Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í september reyndist 2,6 prósentum meiri en í sama mánuði fyrir ári. Umferðin hefur ekki áður mælst meiri í september. Maí og september eru iðulega umferðarmestu mánuðirnir. Nú stefnir í að umferðin verði svipuð og í fyrra en minni en metárið 2019.
Milli mánaða
Samkvæmt þremur lykilteljurum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst umferðin þar um 2,6% milli september mánaða 2021 og 2022. Mest jókst umferð yfir mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um 4,4% en minnst yfir mælisnið á Reykjanesbraut eða um 0,9%. Þessi aukning varð til þess að ekki hefur áður mælst meiri umferð í september á höfuðborgarsvæðinu. En fyrra umferðarmet var á síðasta ári þegar það fóru tæplega 178 þús. ökutæki um sniðin þrjú að jafnaði á dag en í nýliðnum september var ökutækjafjöldinn kominn í rúmlega 182 þús. ökutæki á dag.
September og maí eru gjarnan umferðarmestu mánuðir ársins á höfuðborgarsvæðinu og var maí á þessu ári sá umferðarmesti frá því að mælingar hófust en þá fóru rúmlega 183 þús. ökutæki á sólarhring yfir mælisniðin þrjú.
Umferð frá áramótum
Nú þegar níu mánuðir eru liðnir af árinu 2022 hefur umferðin aukist um tæp 2% miðað við sama tíma á síðasta ári.
Umferð eftir vikudögum
Í nýliðnum mánuði var umferðin mest á föstudögum en minnst á sunnudögum. Umferð jókst alla vikudaga miðað við sama mánuð á síðasta ári og hlutfallslega mest á mánudögum eða um 5,5%. Minnst jókst umferð á föstudögum eða um 0,8%.
Umferðin á bíllausa daginn, miðvikudaginn 21. september, reyndist 1,3% minni en meðalumferð virkra daga í september.
Horfur út árið
Hegði umferðin sér líkt og í venjulegu ári má gera ráð fyrir að hún verði svipuð og hún var á síðasta ári. Þetta merkir að umferðarmetið frá árinu 2019 muni standa enn um sinn.