Malarslitlag er eins og jólakaka
Hafdís Eygló Jónsdóttir jarðfræðingur er einn helsti sérfræðingur landsins í malarslitlögum. Hún lauk nýverið farsælum starfsferli hjá Vegagerðinni og hlakkar til að takast á við ný ævintýri.

Vinnan var ekki alltaf þrifaleg. Hér er Hafdís að kanna aðstæður við nýja veglínu á Hringvegi við Jökulsá á Fjöllum í apríl 2006. Þarna er hún á eyri út í miðri Jökulsá til að meta hversu langt væri niður á fast í fyrirhuguðu brúarstæði. Út í miðri á var borað niður á 29,3 m án þess að lenda í klöpp.
Hafdís stendur aðeins á sextugu en ákvað að fara á snemmbúin eftirlaun til að njóta lífsins með eiginmanni sínum Sigurbirni Arngrímssyni, fyrrverandi flugstjóra. Því er kjörið tilefni að rifja upp ævi og störf þessarar kraftmiklu konu. Og hvar er betra að byrja en hreinlega á byrjuninni.
„Ég er fædd og uppalin í Austurbænum í Kópavogi en reyndar er allt mitt fólk, bæði í móður- og föðurætt, af Snæfellsnesinu,“ segir Hafdís, sem sleit barnsskónum á Nýbýlaveginum og síðar í hinum svokallaða Kínamúr í Kjarrhólma. „Ég var yngst minna systkina. Við vorum fimm alsystkini, tvö hálfsystkini en vorum sex sem ólumst upp saman. Það eru fjórtán ár á milli elsta og yngsta og þegar kom að mér nennti enginn að passa upp á mig. Ég fékk því að gera meira og minna það sem ég vildi,“ segir Hafdís glettin. Foreldrar hennar höfðu því engar athugasemdir við það þegar hún 19 ára gömul ákvað að flytja til Akureyrar að elta ástina.
„Við Sigurbjörn kynntumst þegar ég fór í helgarferð til Akureyrar að heimsækja vinkonu mína. Ég flutti norður í desember sama ár. Hann sótti mig suður og við keyrðum saman norður. Ég man eftir því að hafa setið fram í, haldandi á plöntunni Gyðingnum gangandi með allt dótið í skottinu. Þá fékk ég nú smá bakþanka, en hef ekki litið til baka síðan,“ segir hún og hlær. „Meiningin var að ég yrði um jólin hjá systur minni í Útkinn en þangað var ófært svo fyrstu jólin var ég hjá foreldrum hans. Sigurbjörn hafði nú ekki haft fyrir því að segja þeim frá mér svo þau vissu ekkert hver var komin þarna inn á gafl hjá þeim.“
Þegar Hafdís var komin norður fór hún að vinna í Kristjánsbakaríi og á sama tíma innritaðist hún í nám í öldungadeild menntaskólans á Akureyri. Áhuginn á jarðfræði kviknaði í jarðfræðiáfanga í MA. „Svo tók ég líka svæðaleiðsögn, námskeið sem kennt var um helgar í sex mánuði, og þar kynntist ég líka jarðfræði,“ segir Hafdís, sem ætlaði sér ekki að fara í lengra nám eftir menntaskóla. „En ég ákvað svo samt að skrá mig í landafræði með jarðfræði sem val í Háskóla Íslands. Eftir ár skipti ég yfir í jarðfræði sem aðalfag.“
BS verkefnið vann hún í samstarfi við samnemanda sinn, Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur. „Verkefnið tengdist ísaldarjarðfræði í Laxárdalnum fyrir vestan. Ég skoðaði steingervinga og hún skoðaði setið. Þetta var viðamikið og erfitt verkefni og ég var harðákveðin í að fara ekki í meira nám eftir það.“
Strax eftir útskrift í febrúar 1995 fékk Hafdís vinnu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri. Fljótlega vaknaði aftur þráin um að fara í meira nám en námsþörfin hefur í raun einkennt allt líf Hafdísar og gerir enn. „Ég setti stefnuna á steingervingafræði í Kaupmannahöfn, en þá vann með mér jarðfræðingurinn Halldór G. Pétursson sem hvatti mig til að læra heldur ísaldarjarðfræði í Noregi,“ segir Hafdís. Hún tók þessum ráðleggingum og var komin í mastersnám við Háskólann í Bergen strax næstu áramót 1996.
Út á hvað gengur ísaldarjarðfræði? „Hún fjallar um jarðfræðileg ferli og ummerki sem tengjast síðustu ísöldum, sérstaklega áhrifum jökla á landslag (myndun og mótum landforma), setmyndun og loftslagssögu.“

Handbækur sem Hafdís skrifaði í samstarfi við fleiri.

Aðstæður skoðaðar í Hófaskarði fyrir nýjan Norðausturveg veturinn 2004. Á myndinni eru Hafdís og Gunnar H. Jóhannesson verkfræðingur sem hannaði veginn. Þar sem ferðin var farin um vetur þurfti öflugt farartæki til að koma fólkinu á staðinn. Hummerinn var frá Björgunarsveitinni Hafliða á Þórshöfn
Hafdís fór að vinna fyrir Náttúrufræðistofnun á Akureyri að nýju. „Halldór samstarfsfélagi hafði oft unnið fyrir Vegagerðina en nú fengum við verkefni sem mér var úthlutað. Það snerist um að kortleggja námur fyrir Vegagerðina og ég fékk til yfirferðar námur á Norðurlandi eystra,“ segir Hafdís, sem þarna kynntist Vegagerðinni vel enda fékk hún vinnuaðstöðu hjá svæðismiðstöð Vegagerðarinnar á Akureyri. „Þegar stofnunin auglýsti eftir jarðfræðingi árið 2001 stökk ég á það.“
Í starfi sínu sem jarðfræðingur hjá Vegagerðinni sinnti Hafdís fjölbreyttum störfum sem kölluðu á heilmikil ferðalög um landið. „Oft lagði ég af stað á mánudagsmorgni og kom heim á föstudagssíðdegi með bílinn fullan af sýnum.“
En út á hvað gekk starfið? „Áður en farið er í framkvæmdir þarf að kanna hvernig jarðefni er á framkvæmdasvæðinu og hvort það megi nota í framkvæmdirnar. Í starfi mínu fékk ég ákveðna staði til að kanna og mætti þá með manni á traktorsgröfu eða beltavél til að grafa niður á ákveðnum stöðum, taka sýni, lýsa því sem fyrir augu bar og taka niður gps-punkta. Helsta verkefnið var að leita eftir efni í framkvæmdina, burðarlagsefni, styrktarlagsefni og klæðingaefni. Mikilvægast var að finna gott efni í burðar- og klæðingalag því það þarf að uppfylla strangari kröfur,“ útskýrir Hafdís en oft þurfti að fara yfir ófærur til að komast á staðina og eina leiðin var að aka með hjálp gps eftir ímyndaðri veglínu.
Hafdís hefur sérhæft sig í vinnslu steinefna. Þetta byrjaði allt með rannsóknaverkefni sem var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar árið 2010. Lokaskýrsla kom út í febrúar 2013: Vinnsla steinefna til vegagerðar – tækjabúnaður, verktækni og framleiðslueftirlit.
„Við gerð skýrslunnar fylgdi ég eftir fjölmörgum efnisvinnsluverktökum sem voru að mala steinefni fyrir Vegagerðina um allt land og lagði fyrir þá spurningalista,“ lýsir hún en margt áhugavert kom fram við þessa vinnu sem nýttist vel í starfi Vegagerðarinnar og fyrir aðra.
Efnisvinnsla er sérlega sjarmerandi að mati Hafdísar en hún hefur sótt sér reynslu víða, til dæmis í Finnlandi. „Ég var svo heppin að fá að vera í tvær vikur í Finnlandi hjá fyrirtæki sem heitir Metso og framleiðir brjóta og hörpur. Þar sat ég meðal annars námskeið sem var ætlað þeim sem selja slík tæki. Þetta var eins og að sleppa krakka inn í dótaverslun, þetta var svo gaman,“ segir Hafdís brosandi.
Hafdís nýtti þekkinguna úr rannsóknarverkefni sínu og reynslu sína frá Finnlandi meðal annars til að vinna handbók um efnisvinnslu sem gefin var út árið 2018. „Handbók um vinnslu steinefna til vegagerðar“ er heiti handbókarinnar sem hefur komið sér afar vel fyrir alla þá sem vinna við efnisvinnslu af einhverju tagi. „Ég vann þessa handbók ekki ein heldur fékk góða aðstoð mjög víða, til dæmis frá mörgum aðilum í efnisvinnslugeiranum.“

Hluti þátttakenda á veghefilstjóranámskeiði 2024, í Mjóafirði á Vestfjörðum. Hafdís fyrir miðju.

Veghefilstjóranámskeið í Hálsasveit á Vesturlandi 2025. Hér hafði Hafdís komið sér fyrir með hin ýmsu malaslitlagsefni sem voru víðs vegar af landinu. Þátttakendur á námskeiðinu fengu það hlutverk að velja malarslitlagsefni sem þeim þótti vera best. Þetta var gert með því að koma við efnið, smakka á fínefnunum og drullumalla aðeins með því að blanda vatni við efnið.
Fyrir nokkrum árum færði Hafdís sig af jarðfræðideildinni yfir á framkvæmdadeild og síðar stoðdeild. „Þar sinnti ég ráðgjöf varðandi efnisvinnslu fyrir Vegagerðina.“
Reglulega eru haldin veghefilstjóranámskeið hjá Vegagerðinni bæði fyrir verkstjóra og veghefilstjóra hjá Vegagerðinni. Það hefur verið fastur liður hjá Hafdísi síðustu ár að kenna á námskeiðinu. „Ég segi þeim allt um malarslitlög, hvernig þau eru og úr hverju þau eru búin til. Fyrri daginn er ég með klukkutíma erindi á bóklegu námskeiði en daginn eftir er farið út og settar upp nokkrar stöðvar. Ég er með eina af þessum stöðvum, kem mér einhvers staðar fyrir með nokkrar fötur með mismunandi malarslitlögum sem koma víðsvegar af landinu. Þegar nemendur mæta til mín er verkefnið að þeir finni besta malarslitlagið. Þá er tekin lúka af efninu og sett í aðra fötu, bætt við réttu magni af vatni. Svo fá þeir að þreifa á efninu, meta gæði þess og ekki síst að smakka á því,“ segir Hafdís en margir verða hálf hvumsa að eiga að smakka á efninu. Hafdís útskýrir að fínefni séu samsett úr silt- og leirstærðum en mikilvægt er að það sé leir í efninu. „Og ef þú rekur tunguna í fínefni malarslitlagsins, og smakkar, getur þú metið hvort það sé leir í efninu. Leir, sem kornastærð, er hrikalega smár og þegar þú setur tunguna í efnið og það inniheldur leir, þá bráðnar efnið upp í þér. Ef það er meira af silti þá klingir á milli tannanna,“ segir Hafdís og viðurkennir að þessar smakkprufur veki ávallt nokkra lukku. Þær eru greinilega einnig minnisstæðar því í minningarbók samstarfsfólks sem búin var til í tilefni af starfslokum Hafdísar mátti lesa eftirfarandi athugasemdir. „Fyrsta konan til að gefa mér sand og möl til að borða,“ og „Mun alltaf minnast þín sem manneskju sem lét mig smakka drullu á fullorðinsárum.“
Ekki aðeins íslenskir veghefilstjórar njóta góðs af leiðsögn Hafdísar heldur hefur hún síðustu þrjú ár kennt á malarveganámskeiði í Kanada hjá Ground Force Training – Gravel Road School.
Hvernig kom það til?
„Það er nú skemmtileg saga. Ég sá auglýst námskeið í vegheflun á netinu og hugsaði með mér að þetta væri sniðugt, því þótt ég ætlaði mér ekki að stýra slíkri græju var gott að þekkja til hennar. Ég skráði mig á námskeið sem var í fjarfundaformi með frábærum kennara frá Kanada. Í framhaldi af námskeiðinu bað kennarinn mig um að koma með innlegg á námskeið um malarvegi ætlað til dæmis einstaklingum hjá sveitarfélögum og öðrum sem kaupa þjónustu verktaka.“
Er eitthvað af malarvegum í Kanada? „Já, þeir eru með alveg fullt af malarvegum og eru að fást við alls konar vandamál. Þú getur rétt ímyndað þér, enda liggja sumir um túndruna sem er erfitt að eiga við,“ segir Hafdís, sem þurfti aðeins að hugsa út fyrir kassann þegar hún setti upp fyrirlestur sinn fyrir Kanadamennina. „Það eru gerðar allt aðrar kröfur í Kanada en í grunninn er uppbygging malarveganna og vandamálin þó þau sömu.“

Rannsóknargryfjur grafnar á Hólmahálsi milli Reyðfjarðar og Eskifjarðar árið 2006. Þar sem gryfjan var mjög djúp þótti ráðlegast að mæla dýpt hennar með því að fara í skófluna á beltavélinni. Á myndinni eru Hafdís í skóflunni og Halldór Óskarsson vélamaður hjá Árna Helgasyni ehf. Þessi aðferð við mælinguna yrði ekki samþykkt af öryggisstjóra Vegagerðarinnar í dag.
Hafdís lýsir samsetningu á malarslitlagi eins og uppskrift að jólaköku. „Í staðinn fyrir hveiti, egg og rúsínur ertu með fínefni, sand og möl í ákveðnum hlutföllum sem þurfa að vera rétt. Ef eitt hráefnið vantar, ef þú sleppir til dæmis rúsínum í jólakökuuppskriftinni, þá ertu ekki lengur með jólaköku. Eins getur þú notað of mikið af einu hráefni eða of lítið af öðru. Sama með malarslitlög, ef þú sleppir einu efninu eða breytir hlutföllunum þá færðu ekki það efni sem ætlunin er að búa til.“
Þótt æ fleiri vegir séu lagðir bundnu slitlagi eru malarvegir enn 56% af heildarlengd þjóðvega, flestir á hálendinu og umferðarlitlir. Hafdís telur þó of lítið gert til að viðhalda þeim. „Þessi málaflokkur er í raun sveltur og það getur verið grátlegt að sjá góðan malarveg skemmast vegna of lítils viðhalds. Ef viðhaldinu er ekki sinnt, ef til dæmis er farið of sjaldan að hefla og rykbinda þá rýkur fínefnið úr veginum og hlutföllin í „jólakökunni“ brenglast. Þar með er malarslitlagið sem á að verja malarveginn, ekki lengur eins og það á að vera,“ segir Hafdís og bætir við að allt sé þetta spurning um peninga.
Stundum er því haldið fram að allt efni á Íslandi sé óhæft til notkunar í vegagerð? „Það er mýta, og bara algert bull,“ segir Hafdís ákveðin. „Við eigum fullt af mjög góðum námum og sumar eru með sama styrk og norska efnið sem við flytjum inn. Vandinn er að þær eru ekki alltaf á réttum stað miðað við þörf. Það er kostnaðarsamt að flytja efni langar leiðir.“ Hún nefnir sem dæmi um góðar námur Neðri-Mýrar í Refasveit og Brunahvammsháls ofan við Vopnafjörð. „En þær eru náttúrulega mun fleiri.“
Nú er komið að tímamótum og Hafdís að ljúka ferli sínum hjá Vegagerðinni. Er eitthvað minnisstætt? „Oft man maður nú best þegar eitthvað kemur uppá, og það er nú ýmislegt,“ segir hún hlæjandi og fæst til að rifja upp nokkrar krefjandi uppákomur.
„Eitt af fyrstu stóru verkefnum mínum hjá Vegagerðinni var að grafa í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi. Þar eru miklar mýrar og gröfumaðurinn missir beltavélina ofan í mýri og sama hvað hann reynir þá grefst hann alltaf lengra niður, þar til drullan er komin upp að húsi. Ég var splunkuný hjá Vegagerðinni en hringdi út um allt og loks kom maður sem er kallaður Gussi, sem er nú þekktur í verktakabransanum. Fyrst var reynt að moka frá með traktorsgröfu og þá varð bara til fjall af drullu en loks var ráðið að setja jarðýtu upp á klapparholti, tengja togvíra í beltin á gröfunni og draga hana þannig upp. Þetta tók stóran hluta næturinnar. En þessu var ekki lokið. Þegar aumingja gröfumaðurinn var að aka daginn eftir með bómuna uppi ók hann beint á loftlínu og sló öllu út í stórum radíus. Þetta var alveg hræðileg upplifun, en eftirminnileg.“
Hafdís minnist þess einnig að hafa verið við rannsóknir vegna Dettifossvegar. „Á síðustu holunni lagði ég frá mér gps-tækið meðan ég var að mæla. Svo var mokað yfir og tækið hvarf undir hlass og fannst ekki þrátt fyrir mikla leit.“
Svo var það eitt sinn við Laxá í Aðaldal. „Hönnuðurinn hafði sagt mér að það væru engar lagnir á svæðinu. Í góðri trú förum við að grafa en allt í einu stoppar gröfumaðurinn og finnst eins og hann hafi grafið í eitthvað. Þegar ég kíki ofan í holuna sé ég breiðan streng, þegar ég sný mér við springur hann. Þá reyndist þetta háspennustrengur og við slógum allt út á mörgum stöðum, meira að segja hjá hitaveitunni. Þetta var í nóvember og það tók langan tíma að koma rafmagninu á. Þetta kenndi mér að treysta ekki í blindni heldur ganga alltaf sjálf úr skugga um hvort lagnir liggi um svæði sem ég hef grafið á.“
Stundum hefði verið gott að hafa tekið nokkra tíma í sálfræði enda fólk misánægt með Vegagerðina. „Á einum stað var ég lengi að sannfæra einn bóndann um að fá að grafa á landinu hans. Það tókst en þá lendum við í að grafa í sundur símalínuna til prestsins á næsta bæ. Bóndinn sá bíla frá Mílu koma á staðinn og mætti alveg fjúkandi vondur. Þá skildi ég þegar talað er um að fólk froðufelli af bræði. Gröfumaðurinn og Mílumaðurinn sátu ofan í holunni og sprungu úr hlátri enda þekktu þeir til mannsins, en mér fannst fúkyrðaflaumurinn alls ekki skemmtilegur.“
Hafdís hefur notið þess að vinna hjá Vegagerðinni, hún hefur lært margt og upplifað ýmislegt. En nú er komið að leiðarlokum en þó stendur Hafdís aðeins á sextugu.
„Ég hafði velt mikið fyrir mér hvort ég vildi hætta snemma. Sigurbjörn maðurinn minn er níu árum eldri en ég og hætti að vinna fyrir nokkru síðan. Ég hef reyndar lifað lúxuslífi síðan hann hætti, því hann vaknar alltaf undan mér á morgnana og hefur til fyrir mig morgunmatinn,“ segir Hafdís hlæjandi.
Hún tók sér ársleyfi fyrir nokkru til að máta sig við hugmyndina um að hætta að vinna og naut þess mjög. „Svo þegar ákvörðunin er tekin er maður bara mjög spenntur fyrir framhaldinu,“ segir Hafdís, sem er með ýmislegt á prjónunum. „Ég ætla fyrst og fremst að njóta, fara í sund, og svo aftur í sund, jafnvel fá mér hvítvín á virkum degi. Ég hef loksins tíma til að taka til heima hjá mér og svo hef ég alltaf verið í einhverju námi og ætli ég skelli mér ekki í að læra spænsku?“
En mun hún sakna þess að spá í grjót? „Nei, ég verð alltaf með hugann við grjót hvort sem er á ferðalagi eða annars staðar. Og eflaust dett ég inn í einhver verkefni í framtíðinni.“
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.

Á aðfangadag 2016. Hafdís með eiginmanni sínum Sigurbirni og einkasyninum Þorsteini Jónasi sem Hafdís fékk í kaupbæti með Sigurbirni.

Ferðalög innanlands hafa alltaf heillað Hafdísi og Sigurbjörn. Árið 2019 sigldu þau út í Drangey með Drangeyjarferðum með þeim feðgum Viggó og Helga.