26. september 2025
Hring­vegur lokaður til morg­uns

Hringvegur lokaður til morguns

Hringvegurinn austan Hafnar í Hornafirði mun ekki verða opnaður að nýju fyrr en í fyrsta lagi á morgun, laugardag. Veðurspáin er slæm, vatnsflæðið mjög mikið og engin leið að gera við veginn á meðan svo stendur á. Víða flæðir að vegum undir jöklum sérstaklega en ekki hefur komið lokana. Vegfarendur eru beðnir um að aka varlega og fylgjast vel með á umferðin.is

Vegur í sundur við Jökulsá í Lóni 26.9.2025

Vegur í sundur við Jökulsá í Lóni 26.9.2025

Lokunarpóstar eru við Almannaskarðsgöng og við Djúpavog. Björgunarsveitir manna lokunarpóstana og ráðleggja fólki. Þeir sem eiga erindi eða eru með búsetu handan lokunar fá að sjálfsögðu að aka um veginn, en þeim sem hyggjast komast lengra og yfir lokunina er vísað annað. Enda vegurinn í sundur og algerlega lokaður við Jökulsána.

Lokunin er á um 50 metra kafla auk þessa a.m.k. 100 metra rof er í varnargarði ofan vegarins.

Aðstæður verða metnar í birtingu í fyrramálið þannig að vegurinn verður lokaður til morguns og fram eftir degi, eins og þetta lítur út núna.

Aðrir vegir hafa ekki lokast en víða liggur vatn upp við veg eða á vegi en ekki í því magni að koma þurfi til lokunar. Þannig flæðir vatn yfir veg í Stöðvarfirði en ekki teljandi mikið, í Berufirði flæðir einnig aðeins yfir veg en úr því hefur dregið í dag og vatnaskemmdir eru einnig í Fáskrúðsfirði þar sem vatn flæddi lítillega inn á veg.

Búast má við áframhaldandi rigningu í dag sérstaklega upp til fjalla sem leiðir til áframhaldandi vatnavaxta, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Það rignir mikið á jökla, og þar sem það er hlýtt snjóar ekki, hiti er hár og því leysir gríðarlega mikið vatn. Það er því engin leið að loka rofinu í veginum og skynsamlegt að bíða þar til veður gengur niður og vatn tekur að sjatna.

Vegagerðin fylgist vel með brúnni yfir Jökulsá til að meta aðstæður.

Allar nýjustu upplýsingar er að finna á umferdin.is 

Gunnlaugur Ólafsson í Stafafelli rétt austan Jökulsárinnar tók þessi myndbönd sem fylgja fréttinni. Þau sýna vel umfang vatnavaxtanna.

Vegur í sundur við Jökulsá í Lóni 26.9.2025

Vegur í sundur við Jökulsá í Lóni 26.9.2025

Vegur í sundur við Jökulsá í Lóni 26.9.2025

Vegur í sundur við Jökulsá í Lóni 26.9.2025