11. desember 2025
Hús klætt með endur­nýtt­um vegriðum

Hús klætt með endurnýttum vegriðum

Vegagerðin tekur virkan þátt í hringrásarhagkerfinu og er reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að endurnýta allt nothæft byggingarefni. Slík efni hafa fyrst og fremst verið endurnýtt í vega- og brúargerð en nú nýlega voru gömul vegrið notuð í nýbyggingu við Frakkastíg 1 í Reykjavík, þar sem lögð var áhersla á lágt kolefnisspor og endurnotkun.

Hér sést hvar byrjað er að raða vegriðunum utan á húsið að Klapparstíg 1.

Hér sést hvar byrjað er að raða vegriðunum utan á húsið að Klapparstíg 1.

Fasteigna- og þróunarfélagið IÐA fasteignir ásamt arkitekt hússins, Arnhildi Pálmadóttir hjá Lendager á Íslandi, leitaðu til Vegagerðarinnar með þá ósk að fá að nýta gömul vegrið í klæðningar á húsinu. Vegagerðin tók vel í þá bón þar sem stofnunin  hefur síðastliðin ár staðið í ströngu við útskipti á eldri brúarvegriðum fyrir nýja vottaða tegund sem uppfyllir gildandi öryggiskröfur og staðla. Síðastliðið ár hefur Vegagerðin skipt út tæplega 700 lengdarmetrum af brúarvegriðum á þremur brúm, þ.e. yfir Þjórsá, Fnjóská og  Fífuhvammsveg. Um 87% af því efni sem til féll var endurnýtt í húsbygginguna við Frakkastíg eða 143 vegriðsplötur sem annars hefðu ekki átt möguleika á framhaldslífi nema með orkufrekri endurbræðslu erlendis.

Vegriðin þóttu ekki hæf til frekari notkunar í vegakerfi landsins, en efniviðurinn er engu að síður fyrsta flokks byggingarefni. Um er að ræða galvaniserað járn sem áður gegndi því hlutverki að vernda líf og limi vegfarenda, en hefur nú fengið nýtt hlutverk sem hluti af ytra byrði hússins við Frakkastíg 1.

Klæðning byggingarinnar er að fullu samsett úr endurnýttum efnum. Vegriðin mynda um 20% af heildarklæðningunni, á meðan steinar úr grunni hússins, sem umbreytt var í skífur, eru um 30%. Þá er um 50% klæðningarinnar úr álplötum sem annars hefði verið fargað vegna mistaka í vörupöntun fyrir annan kaupanda.

Áður en vegriðin voru sett upp voru þau þrifin og yfirfarin af verktaka og síðan sett upp samkvæmt burðarþolskerfi sem hannað var af verkfræðingi hússins, Hrund Einarsdóttur hjá Hannaverk.

Verkefnið er talið skýrt dæmi um hvernig endurnýting og skapandi hugsun geta dregið úr sóun verðmætra hráefna og stuðlað að sjálfbærari mannvirkjagerð. Nánari upplýsingar um uppbygginguna á Frakkastíg 1 má finna hér: Frakkastígur 1 | Sjálfbærni í verki — IÐA

Þjórsárbrú með nýjum og öruggari vegriðum.

Þjórsárbrú með nýjum og öruggari vegriðum.

Þjórsárbrú. Gömlu vegriðin voru nýtt í klæðningu á Klapparstíg 1.

Þjórsárbrú. Gömlu vegriðin voru nýtt í klæðningu á Klapparstíg 1.