9. desember 2025
Hóla­vegur (767) lagfærður í aðdrag­anda Lands­móts hesta­manna

Hólavegur (767) lagfærður í aðdraganda Landsmóts hestamanna

Unnið er að uppbyggingu þriggja vegkafla á Hólavegi (767) í Hjaltadal, samtals um fimm kílómetra.

Þrír kaflar verða lagaðir á leiðinni frá Hringvegi og upp að Hólum í Hjaltadal.

Þrír kaflar verða lagaðir á leiðinni frá Hringvegi og upp að Hólum í Hjaltadal.

Framkvæmdin er hluti af verkinu „Þurrfræsing á Norðursvæði 2025, Hringvegur (1) og Hólavegur (767)“, og er það fjármagnað með viðbótarfé sem Vegagerðin fékk úthlutað í fjáraukalögum síðastliðið sumar. Í verkinu felst annars vegar þurrfræsing og klæðingavinna á Hringvegi við Ljósavatnsskarð og hins vegar á Hólavegi í Hjaltadal í Skagafirði sem hér verður fjallað um.

„Þessi vegur var frekar mjór og hluti hans orðinn mjög gamall. Ég held það hafi verið á níunda áratugnum sem settur var mulningur í gamla vegstæðið og klæðing yfir. Sá hluti vegarins er núna orðinn mjög siginn og ósléttur,“ segir Stefán Öxndal á umsjónardeild Vegagerðarinnar á Norðursvæði.

Í þessari framkvæmd verða lagaðir þrír kaflar á leiðinni frá Hringvegi og upp að Hólum í Hjaltadal. „Fyrsti kaflinn hefst um 300 metra frá Hringveginum og er um þrír kílómetrar. Síðan verður tekinn um kílómeterslangur kafli aðeins innar á veginum. Sá var raunar byggður upp fyrir einhverjum árum en liggur um mýrarkafla og er orðinn mjög missiginn,“ lýsir Stefán.

Síðasti kaflinn sem verður lagaður er 300 metra bútur upp að Hólum sem Stefán segir að hafi verið eldgamall vegur sem á einhverjum tímapunkti hafi verið lögð klæðing á. Í verklýsingu kemur fram að framkvæmdin gangi út á annars vegar fræsingu á núverandi slitlagi/burðarlagi, akstur og útlögn á burðarlagi og tvöfalda klæðingu. Samhliða fræsingu skuli jafna hæðarlegu og þverhalla vegarins.

Framkvæmdin var boðin út í ágúst og samið við Borgarverk sem var lægstbjóðandi. Verktakinn byrjaði á að laga Hringveginn í Ljósavatnsskarði en færði sig í Hjaltadalinn í september. Þar sem ekki má leggja út klæðingu þegar kólna fer í veðri þarf að klára verkið næstkomandi vor.

Alltaf verða einhverjar tafir á umferð vegna vegaframkvæmda en Stefán segir heppilegt að fólk geti ekið Ásaveginn heim að Hólum en hann liggur hinum megin við Hjaltadalsána.

Landsmót hestamanna verður haldið á Hólum næsta sumar og er von á nokkur þúsund gestum. Stefán segir að brýnt hafi þótt að laga veginn fyrir þann viðburð. Erfitt sé fyrir tvo stóra bíla að mætast á veginum, sérstaklega með hestakerrur. Þá sé mjög erfitt að aka með slíka kerru um veginn þar sem hann gangi allur í bylgjum.

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 4. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.

Verktaki er Borgarverk.

Verktaki er Borgarverk.

Á nokkrum stöðum þurfti að laga hæðarlegu vegarins.

Á nokkrum stöðum þurfti að laga hæðarlegu vegarins.