17. mars 2025
Morg­unfundur um vega­gerð í skugga elds­umbrota

Morgunfundur um vegagerð í skugga eldsumbrota

Vegagerðin stendur fyrir áhugaverðum morgunfundi, fimmtudaginn 20. mars kl. 9:00-10:30, þar sem vegagerð í skugga eldsumbrota verður til umfjöllunar. Farið verður yfir hvernig nýr vegur er lagður yfir nýrunnið hraun og hvernig er að reka vegi á eldgosasvæði. Fjallað verður um aðkomu Vegagerðarinnar að framkvæmdum við varnargarða og sagt frá kortlagningu á sprungum og holrýmum undir Grindavík. Morgunfundurinn verður haldinn í húsnæði Vegagerðarinnar í Garðabæ, Suðurhrauni 3, og er öllum opinn. Heitt verður á könnunni. Fundurinn verður einnig í beinu streymi.

Grindavíkurvegur undir hrauni.

Grindavíkurvegur undir hrauni.

Jarðskjálftar og eldgos hafa á síðustu misserum haft mikil áhrif á starfsemi Vegagerðarinnar og kallað á fjölbreytt og krefjandi viðbrögð. Frá því að jarðhræringar hófust í Grindavík í nóvember 2023 hefur Vegagerðin staðið í stórræðum á svæðinu og tekið þátt í að tryggja aðgengi, öryggi og samgöngur í nánu samstarfi við aðrar stofnanir og viðbragðsaðila.

Helstu verkefni hafa falist í lagningu nýrra vega yfir hraun, viðgerðum og endurbótum á núverandi vegum, aukinni vetrarþjónustu til að tryggja samgöngur þrátt fyrir erfiðar aðstæður, auk ítarlegrar kortlagningar á sprungum og holrýmum sem myndast hafa undir bænum. Þá hefur Vegagerðin einnig komið að uppbyggingu varnargarða til að vernda byggðina og mikilvæga innviði gegn áframhaldandi náttúruvá.

Þessi fjölbreyttu verkefni endurspegla mikilvægi Vegagerðarinnar í viðbrögðum við náttúruvá og verða þau tekin sérstaklega til umfjöllunar á morgunfundinum.

Dagskráin:

Opnun fundar: Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Vegagerð og varnargarðar – Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri á mannvirkjasviði hjá Vegagerðinni.
Hvernig er nýr vegur lagður yfir nýrunnið hraun? Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
Rekstur á vegum á eldgosasvæði – Valgarður Guðmundsson, sérfræðingur á þjónustudeild hjá Vegagerðinni.
Kortlagning sprungna í Grindavík – Friðrik Halldórsson, rannsóknarmaður á stoðdeild hjá Vegagerðinni.
Framtíðarsýn – Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.

Í lokin verða spurningar og umræður.

Hér fyrir neðan er hlekkur á streymið:

 

Hraun rann yfir Grindavíkurveg.

Hraun rann yfir Grindavíkurveg.

Frá Grindavíkurvegi.

Frá Grindavíkurvegi.

Nesvegur vestan Grindavíkur - vegurinn fór í sundur.

Nesvegur vestan Grindavíkur - vegurinn fór í sundur.

Grindavík 11.11.2023

Grindavík 11.11.2023