16. september 2022
Hjóla­stígur form­lega opnaður í Samgöngu­viku

Hjólastígur formlega opnaður í Samgönguviku

Nýr hjólastígur, sem er hluti af heildarleið sem liggur frá Höfðabakka að Breiðholtsbraut í Elliðaárdal, verður formlega opnaður í Samgönguviku 2022, laugardaginn 17. september. Stígurinn mun gera hjólandi vegfarendum kleift að ferðast örugglega og greiðlega um Elliðaárdalinn, sem er vinsælt útivistarsvæði fyrir íbúa og ferðamenn.

Þessi nýi spölur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og ríkisins, sem miðar að því að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar, þar sem Reykjavíkurborg hefur séð um framkvæmd stígsins, frá hönnun til uppbyggingar. Vegagerðin hefur haft yfirumsjón með öryggis- og gæðamálum verkefnisins, sem tryggir að stígurinn uppfylli bæði öryggis- og notendakröfur.

Opnun stígsins verður hluti af Samgönguviku 2022, sem er árlegt verkefni sem miðar að því að hvetja fólk til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta, svo sem hjólreiðar og göngu, og að vekja athygli á mikilvægi öruggra og skilvirkra samgangna. Með nýja hjólastígnum eykst aðgengi að mikilvægu hjólastíganeti, stígurinn tengir saman hverfi og atvinnusvæði og stuðlar að heilbrigðari og vistvænni samgöngum fyrir alla.

Stígurinn hefur verið opinn fyrir umferð frá því í sumar en framkvæmdin er liður í því að aðskilja gangandi og hjólandi umferð í dalnum.

Fjölbreyttur ferðamáti

„Veljum fjölbreytta ferðamáta“ er yfirskrift Samgönguviku í ár, en hún hefst 16. september og stendur til 22. september. Þema ársins 2022 er „virkari samgöngur“. Vísar yfirskrift Samgönguvikunnar til þess ávinnings sem er af því að einskorða sig ekki við eina tegund samgangna heldur nýta til fulls þá möguleika sem ólíkir samgöngumátar bjóða upp á.

Viðburðir verða haldnir á vegum félagasamtaka og sveitarfélaga, en nálgast má upplýsingar um dagskrána á Facebook síðu vikunnar.

Hjólalest á laugardegi og stígur opnaður

Meðal annars verður efnt til hjólaævintýris á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið er til samhjóls. Verða sveitarfélögin tengd saman í þremur hjólalestum sem hjóla frá bæjarskrifstofunum í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Reykjavík og Mosfellsbæ.

Hjólalestirnar munu hittast við Gömlu vatnsveitubrúna í Elliðaárdal (aftan við Árbæjarlaug). Áætlaður komutími lestanna þangað er 15:00 til 15:10. Þar verður boðið upp á frían ís frá Skúbb. Þar munu fulltrúar Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og Betri samgangna ohf. opna áðurnefndan hjólastíg formlega sem liggur um Elliðaárdalinn og bjóða upp á kleinur og svaladrykk.

Vikunni lýkur á Bíllausa deginum, 22. september, þegar almenningur er hvattur til þess að skilja bílinn eftir heima og til að auðvelda það býður Strætó ókeypis í strætó á höfuðborgarsvæðinu. Samgöngustofa mun svo standa fyrir Umferðarþingi föstudaginn 23. september.

Nýr hjólastígur í Elliðaárdal liggur frá Höfðabakka að Breiðholtsbraut.

Nýr hjólastígur í Elliðaárdal liggur frá Höfðabakka að Breiðholtsbraut.