5. júlí 2023
Metumferð á höfuð­borgar­svæð­inu í júní

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júní reyndist 5,2 prósentum meiri en fyrir ári síðan. Ekki hefur áður mælst jafn mikil umferð á svæðinu í einum mánuði. Reikna má með að umferðin í ár aukist um 4-5 prósent og yrði það nýtt met í umferðinni verði það niðurstaðan.

Milli mánaða
Líkt og á Hringvegi var einnig slegið met í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu, ef marka má þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar, en hæstu gildi, sem nokkru sinni hafa verið mæld í einum mánuði mældust í nýliðnum júní. Hlutfallsleg aukning nam 5,2%.

Alls fóru að jafnaði rúmlega 187 þús. ökutæki á sólarhring, um mælisniðin þrjú.  Gamla metið var rúmlega 183 þús. ökutæki á sólarhring en það var frá því í maí 2022. Nýja metið er því um 2% stærra en fyrra met.  Sögulega eru maí og  september umferðarmestu mánuðir á höfuðborgarsvæðinu svo það er möguleiki á að þetta nýja met verði slegið núna í haust.

Umferðin jókst yfir öll mælisnið og mest um snið á Reykjanesbraut eða um 6,5% en minnst um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um 2,7%.

Umferð frá áramótum
Nú hefur uppsöfnuð umferð, frá áramótum á höfuðborgarsvæðinu, aukist um 5,2% miðað við sama tímabil á síðasta ári.

Umferð vikudaga
Mest var ekið á föstudögum, í nýliðnum mánuði, og minnst á sunnudögum.

Umferð jókst í öllum vikudögum, mest á föstudögum, borið saman við sama mánuð á síðasta ári, og minnst á laugardögum.  Meðalaukning virka daga var 6,2% og 3,9% um helgar.

Horfur út árið 2023
Nú stefnir í að umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um 4 – 5% og að nýtt umferðarmet verði sett.