Mörgum lykilverkefnum lokið
Framkvæmdir við nýjan Arnarnesveg, milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar, ganga vel og fjölmörgum lykilverkefnum er nú lokið. Ný göngu- og hjólabrú yfir Dimmu er tilbúin og opin fyrir umferð. Einnig hafa nokkrir kaflar á Breiðholtsbraut verið malbikaðir, sem og göngu– og hjólastígar í Elliðaárdal. Þá hefur ný brú yfir Breiðholtsbraut verið steypt, sem er stærsta einstaka mannvirkið í verkinu. Áætluð verklok Arnarnesvegar og tengdra framkvæmda eru í nóvember 2026.

Hér sést móta fyrir nýjum Arnarnesvegi.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að frágangi nýrrar akbrautar við Breiðholtsbraut og nú er búið að malbika vegkaflann frá Jaðarseli að Elliðaám. Einnig er búið að malbika neðri malbikslög á Arnarnesvegi í Elliðaárdal.
Þá er malbikun á göngu- og hjólastígum í Elliðaárdal norðan Breiðholtsbrautar lokið og þeir komnir í notkun. Nýja göngu- og hjólabrúin yfir Dimmu, sem er hluti Elliðaáa, er fullfrágengin og búið að opna fyrir umferð. Brúin er kærkomin samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og tengir vel saman stígakerfi í Elliðaárdal.

Ný akbraut við Breiðholtsbraut er tilbúin.

Timburbrú yfir Dimmu er opin fyrir umferð gangandi og hjólandi.
Ný vegbrú yfir Breiðholtsbraut var steypt 8. nóvember síðastliðinn. Alls fóru 1.650 rúmmetrar af steypu í mannvirkið, eða sem samsvarar 205 steypubílum. Steypuvinnan gekk mjög vel en þetta er eitt umfangsmesta steypuverkefnið á árinu. Nú stendur yfir frágangur kantbita ofan á brúnni og byrjað er að fjarlægja undirslátt brúardekksins á norður-akbraut. Bílaumferð fer nú um suður-akbraut undir undirslátt brúarinnar. Samtímis er unnið við frágang hljóðmana við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut.
Uppsteypu stöpla fyrir nýja göngubrú yfir Arnarnesveg, til móts við Turnahvarf, er lokið og unnið er við undirslátt brúardekksins.

Uppsteypu stöpla fyrir nýja göngubrú yfir Arnarnesveg, til móts við Turnahvarf, er lokið og unnið er við undirslátt brúardekksins.

Ný vegbrú yfir Breiðholtsbraut var steypt 8. nóvember síðastliðinn.
Búið er að færa og tengja stofnlagnir kaldavatns þar sem ný undirgöng verða staðsett undir Arnarnesvegi við Rjúpnaveg. Unnið er áfram að færslu heitavatnslagnar. Forsteyptar einingar sem verða notaðar við byggingu undirganganna eru tilbúnar. Áætlað er að einingunum verði komið fyrir á sínum stað í janúar á næsta ári.
Undirgöng undir Breiðholtsbraut til móts við Völvuföll eru einnig langt komin, sem og stígar sem liggja að þeim. Það á eftir að tengja dælubrunn við göngin við rafmagn. Þangað til því líkur er nokkur flóðahætta í göngunum. Þegar því er lokið verður hægt að taka göngin í notkun.
Á Arnarnesvegi milli Breiðholtsbrautar og Rjúpnavegs er unnið við fyllingar og frágang ofanvatnslagna.
Laus jarðefni sem til falla vegna framkvæmdanna hafa verið flutt í Vetrargarð Reykjavíkurborgar. Vetrargarðurinn er í uppbyggingu þar sem skíðabrekkan er við Jafnasel. Einnig hefur verið sáð í stærstan hluta svæðisins.
Arnarnesvegur, 3. áfangi, er hluti af stofnvegaverkefnum sem heyra undir Samgöngusáttmálann.
Ljósmyndir / Vilhelm Gunnarsson

Laus jarðefni eru flutt í Vetrargarð Reykjavíkurborgar.

Á Arnarnesvegi milli Breiðholtsbrautar og Rjúpnavegs er unnið við fyllingar og frágang ofanvatnslagna.

Arnarnesvegur desember 2025

Undanfarið hefur viðrað vel til framkvæmda.