3. nóvember 2025
Kapp­akst­ursbraut í borg­inni?

Kappakstursbraut í borginni?

Í meistararitgerð í skipulagsfræði er reynt að svara spurningunni hvort mögulegt sé að setja upp götukappakstursbraut fyrir alþjóðlegar keppnir á höfuðborgarsvæðinu.

Sæbrautarstokkur – frá Vesturlandsvegi fram yfir gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogar

Sæbrautarstokkur – frá Vesturlandsvegi fram yfir gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogar

Á hverju ári breyta borgir á borð við Mónakó, Bakú og São Paulo götum sínum í tímabundnar kappakstursbrautir fyrir alþjóðlegar keppnir eins og Formúlu 1 og Formúlu E. Viðburðir af þessu tagi laða að sér hundruð þúsunda áhorfenda, bæði á staðinn og í gegnum sjónvarpsútsendingar. Slíkar keppnir krefjast umfangsmikilla framkvæmda og aðlögunar á vegakerfi borganna. Þetta var viðfangsefni meistararitgerðar Hugrúnar Hörpu Björnsdóttur í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands en Hugrún hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Markmið ritgerðarinnar var að kanna hvort, og hvar, væri mögulegt að koma fyrir götukappakstursbraut innan núverandi gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins, hvaða tækifæri slíkt gæti skapað og hvaða áskoranir myndu fylgja. Sérstök áhersla var lögð á viðmið Alþjóðlega akstursíþróttasambandsins (FIA) fyrir kappakstursbrautir og tengsl þeirra við skipulag og framkvæmdir í vegakerfi hér á landi.

Alþjóðleg viðmið sem grunnur

Viðmið FIA ná til margvíslegra atriða, eins og til dæmis lágmarksbreiddar og lengdar brauta, beinna kafla, staðsetningar útsendingabúnaðar og vegriða. Stuðst var við veghönnunarreglur Vegagerðarinnar í tengslum við vegrið og útbúin var sneiðmynd sem sýnir lágmarksbreidd vega miðað við viðmið FIA og veghönnunarreglur.

Þrír kostir skilgreindir

Sneiðmyndin var notuð til að velja þrjá kosti til nánari greiningar. Auk þess var horft til áhrifa á nærsamfélagið, svo sem á ferðamennsku, umferðarflæði, götulokanir, hávaða og annarra skipulagsþátta.

Kostirnir sem fjallað var um:

  1. Sæbraut – Snorrabraut – Miklabraut – Kringlumýrarbraut
  2. Vesturlandsvegur – Suðurlandsvegur
  3. Sæbraut – Katrínartún – Laugavegur – Kringlumýrarbraut

Kostirnir sem liggja um Sæbraut og Kringlumýrarbraut henta vel með tilliti til nálægrar þjónustu og gætu orðið auglýsing fyrir Reykjavíkurborg vegna staðsetningar við kennileiti. Gert er ráð fyrir ráslínu á Sæbraut, sem myndi krefjast breikkunar vegar til að mæta breiddarviðmiðum FIA. Það gæti jafnframt skapað tækifæri til að bæta almenningssamgöngur með nýrri sérakrein. Einnig þyrfti að breikka aðra vegi, stundum á kostnað miðdeila, og nota færanleg vegrið til að aðskilja akstursstefnur utan viðburðartíma. Slíkar breytingar þýða að loka þyrfti mikilvægum umferðaræðum milli borgarhluta austan og vestan Snorrabrautar, sem hefði neikvæð áhrif, meðal annars á neyðarakstur.

Vegna þessa þótti kosturinn Vesturlandsvegur – Suðurlandsvegur hentugastur af þessum þremur. Svæðið er nú atvinnusvæði með stofnæðum, bílasölum og flutningafyrirtækjum í nágrenni, en íbúðarbyggð hefur færst nær með uppbyggingu í Grafarholti og Úlfarsárdal og áformum við Keldur. Hér gætu skapast tækifæri til að þróa svæðið með íbúðum, þjónustu og jafnvel kappakstursbraut.

Áhrif á samgöngur og tækifæri til uppbyggingar

Tímabundnar lokanir á Vesturlands- og Suðurlandsvegi myndu hafa áhrif á daglegt líf íbúa, þar sem þetta eru lykilsamgönguæðar milli höfuðborgarsvæðisins, Vesturlands og Suðurlands. Tækifæri felast þó í að bæta flóttaleiðir og samgöngumannvirki, til dæmis með uppbyggingu Hafravatnsleiðar og með því að flýta framkvæmdum við Sundabraut.

Hvaða keppni hentar?

Formúla E gæti hentað betur en Formúla 1 hér á landi, þar sem brautir eru styttri en í Formúlu 1 og þjónustuinnviðir þurfa ekki að vera eins veigamiklir. Áhorfendafjöldi Formúlu 1 fer oft langt fram úr heildaríbúafjölda Íslands en áhorfendafjöldi Formúla E er mun viðráðanlegri miðað við íslenskar aðstæður. Í Formúlu E er aðeins keppt á rafmagnsbílum og í því gætu legið tækifæri til að auglýsa hreina íslenska orku.

Niðurstaða

Rannsóknin tekur ekki afstöðu til þess hvort ráðast eigi í framkvæmdir en sýnir að frá skipulagsfræðilegu sjónarhorni er það mögulegt. Þó þyrfti að skoða hagkvæmni, verkfræðilega þætti og efnahagsleg- og umhverfisáhrif nánar. Verkefnið sýnir að mögulegt er að nýta gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins á nýjan hátt og að vegagerð, skipulag og íþróttaviðburðir geta sameinast í einni spennandi framtíðarsýn.

Meistararitgerð Hugrúnar er aðgengileg á Skemmunni.

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.

Sæbraut – Snorrabraut – Miklabraut – Kringlumýrarbraut

Sæbraut – Snorrabraut – Miklabraut – Kringlumýrarbraut

Sæbraut – Katrínartún – Laugavegur – Kringlumýrarbraut

Sæbraut – Katrínartún – Laugavegur – Kringlumýrarbraut

Vesturlandsvegur – Suðurlandsvegur. Þessi kostur var talinn ákjósanlegastur.

Vesturlandsvegur – Suðurlandsvegur. Þessi kostur var talinn ákjósanlegastur.