Morgunfundur um umferðarmál á höfuðborgarsvæðinu
Þú ert umferðin – þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu er yfirskrift morgunfundar Vegagerðarinnar, sem haldinn verður fimmtudaginn 14. nóvember frá klukkan 9:00 til 10:30 í Suðurhrauni 3 og í beinu streymi fyrir þá sem kjósa að fylgjast með fjarri staðnum. Fundurinn býður þátttakendum upp á ítarlega yfirsýn yfir þróun byggðar og samgangna á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár, auk þess sem rýnt verður í hvernig breytingar á fólksfjölda og byggðarmynstri hafa haft áhrif á umferðarmynstur og ferðavenjur í borginni.
Á fundinum verður fjallað um helstu uppbyggingarsvæði og þau svæði þar sem fjölgun íbúa hefur verið mest. Sérstök áhersla verður lögð á hvernig þessar breytingar endurspeglast í umferð bíla, auk þess sem bornir verða saman ferðatímar á höfuðborgarsvæðinu við sambærilegar borgir í öðrum löndum til að fá sjónarhorn á þróun og áskoranir í samgöngum.
Auk þess verður farið yfir niðurstöður rannsóknar á ferðavenjum í blandaðri byggð, sem gefur innsýn í hvernig fólk blandar saman akstri, almenningssamgöngum, hjólreiðum og göngu í daglegum ferðum sínum. Sérstök umfjöllun verður um innstig í strætó á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin ár, þróun notkunar og hvernig þessi þróun tengist markmiðum um bættar samgöngur, minni útblástur og betri nýtingu almenningssamgangna.
Að lokum verður fjallað um leiðina í átt að Nýju leiðaneti, þar sem kynntar verða nýjar hugmyndir og framkvæmdir sem munu auka skilvirkni, öryggi og þjónustu í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn gefur þátttakendum tækifæri til að kynna sér heildstæða sýn á þróun samgangna, bera saman staðreyndir og áætlanir og fá innsýn í hvernig Vegagerðin vinnur að því að móta framtíð samgangna í höfuðborgarsvæðinu.
Cecilía Þórðardóttir, samgönguverkfræðingur og verkefnastjóri hjá Vegagerðinni
Fjallað verður um þróun byggðar og samgangna síðustu ár og farið yfir hvar helsta uppbygging og fólksfjölgun hefur verið á höfuðborgarsvæðinu. Skoðað verður hvernig það hefur haft áhrif á umferð bíla á þessu tímabili. Niðurstöður Ferðavenjukönnunar 2022 verður stuttlega til skoðunar og hún tengd við ferðamyndun í dag.
Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur Ph.D. hjá EFLU
Farið verður yfir samanburð milli landa, hverjar meðaltafir eru í sambærilegum borgum og höfuðborgarsvæðið. Greiningarnar eru unnar út frá fljótandi ökutækjagögnum (TomTom) og sýna meðalferðatíma og meðalhraða á og utan háannatíma í nokkrum borgum á Norðurlöndunum.
Cecilía Þórðardóttir, samgönguverkfræðingur og verkefnastjóri hjá Vegagerðinni
Ferðatími á annatímum árdegis og síðdegis á höfuðborgarsvæðinu verður til umfjöllunar. Skoðaðar verða nokkrar leiðir milli íbúasvæða og helstu atvinnu- og menntasvæða.
Albert Skarphéðinsson, verkfræðingur hjá EFLU
Farið yfir niðurstöður rannsóknar á áhrifum blandaðrar byggðar á ferðamyndun.
Valgerður Gréta Benediktsdóttir, MSc í skipulagsfræði og samgöngusérfræðingur hjá Strætó
Fjallað verður um annars vegar þróun í fjölda farþega (fjöldi innstiga) almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár og hins vegar aukna þjónustu á næstu árum með auknu fjármagni samanber uppfærðan Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Fundarstjóri: Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri Höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar.
Öll eru velkomin á meðan húsrúm leyfir.
Vesturlandsvegur í gegnum Mosfellsbæ: Sá kafli sem er milli Skarhólabrautar og Hafravatnsvegar.
Miklabraut eins og hún lítur út í dag.