Hvernig skal hefla?
Vegagerðin stendur reglulega fyrir námskeiðum fyrir veghefilstjóra en eitt slíkt var haldið í byrjun júní á Hótel Varmalandi í Borgarfirði. Þar komu saman veghefilstjórar og verkstjórar af landinu öllu til að efla færni sína í viðhaldi malarvega og kynna sér nýjustu verklagsreglur og aðferðir við heflun.
Tæknin er notuð til að eiga samskipti við nemandann á heflinum og leiðbeina honum um það sem betur má fara.
Um sjö þúsund kílómetrar af íslenska þjóðvegakerfinu, eða um 54%, eru malarvegir. Afar mikilvægt er að viðhaldi þeirra sé sinnt af fagmennsku og þekkingu. Markmið námskeiðsins er að tryggja að heflun vega sé unnin á samræmdan hátt, með öryggi í fyrirrúmi og með það að leiðarljósi að malarslitlög endist sem lengst.
Nemendur námskeiðsins voru 16 talsins, bæði vanir veghefilstjórar sem og óvanir, og einnig verkstjórar sem þurfa að vita út á hvað vegheflun gengur. Leiðbeinendur voru níu og kenndu mismunandi hluta námskeiðsins. Fyrsti dagurinn var bóklegur og fór í fræðilega umfjöllun um uppbyggingu malarvega, efnisval og efnafræði slitlaganna. Einnig var fjallað um öryggismál. Farið var yfir hvernig best sé að skipuleggja verk og meta árangur heflunar.
Á öðrum degi var lögð áhersla á verklega kennslu, þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að prófa mismunandi aðferðir heflunar. Verkstjórar fengu jafnframt fræðslu um skipulag vinnu, úttektir og nýtt skráningarkerfi til árangursmats.
Á síðasta degi námskeiðsins voru dregnar saman helstu niðurstöður, þátttakendur ræddu um reynslu sína og rætt var um hvernig bæta megi verklag til framtíðar. Kennarar lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi öryggis og skipulags, meðal annars með nýjum gátlistum og leiðbeiningum sem Vegagerðin hefur tekið upp.
Þátttakendur lýstu ánægju með námskeiðið og sögðu það bæði gagnlegt og hagnýtt. Með reglulegri fræðslu sem þessari er stuðlað að betri umhirðu malarvega, auknu öryggi og bættri umferðaröryggisreynslu fyrir alla vegfarendur.
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.
Á öðrum degi námskeiðsins voru gerðar verklegar æfingar.
Guðjón Hrannar Björnsson, yfirverkstjóri í Ólafsvík, að mæla hvort hallinn á veginum sé réttur.
Hinrik Þór Einarsson, yfirverkstjóri á Reyðarfirði, og Haukur Árni Hermannsson, eftirlitsmaður á Ísafirði, höfðu margt að ræða.
Að hefla rétt er ákveðin list.
Þátttakendur lýstu ánægju með námskeiðið og sögðu það bæði gagnlegt og hagnýtt.
Hafdís Eygló Jónsdóttir jarðfræðingur sýnir mismunandi gerðir slitlaga og leyfir mönnum að smakka.