17. september 2021
Kynn­ist land­inu í gegn­um vitana

Franska listakonan Mathilde Morant hefur málað vatnslitamyndir af nær öllum vitum landsins. Hún fékk lista yfir vitana hjá Vegagerðinni áður en hún dró fram pensilinn og hófst handa við verkefnið.

Mathilde er frá Bretaníu í Frakklandi en flutti til Íslands fyrir fjórum árum. Hún vinnur hjá leikmyndadeild Þjóðleikhússins en notar frítímann til ferðast um landið og mála myndir af vitum.

„Ég keypti landakort af Íslandi síðsumars 2018. Við strandlengjuna voru merktar inn rauðar stjörnur sem vöktu strax athygli mína. Þegar ég uppgötvaði að stjörnurnar voru tákn fyrir vita ákvað ég að skoða þá alla og teikna myndir af þeim, sem ég mála síðan með vatnslitum,“ segir Mathilde, um tilurð þessa verkefnis sem hún kallar Viti Project.

Hún hefur orð á því að tilgangurinn sé í raun tvíþættur; að kynnast landinu og æfa sig í teikningu. Fyrsti vitinn sem Mathilde málaði mynd af heitir Svörtuloftaviti en hann stendur við sjávarhamrana Svörtuloft, vestast á Snæfellsnesi. „Hver viti er einstakur. Þótt margir þeirra séu líkir hvað arkitektúr varðar er landslagið í kringum þá afar fjölbreytilegt. Það heillar mig að þeir eru úr alfaraleið, jafnvel á stöðum þar sem aðstæður geta verið hættulegar,“ segir hún.

Nær tengingu við náttúruna

Oft þarf Mathilde að ganga langar og torfærar leiðir til að komast að vitunum en hún telur það ekki eftir sér. „Mér finnst gaman að ganga úti í náttúrunni án þess að hitta nokkra sálu. Þannig næ ég mikilli tengingu við náttúruna. Ég hef farið sjóleiðina að nokkrum vitum, því landleiðin hefur ekki verið fær. Á ferðum mínum um landið hef ég kynnst áhugaverðu fólki og er alls staðar vel tekið. Það er líka skemmtilegt að fá að heyra fróðleik og sögur af vitunum,“ greinir hún frá.

Auk listans góða frá Vegagerðinni notar hún bókina Vitar á Íslandi – Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002 sér til fróðleiks, sem og GPS-hnit til að komast örugglega á rétta staði.

Mathilde kann mjög vel við sig á Íslandi og hyggur ekki á flutninga til Frakklands í bráð. „En kannski á ég einhvern tímann eftir að ferðast um Frakkland til að mála vatnslitamyndir af frönskum vitum,“ segir listakonan að lokum.

Hægt er að fylgjast með Mathilde á Instagram undir heitinu vitiproject. Þar má sjá myndir og myndbönd af ferðalögum hennar, auk vitateikninga. Einnig má skoða heimasíðu Mathilde mathildemorant.com.

Þessi grein birtist í 5. tbl. Framkvæmdafrétta.  Rafræna útgáfu má finna hér.   Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

Heimild: Vitar á Íslandi, Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002. Höfundar: Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson. Útgefandi: Siglingastofnun.

Mathilde segist varla geta gera upp á milli vitanna sem hún hefur skoðað og málað en Galtarviti er þó einn þeirra sem hún heldur hvað mest upp á.

Mathilde segist varla geta gera upp á milli vitanna sem hún hefur skoðað og málað en Galtarviti er þó einn þeirra sem hún heldur hvað mest upp á.

Mathilde er frá Frakklandi en flutti til Íslands fyrir fjórum árum.

Mathilde er frá Frakklandi en flutti til Íslands fyrir fjórum árum.