27. nóvember 2025
Klæða síðasta malarkafl­ann á Norð­austur­vegi

Klæða síðasta malarkaflann á Norðausturvegi

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu 7,6 km kafla á Norðausturvegi (85) um Brekknaheiði. Þetta er síðasti malarkaflinn á Norðausturvegi og eftir að framkvæmum lýkur verður hægt að aka á bundnu slitlagi frá Egilsstöðum alla leið til Þórshafnar.

Horft í átt að Þórshöfn af stað þar sem byggður verður nýr áningarstaður.

Horft í átt að Þórshöfn af stað þar sem byggður verður nýr áningarstaður.

„Ástandið á gamla veginum er orðið ansi aumt, hann er leiðinlega mjór og erfitt fyrir flutningabíla að mætast. Malarslitlagið er líka orðið lélegt og versnaði til muna í sumar vegna aukinnar umferðar sem tengdist framkvæmdinni,“ segir Sigvaldi Már Guðmundsson, eftirlitsmaður nýframkvæmda hjá Norðursvæði Vegagerðarinnar. Hann segir íbúa á svæðinu hafa beðið lengi eftir þessari uppbyggingu, enda var hún ein af forsendum sameiningar sveitarfélaganna árið 2006 þegar Langanesbyggð varð til með sameiningu Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps. „Þar með varð til eitt atvinnusóknarsvæði og fólk sækir vinnu hér milli bæjarfélaga,“ segir Sigvaldi. Hann bendir einnig á að vegurinn sé varavegur þegar Öræfin loki og henti vel sem slíkur, enda sé snjólétt á Brekknaheiði og sjaldan ófært.

Verkið ber heitið Norðausturvegur (85) um Brekknaheiði, Langa­nesvegur – Vatnadalur. Samið var við Skútaberg ehf. á Akureyri en áætlaður kostnaður er um 860 milljónir króna. Framkvæmdin felst í gerð Norðausturvegar á um 7,6 km kafla á Brekknaheiði. Útboðskaflinn hefst við ný vegamót Langanesvegar og Norðausturvegar og endar í Vatnadal á Brekknaheiði. Veglínan liggur frá Lónafirði við Þórshöfn, úr um 10 metrum yfir sjávarmáli og að klæðingarenda núverandi vegar í Vatnadal í um 408,5 m hæð. Vegurinn verður að mestu byggður upp í nýju vegstæði. „Nýi vegurinn þverar þann gamla á tveimur stöðum og svo er sá gamli endurbyggður á um það bil 300 metra kafla,“ lýsir Sigvaldi en í hönnun vegarins var horft til þess að draga töluvert úr halla hans.

Ný vegamót verða gerð á mótum Langanesvegar og Norðausturvegar og gatnamótin færð fjær bænum en þau lágu áður fremur nærri Þórshöfn. Vegurinn verður af gerðinni C7 og því 7 metra breiður.

Framkvæmdir hófust í vor og ganga ágætlega. Sigvaldi segir að ekki ætti að gæta mikillar röskunar á umferð meðan á framkvæmdum stendur þar sem lítið sé átt við gamla veginn, en þó megi alltaf búast við einhverjum töfum. Gamli vegurinn verður ekki rifinn heldur fær að standa og nýtist þeim sem þjónusta vatnstank og lagnir sem eru á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að gerð fyllinga vegna ferginga í vegstæðinu verði lokið nú í haust, styrktarlag verði tilbúið næsta haust og framkvæmdinni allri verði lokið í ágúst 2027.

Sigvaldi segir íbúa á svæðinu mjög spennta fyrir því að fá nýjan og uppbyggðan veg. „Þegar framkvæmdum er lokið verður allur Norðausturvegurinn orðinn góður og þá myndast líka flott leið til dæmis fyrir ferðafólk, sem getur þá ekið frá Egilsstöðum með viðkomu á Vopnafirði, Bakkafirði og Þórshöfn á leið sinni á Húsavík. Þessir ferðamenn geta síðan áð um stund á nýjum áningarstað sem byggður verður neðarlega við Norðausturveginn og horft yfir Þórshöfn og út á sjóinn.

Kort sem sýnir framkvæmdasvæðið.

Kort sem sýnir framkvæmdasvæðið.

Kort sem sýnir veglínu framkvæmdanna.

Kort sem sýnir veglínu framkvæmdanna.

Helstu magntölur í verkinu eru:

  • Bergskeringar í vegstæði 1.750 m3
  • Fyllingar 136.400 m3
  • Fyllingar í farg 53.500 m3
  • Fláafleygar 27.000 m3
  • Ræsalögn 544 m
  • Stálplöturæsi 26 m
  • Styrktarlag 39.200 m3
  • Burðarlag 12.000 m3
  • Klæðing 52.500 m2
  • Girðingar 500 m

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.

Stærstur hluti vegarins verður í nýju vegstæði. Hér er horft til vesturs eftir nýju veglínunni.

Stærstur hluti vegarins verður í nýju vegstæði. Hér er horft til vesturs eftir nýju veglínunni.