina ferð til Þorlákshafnar (hálfur dagur). Á þeim dögum var aldan á bilinu 3,6 til 6,3 m og vindhraðinn á bilinu 15 til 22 m/s.

Í töflu 3 eru teknar saman ástæður frátafa. Gerður er munur á ástæðu og mögulegri ástæðu. Alda getur talist til „mögulegrar ástæðu“ frátafar á þeim dögum þar sem meðalölduhæð er á bilinu 2,5 -3 m, en þegar meðalaldan er hærri en 3 m er hún talin til „ástæðu“ frátafar. Að sama skapi er meðalvindhaði á bilinu 13-16 m/s talinn möguleg ástæða frátafar en yfir 16 m/s er vindhraðinn talinn til ástæðu frátafar. Dýpi á bilinu 4 – 5 m er talið möguleg ástæða frátafar, allt grynnra en 4 m er talið til ástæðu frátafar.


Fjöldi daga þar sem ákveðnir þættir teljast til ástæðu frátafar

  Alda Vindur Alda & Vindur Alda &/eða vindur Dýpi Veður og Dýpi
Fjöldi daga 38 0 0 38 26 15
Hlutfall af frátöfum 49,4% 0% 0% 49,4% 33,8% 19,5%

 

Á töflu 3 má sjá að af þeim 77 frátafardögum á tímabilinu voru 38 dagar þar sem meðalaldan var hærri en 3 m. Þá voru 26 dagar þar sem dýpi þótti ábótavant, en af þeim voru 15 þar sem veðurskilyrðin töldust einnig til ástæðu frátafar. Þá eru eftir 11 dagar þar sem einöngu dýpi telst til ástæðu frátafar, en af þeim eru 5 dagar þar sem veðurskilyrði teljast einnig til mögulegrar ástæðu frátafar og má því álykta að samspil veðurs og dýpis hafi haft áhrif á val á áfangastað þá dagana.

Ofangreindar niðurstöður útskýra frátafir Herjólfs í 49 af 77 tilvikum þar sem skipið sigldi til Þorlákshafnar á síðastliðnu tímabili. Þegar bætt er við dögum þar sem alda, vindur og dýpi geta talist til mögulegra ástæðna frátafar fást útskýringar á 74 tilvikum eins og sjá má í töflu 4.


Fjöldi daga þar sem ákveðnir þættir teljast sem ástæða og/eða möguleg ástæða frátafar

  Alda Vindur Alda & Vindur Alda &/eða vindur Dýpi Veður og Dýpi
Fjöldi daga 65 32 30 67 62 55
Hlutfall af frátöfum 84.4% 41.6% 39.0% 87.0% 80.5% 71.4%

 

Þrír dagar falla ekki undir þá flokka sem fjallað hefur verið um hér að ofan. Alla þá daga var siglt til Landeyjahafnar hluta úr degi. Tvo af þessum þremur dögum var hæsta alda  tæpir 3 m og þriðja daginn var slæmt veður deginum áður.

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.