30. maí 2024
Hraun runn­ið yfir vegi við Grinda­vík

Í kjölfar gossins sem hófst í gærdag hefur hraun runnið yfir Grindavíkurveg norðan við Grindavík og sunnan við Þorbjörn. Hraun hefur einnig flætt yfir Nesveg og Norðurljósaveg. Vegagerðin fylgist vel með þróun mála en bíða þarf átekta á meðan enn gýs og hraunrennsli er mikið.

Ekki ráðist í að endurbyggja vegi að svo stöddu

Ekki verður ráðist í að endurbyggja vegina að svo stöddu. Ákvörðun þar að lútandi verður tekin þegar ljóst er að hraunrennsli hefur stöðvast og hægt verður að skoða svæðið og ástandið á vegunum. Hanna þarf nýja veglínu á þá vegi sem eru farnir undir hraun til að tryggja virkni þeirra sem best með varnarmannvirkjum á svæðinu.

Unnið hefur verið að því að opna aftur leið um varnargarðinn á Grindavíkurvegi við Svartsengi til að fólk komist inn á svæðið að þjónusta orkuver HS orku. Öll almenn umferð er enn þá bönnuð en ákvörðun um breytingar á því verður tekin af lögreglustjóranum á Suðurnesjum í samráði við sérfræðinga Almannavarna.