14. febrúar 2023
Mikið tjón í vatna­vöxt­um síðustu daga

Reikna má með að tugmilljóna tjón hafi orðið á vegum undanfarinn sólarhring vegna vatnavaxta. Verst er staðan á Vestursvæði Vegagerðarinnar þar sem ár hafa flætt yfir bakka sína, lækir orðið að fljótum og ræsi ekki haft undan vatnsflaumnum. Loka þurfti nokkrum vegum og enn eru nokkrir þeirra lokaðir á borð við Skeiða- og Hrunamannaveg (30) við Stóru Laxá.

Umfangsmiklar skemmdir hafa orðið á vegakerfinu en næstu dagar munu leiða í ljós hversu mikið tjónið er. Allt tiltækt lið sem Vegagerðin hafði til ráðstöfunar var við vinnu í gær að bjarga verðmætum. Ástandið var verst á svæði þjónustustöðvar Vegagerðarinnar í Búðardal en þar hafa menn ekki séð annað eins.

Næstu dagar fara í að gera við vegi eins og hægt er og meta umfang skemmda og til hvaða aðgerða verði brugðið í framhaldinu. Líklegt er að viðgerðir taki nokkurn tíma, bæði bráðabirgðaviðgerðir og til lengri tíma, en ljóst er að tjónið nemur tugmilljónum króna.

Algeng tjón á vegum eru skemmdir á klæðingu, úrrennsli og brotholur.

Meðal stærri tjóna má nefna Snæfellsnesveg (54) við Dunká þar sem verið er að að byggja 52 m langa brú. Þar fór af stað fylling úr landkörum og mögulega hefur runnið undan undirslætti brúarinnar sem til stóð að steypa í ár.

Á Vestfjarðavegi (69) flæddi vatn yfir á mörgum stöðum frá Bröttubrekku í Gufufjörð.

Brú yfir Svartá við bæinn Barkarstaði í Austur Húnavatnssýslu skemmdist í krapaflóði. Brúin er ónýt og verður rifin.

Skeiða- og Hrunamannavegur (30) er lokaður þar sem töluverðar skemmdir urðu á undirslætti brúar sem er verið að byggja yfir Stóru-Laxá. Vatn gróf undan undirstöðum verkpalla og búnaður fór í ána. Brúin sjálf er óskemmd en meðan unnið er að viðgerðum verður vegurinn lokaður. Staðan verður endurmetin á fimmtudag. Meðan á lokuninni stendur er ökumönnum bent á hjáleiðir um Skálholtsveg (31), Biskupstungnabraut (35) og Bræðratunguveg (359).

Vatnshæð fer nú víðast hvar lækkandi eftir leysingar gærdagsins en fólk er áfram beðið um að sýna aðgát við ár og læki. Víða eru vegir enn lokaðir en yfirlit yfir þá má finna á www.umferdin.is.